Hún gekk eftir holóttum malarveginum inn dalinn. Sól skein í heiði og ekki bærðist strá í vindi. Fjöllin gnæfðu tignarleg yfir dalnum og eftir dalbotninum liðaðist áin. Vatnið flæddi áfram, óþreyjufullt eftir að komast út í hafsauga. Lækjarsprænur runnu niður hlíðarnar beggja vegna árinnar uns þær féllu saman við iðandi fljótið.
Hann gekk eftir jaðri breiðstrætisins í átt til aðaltorgsins. Sólin skein glatt og ekki bærðist hár á höfði. Beggja vegna strætisins teygðu hávaxnir turnar sig upp mót himni og eftir strætinu liðaðist stríður straumur fótgangandi vegfarenda á leið sinni til neðanjarðarlestarstöðvarinnar. Út úr byggingum og hliðargötum streymdi fólk sem hafði lokið sínum vinnudegi og rann saman við ólgandi mannhafið.
Hún hlustaði á niðinn frá ánni, jarmið í kindunum og söng fuglanna. Kunnugleg tungumál sem runnu saman í eina heild. Tungumál náttúrunnar. Kunnuglegt. Auðskilið.
Hann hlustaði á kliðinn frá fólkinu, þvoglumæltum unglingum, háværum ferðamönnum og hæglátum skrifstofublókum. Framandi tungumál sem runnu saman í eina heild. Tungumál borgarinnar. Framandi. Torkennilegt.
Hún steig út af veginum og rölti ofan hlíðina niður í dalbotninn. Hún naut þess að vera úti í náttúrunni. Fyrir henni var landslagið lifandi verur. Hún leit frá þúfu til steins—frá steini til þúfu. Hún heilsaði mosaskeggvöxnu stórgrýti og spurði hvort það væri nokkuð einmana í ellinni. Hún ávarpaði úfna þúfu og spurði hvort það væri ekki dásamlegt að vaxa og dafna í sólinni.
Hann færði sig frá jaðri strætisins og lét sig fljóta með mannmergðinni í átt að torginu. Hann naut þess að vera einn í fjöldanum. Fyrir honum var fólkið hluti af landslaginu. Hann leit í andlit vegfarendanna sem börðust einbeittir á móti straumnum. Hann leit í steinrunnið andlit miðaldra manns sem starði fram fyrir sig og virðist aðeins vera með hugann við að komast á næsta áfangastað í lífinu. Hann leit í glaðbeitt andlit unglingsstúlku sem talaði af innlifun út í bláinn og inn í handfrjálst símtól.
Henni leið eins og hún væri umvafin ys og þys—samofin umhverfinu sem veitti henni gagnkvæma athygli og myndaði eina heild. Hún naut þess að hrærast í ólgandi hringiðu náttúrunnar.
Honum leið eins og hann væri einn í heiminum—einangraður frá fólkinu í kringum hann sem skeytti engu um hans tilvist. Hann naut þess að vera einn í sæfðu mannhafinu.
Þau litu fram á veginn, brostu og hugsuðu—hún upphátt en hann í hljóði—svona er lífið eins og það á að vera.