Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Hættu að tala við sjálfan þig

Aðrar útgáfur: PDF | english

Hættu að tala við sjálfan þig — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Hættu að tala við sjálfan þig!“

Ég leit í átt til systur minnar þar sem hún lá á sófanum með opna bók í kjöltunni og penna við hönd. Hún sendi mér stíft augnaráð sem átti vafalaust að fylgja orðum hennar eftir, djúpt undir skinnið og inn í sálina. Orð hennar höfðu engin áhrif á mig. Þau hrukku af mér eins og öldur af sléttpússuðum steini.

„Ég er ekkert að tala við sjálfan mig,“ svaraði ég. „Ekki upphátt að minnsta kosti.“

„Kannski ekki upphátt í venjulegum skilningi,“ viðurkenndi hún. „En líkamstjáningin sem þú beitir þegar þú gengur um gólf segir allt sem segja þarf um það að þú ert að tala við sjálfan þig. Og það á frekar háum nótum. Frekar ærandi. Verð ég að segja.“

„Og hvað með það þó ég sé að tala við sjálfan mig?“ spurði ég og gerði hlé á göngu minni í kringum borðstofuborðið til þess að geta einbeitt mér að samræðunum.

„Það er krípí,“ hélt hún fram áður en hún blés út tyggjókúlu sem hún gleypti svo jafnóðum. „Af hverju getur þú ekki verið eðlilegur?“

Eðlilegur. Hvað var það nú?

„Og hvað þykist þú vera að gera?“ spurð ég á móti og ranghvolfdi augunum.

„Hvað sýnist þér?“ spurði hún og lyfti bókinni sem hún hafði verið að skrifa í. „Ég er að skrifa í dagbókina mína. Það er að segja þegar ég næ einbeitingu milli hljóðlausu öskranna frá þér.“

„Má ég lesa?“

„Nei.“

„Má einhver lesa?“

„Nei,“ sagði hún og lokaði bókinni eins og til öryggis til þess að undirstrika orð sín. „Þetta er mín dagbók og hana les enginn nema ég.“

„Ert þú þá bara ekki alveg eins að tala við sjálfa þig og ég að tala við sjálfan mig?“ spurði ég og hóf á ný að ganga í kringum borðstofuborðið, passandi mig á því að stíga rétt niður á gólfteppið svo að iljarnar pössuðu inn í mynstrið á teppinu.

„Það er tvennt ólíkt,“ andvarpaði hún. „Það er eðlilegt að skrifa dagbók en það er ekki eðlilegt að tala við sjálfan sig. Af hverju færð þú þér ekki dagbók eins og annað siðmenntað fólk?“

Hún opnaði dagbókina sína á ný og gerði sig líklega til þess að halda áfram að skrifa. Ég gaf mér tíma til þess að hugsa hverju ég gæti svarað. Hægri fótur með fimm gráðu útskeifu horni. Vinstri fótur með fimm gráðu innskeifu horni.

„Mig langar það ekki,“ sagði ég loks eftir nokkurra sekúndna umhugsun. „Ég kann ekki við að skilja eftir mig pappírsslóð. Það er líka sjálfbærara að tala við sjálfan sig. Lægra kolefnisspor.“

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/