Um Urban Volcano

Urban Volcano er forlag sem gefur út ritverk Barkar Sigurbjörnssonar. Hér á vefnum má finna smásögur, örsögur og ljóð höfundarins.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

Börkur fæddist í Reykjavík 1976, en hefur undanfarna tvo áratugi flakkað um heiminn í leit að menntun og atvinnu, með langvarandi dvöl í Amsterdam, Barcelona, Düsseldorf og London. Börkur er tölvunarfræðingur að mennt og starfar í þeim geira, jafnframt því að sinna ritstörfum.

Fyrsta bók Barkar var smásagnasafnið 999 Erlendis sem kom út árið 2012 og segir sögur af Íslendingum á erlendri grund. Árið 2017 kom út örsagnasafnið 52 augnablik sem er afrakstur árslangs verkefnis þar sem höfundurinn birti myndskreytta örsögu í hverri viku. Smásagnasafnið Talaðu við ókunnuga kom út sumarið 2019 og segir, eins og titillinn gefur til kynna, frá samkiptum okkar við ókunnuga.

Flest ritverk Barkar eru fáanleg sem rafbækur og kiljur á íslensku, ensku og spænsku.