Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Heiðarleg vinna

Heiðarleg vinna — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Er ekki bara kominn tími til þess að fá sér heiðarlega vinnu?“

Ég veit að þetta var sakleysisleg spurning og hún meinti ekkert illt með henni. Henni var annt um mig. Hún vildi hjálpa mér. Hún taldi mig vera hjálpar þurfi. Spurningin stuðaði mig samt sem áður. Ég túlkaði orð hennar eins og bergmál klisjukennds áfellisdóms samfélagsins yfir mínum lífsstíl.

Mér fannst eins og samfélagið þyldi ekki að ég ynni stopula vinnu sem verktaki og tæki mér tíma þess á milli til þess að hugsa. Tíma til þess að rölta stefnulaust um götur borgarinnar. Tíma til þess að horfa á heiminn snúast í kringum mig. Tíma til þess að fanga orð sem ég fann á förnum vegi, hripa þau niður í stílabók og raða svo saman í ljóð.

Mér var fullkomlega ljóst að samfélagið vorkenndi mér fyrir að leigja herbergiskytru í fyrrum atvinnuhúsnæði í miðbænum þegar því fannst ég hæglega geta verið millistjórnandi í stórfyrirtæki og keypt mér einbýlishús í einu úthverfinu. Samfélaginu fannst ég vera að kasta hæfileikum mínum á glæ með því að rölta hægt um bæinn í stað þess að þeysast um göturnar á Dodge RAM.

Samfélaginu fannst það ekki heiðarlegt af mér að gera ekki allt sem í mínu valdi stæði til þess að hámarka verga landsframleiðslu. Gjaldeyristekjurnar maður! Gjaldeyristekjurnar! Samfélaginu fannst ég ekki borga nógu háa skatta svo að hægt væri að gefa fleiri gagnaverum skattaafslátt til þess að grafa rafmyntir. Það var hneykslað yfir þeim töpuðu tækifærum til þess að nýta græna orku sem löturhægi og órafmagnaði þvælingur minn leiddi af sér.

Samfélagið hafði sínar væntingar og ég var ekki að uppfylla þær.

Samfélagið mátti eiga sig. Ég var sáttur við minn hlut.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/