Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Ljóð

Sérviska

Svo margar reglur, svo mörg lög,
stjórna vorum gjörðum.
Vort líf er taktfast, sem hjartans slög,
stjórnað af laganna vörðum.

Ég vil heldur gjalda fyrir eigin syndir,
en annarra manna réttlæti.

Hvað er fínt, og hvað er flott,
fræðumst við af fagurkerum.
Hvað er göfugt, og hvað er gott,
getum numið af lærðum kverum.

Ég vil heldur eigin smekkleysu,
en annarra manna stíl.

Eitt mælti spekingur, og taldi satt,
skrifað var í reglubók.
Mót mælti smælingi, og taldi satt,
skríkt var í hverjum krók.

Ég vil heldur trúa eigin lygi,
en annarra manna sannleik.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/