Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Rithendur

Rithendur — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég skvetti köldu vatni framan í mig til þess að hressa mig við í morgunsárið. Fingurgómarnir gældu við andlitið er þeir runnu frá enni niður á höku. Ég opnaði augun og fann líkamann vakna til lífsins.

Mér var litið á hendurnar og fannst ég ekki kannast við þær—fölar, grannar og æðaberar. Gat verið að þetta væru sömu hendur og höfðu reynst mér svo vel í gegnum áratugina? Hendurnar sem höfðu unnið langa daga á smíðaverkstæðinu og skrifað heilu ljóðabálkana á myrkum vetrarkvöldum.

Ég settist við skrifborðið, tók penna í aðra hönd og hélt blaði kyrru með hinni. Orðin flæddu úr pennanum og hver ljóðlínan birtist á fætur annarri. Ég kannaðist heldur betur við rithöndina og ljóðastíllinn var sá sem ég hafði tamið mér í gegnum árin.

Þetta voru þá að öllum líkindum mínar hendur eftir allt saman.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/