Ég reima á mig hlaupaskóna eins og svo oft áður þegar ég finn kvíðann taka yfir þankaganginn. Þegar ég finn efann naga í heilabörkinn. Þegar þokuský líða yfir hugsanirnar og byrgja mér sýn. Þegar ég veit varla í hvorn fótinn ég á að stíga. Þá reima ég á mig hlaupaskóna og þvinga sjálfan mig til að stíga kerfisbundið til skiptis í annan fótinn og svo í hinn. Án þess að þurfa að velja. Eitt skref í einu.
Á hlaupum næ ég oft að koma stjórn á hugsanirnar. Ég reyni að skilja betur vandamálin sem ég stend frami fyrir. Þau eru jafnan af svipuðum toga og áður—ef ekki þeim sama. Engar stórar breytingar, engar stórar uppgötvanir, en það er gott að rifja upp. Hlaupin hjálpa mér við að ímynda mér og skipuleggja næstu hænuskref sem ég get tekið í áttina að lausn vandamálanna. Ég stíg fyrst í annan fótinn og svo í hinn. Endurtek svo eftir þörfum.
Á hlaupum dagsins gerist hins vegar ekkert af þessu. Það eina sem fer um huga minn er síendurtekin yfirferð yfir lagið úr Ljóma auglýsingunni. Lofið sem hann fær. Hvernig hann fæðir. Hvernig hann nærir. Sömu laglínurnar aftur og aftur frá því að legg af stað frá garðshliðinu þangað til ég lýk við síðustu teygjuæfinguna.
Svona er þetta stundum. Stundum rætist það sem lagt er upp með. Stundum ekki. Þá verð ég bara að taka því og reyna aftur seinna.