Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Lífið streymir áfram

Lífið streymir áfram — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Hann situr á brúninni og horfir yfir kraftmikið fljótið sem færist í iðuköstum eftir gljúfrinu undir fótum hans. Krafturinn er óstjórnlegur. Vatnið slengist barma milli á leið sinni til hafs. Örfáum andartökum áður hafði hann horft yfir ána ofar í dalnum og dáðst að því hversu rólegur straumurinn var í breiðum árfarveginum. Hann örvæntir ekki. Hann veit að neðar í landinu breikkar fljótið á ný og streymið róast.

Tíminn er vatnið—lífið er fljótið.

Stundum tökum við ákvörðun um að beina lífinu á betri braut. Við setjum okkur skýr markmið. Snúum taflinu okkur í hag. Göngum lífsins veg í rólegum öruggum skrefum. Færum annan fótinn fram fyrir hinn. Drögum andann rólega og endurtökum. Svo tekur lífið bara allt í einu aðra stefnu. Án þess að hafa nokkuð samráð við okkur. Án þess að við höfum nokkuð um það að segja. Við missum stjórnina. Við neyðumst til að fylgja straumnum. Einbeitum okkur að því að halda höfðinu upp úr vatninu þangað til við náum aftur tökum á tilverunni og finnum aftur tækifæri til þess að rétta úr kútnum. Tækifæri til þess að beina lífinu aftur í þann rólega og þægilega farveg sem okkur hugnast.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/