Erlenda borgin er hið vænasta völundarhús sem við þræðum í leit að duldum djásnum


Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég fann mér fyrirtaks borð í skugga gamals krónubreiðs trés, settist niður og virti fyrir mér iðandi torgið—eitt af svo mörgum hér í borginni sem ég var smám saman farinn að kalla heimaborg mína. Himininn var heiður og talsverður fjöldi fólks var kominn saman í sunnudagsmorgunsólinni—fólk á öllum aldri, skrafhreifin gamalmenni, unglingar dansandi á línu sem strengd hafði verið á milli tveggja trjáa, börn hlaupandi um og eltandi dúfur undir vökulum foreldraaugum.

Þjónn kom yfir að borðinu og ég aus næstum öllu úr viskubrunni mínum um mál innfæddra við það eitt að panta mér mjólkurkaffi. Þegar drykkurinn kom á borðið opnaði ég bókina sem ég hafði keypt á gagnstæðu horni torgsins. Ég starði á blaðsíðuna sem blasti við mér, umbreytti ókunnugum orðum yfir í ennþá meira framandi hljóð í höfði mér, án þess að geta þó lagt nokkra merkingu í það sem ég las. Það voru svo margar framandi hliðar á lífi mínu þessa dagana—veðrið, nöfnin, siðirnir, málið…

„♪ … ♪ … ♪ … ♪ …?”

Ég leit upp frá bókinni og virti fyrir mér konuna sem hafði yrt á mig á tungu heimafólks. Ég hafði ekki skilið orð af því sem hún hafði sagt en af hljómfallinu að dæma þá gat ég mér þess til að um spurningu hefði verið að ræða.

„Ég bið forláts, ég tala ekki málið,“ svaraði ég á lingua franca sem ég vonaði að hún skyldi.

„Ég skil. Ég spurði bara hvort þessi stóll væri laus.“

„Ó. Já. Gerðu svo vel.“

Andstætt því sem ég hafði gert ráð fyrir þá greip konan ekki stólinn og fór með hann að nærliggjandi borði heldur settist hún niður við borðið mitt. Ég brosti vandræðalega til þess að hylja undrun mína. Ég var ekki viss hvort ég ætti að snúa mér aftur að lestri eða hvort hún byggist við að ég veitti henni athygli, svo að á endanum starði ég bara á hana þar sem hún snéri sér við í stólnum, hóaði á þjóninn og, ef ég skildi rétt, pantaði sér espressókaffi.

„Áhugaverður lestur?“ Hún kinkaði kolli í átt til bókarinnar sem ég hafði ennþá opna fyrir framan mig.

„Tja…“ Ég var ekki viss hverju ég ætti að svara.

„Þú getur þá lesið málið okkar en ekki talað það?“

„Eiginlega… lesturinn er ekki endilega vandamálið… það er merkingin sem vefst fyrir mér.“

„Leyfði mér að sjá,“ sagði hún og teygði sig eftir bókinni. „Erlenda borgin er hið vænasta völundarhús sem við þræðum í leit að duldum djásnum,“ las hún upphátt. „Það er það sem fyrsta setningin segir.“

„Takk,“ sagði ég og tók við bókinni er hún rétti hana til baka. Ég nældi í penna og páraði þýðinguna efst á síðuna. Þetta ætti að hjálpa mér af stað við að ráða fram úr áframhaldandi textans.

„Verði þér að góðu!“ Hún skellti í sig í einum gúlsopa espressókaffinu sem þjónninn hafði sett á borðið fyrir framan hana, setti nokkrar smámyntir á borðið, stóð upp, gekk út á torgið og hvarf inn í mannhafið.