Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Lífið eins og það á að vera

Aðrar útgáfur: PDF | english

Lífið eins og það á að vera — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Hún gekk eftir holóttum malarveginum inn dalinn. Sól skein í heiði og ekki bærðist strá í vindi. Fjöllin gnæfðu tignarleg yfir dalnum og eftir dalbotninum liðaðist áin. Vatnið flæddi áfram, óþreyjufullt eftir að komast út í hafsauga. Lækjarsprænur runnu niður hlíðarnar beggja vegna árinnar uns þær féllu saman við iðandi fljótið.

Hann gekk eftir jaðri breiðstrætisins í átt til aðaltorgsins. Sólin skein glatt og ekki bærðist hár á höfði. Beggja vegna strætisins teygðu hávaxnir turnar sig upp mót himni og eftir strætinu liðaðist stríður straumur fótgangandi vegfarenda á leið sinni til neðanjarðarlestarstöðvarinnar. Út úr byggingum og hliðargötum streymdi fólk sem hafði lokið sínum vinnudegi og rann saman við ólgandi mannhafið.

Hún hlustaði á niðinn frá ánni, jarmið í kindunum og söng fuglanna. Kunnugleg tungumál sem runnu saman í eina heild. Tungumál náttúrunnar. Kunnuglegt. Auðskilið.

Hann hlustaði á kliðinn frá fólkinu, þvoglumæltum unglingum, háværum ferðamönnum og hæglátum skrifstofublókum. Framandi tungumál sem runnu saman í eina heild. Tungumál borgarinnar. Framandi. Torkennilegt.

Hún steig út af veginum og rölti ofan hlíðina niður í dalbotninn. Hún naut þess að vera úti í náttúrunni. Fyrir henni var landslagið lifandi verur. Hún leit frá þúfu til steins—frá steini til þúfu. Hún heilsaði mosaskeggvöxnu stórgrýti og spurði hvort það væri nokkuð einmana í ellinni. Hún ávarpaði úfna þúfu og spurði hvort það væri ekki dásamlegt að vaxa og dafna í sólinni.

Hann færði sig frá jaðri strætisins og lét sig fljóta með mannmergðinni í átt að torginu. Hann naut þess að vera einn í fjöldanum. Fyrir honum var fólkið hluti af landslaginu. Hann leit í andlit vegfarendanna sem börðust einbeittir á móti straumnum. Hann leit í steinrunnið andlit miðaldra manns sem starði fram fyrir sig og virðist aðeins vera með hugann við að komast á næsta áfangastað í lífinu. Hann leit í glaðbeitt andlit unglingsstúlku sem talaði af innlifun út í bláinn og inn í handfrjálst símtól.

Henni leið eins og hún væri umvafin ys og þys—samofin umhverfinu sem veitti henni gagnkvæma athygli og myndaði eina heild. Hún naut þess að hrærast í ólgandi hringiðu náttúrunnar.

Honum leið eins og hann væri einn í heiminum—einangraður frá fólkinu í kringum hann sem skeytti engu um hans tilvist. Hann naut þess að vera einn í sæfðu mannhafinu.

Þau litu fram á veginn, brostu og hugsuðu—hún upphátt en hann í hljóði—svona er lífið eins og það á að vera.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/