Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Baráttubókin

Baráttubókin — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Svo langt aftur í tímann sem Marteinn gat munað, hafði hann dreymt um að segja söguna af baráttu sinni við krónísk veikindi. Hann langaði að skrifa bók um það hvernig hann hafði lifað sárkvalinn áratugum saman—segja sögurnar af endalausum sjúkrahúsheimsóknum og löngum bataferlum þess á milli, þar sem tíminn leið á hraða snigilsins og einkenndist af óbærilegum sársauka og brostnum vonum.

Verkið myndi ekki einungis lýsa líkamlegri kvöl langtíma sjúkrahúslegu. Það myndi einnig varpa ljósi á andlegu streituna og nagandi óvissuna sem lá stanslaust yfir honum og hans nánustu eins og svart óveðursský. Hann myndi opna sig varðandi það hvernig Berglind konan hans hafði brotnað undan álaginu sem fylgdi krankleika hans og hvernig hjónabandið tættist sundur í kjölfarið—með þeim afleiðingum að saklaus börnin, Már og Mara, voru á sífelldu flakki milli tveggja heimila.

Síðast en ekki síst vildi Marteinn svipta hulunni af spilltu og siðlausu heilbrigðiskerfi þar sem þrælduglegir vinnuþjarkar eins og hann sjálfur voru troðnir niður í svaðið og í óeiginlegri merkingu látnir blæða út á götum úti á meðan kapítalíska elítan var höndluð af kostgæfni.

Þegar allt kom til alls, þá voru forlögin ekki á Marteins bandi og honum gafst aldrei færi á að láta draum sinn rætast. Hann var alltaf fílhraustur.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/