Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

„Hættu að tala við sjálfan þig!“

Ég leit í átt til systur minnar þar sem hún lá í sófanum og sendi mér stíft augnaráð sem átti vafalaust að fylgja orðum hennar eftir, djúpt inn í mitt auma sálartetur.

Hættu að tala við sjálfan þig — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Ég er ekkert að tala við sjálfan mig,“ svaraði ég. „Ekki upphátt að minnsta kosti.“

„Kannski ekki upphátt í venjulegum skilningi en líkamstjáningin sem þú beitir þegar þú gengur um gólf segir allt sem segja þarf um það að þú ert að tala við sjálfan þig—og það á frekar háum nótum.“

„Og hvað með það þó ég sé að tala við sjálfan mig?“

„Það er krípí. Af hverju getur þú ekki verið eðlilegur?“

„Og hvað þykist þú vera að gera?“

„Hvað sýnist þér? Skrifa í dagbókina mína. Það er að segja þegar ég næ einbeitingu milli hljóðlausu öskranna frá þér.“

„Má ég lesa?“

„Nei.“

„Má einhver lesa?“

„Nei, þetta er mín dagbók og hana les enginn nema ég.“

„Ert þú þá bara ekki alveg eins að tala við sjálfa þig og ég?“

„Það er tvennt ólíkt. Það er eðlilegt að skrifa dagbók en það er ekki eðlilegt að tala við sjálfan sig. Af hverju færð þú þér ekki dagbók eins og annað siðmenntað fólk?“

„Mig langar það ekki. Ég kann ekki við að skilja eftir mig pappírsslóð. Það er líka sjálfbærara að tala við sjálfan sig. Lægra kolefnisspor.“