Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Mannspeglar

Mannspeglar — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Mér myndi aldrei detta það í hug að fara í göngutúr eins míns liðs,“ sagði samstarfskona mín þegar talið barst í kaffihléinu að atburðum helgarinnar og ég sagðist hafa farið í langan göngutúr upp með Amstel.

„Hvers vegna ekki?“ spurði ég hissa. „Það er ekki eins og það leynist margar hættur þarna á árbökkunum. Sérstaklega ekki um hábjartan dag.“

„Ég er ekki hrædd,“ sagði hún ákveðin. „Ég vil bara ekki að fólk haldi að ég sé einmana.“

„En ertu það?“

„Hvað?“

„Einmana?“

„Auðvitað ekki.“

Hún flýtti sér svo að beina samtalinu á aðrar brautir og ég fylgdi henni þangað, jafnvel þótt mér fyndist við eiga ýmislegt órætt um þetta efni. Ég get sett mig í hennar spor. Ég hafði einu sinni verið á sama stað í lífinu. Sífellt að spegla mig í augum annarra. Ég hafði haft sífelldar áhyggjur af því að uppfylla ekki væntingar samfélagsins varðandi það hvernig fólk ætti að vera og hvernig ekki. Ég hafði hegðað mér eins og ég hélt að fólk gerði ráð fyrir að ég ætti að hegða mér.

Nú var af sem áður var. Mér hafði tekist að beina augum mínum inn í mína eigin sál í stað þess að leita sífellt að sjálfum mér í augnaráði heimsins. Það veitti mér ró.

Ég einsetti mér að reyna einhvern daginn að hjálpa samstarfskonu minni að líta heiminn sömu augum. En ekki í dag. Hún var ekki skapi til þess.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/