„Íslenska trúin á álfa og huldufólk er nú eitt aldeilis bölvað helvítis rugl,“ sagði amma þar sem við sátum í samkomusal elliheimilisins og tefldum.
„Hvað þá?“ spurði ég hissa og fannst þessi athugasemd hafa verið gripin úr ansi lausu lofti. „Hvers vegna segir þú það?“
„Þegar ég var ung,“ hóf amma söguna eins og hún gerði svo oft á sínum efri árum. „Þá var ég send að sækja kýrnar út á tún á hverjum degi. Hvern einasta dag gekk ég því fram hjá Breiðahrauni sem var altalað fyrir að vera byggð álfa og huldufólks. Í hvert sinn sem ég gekk framhjá álfabyggðinni talaði ég til álfanna og óskaði mér að ég yrði skáld.“
Amma gerði hér hlé á sögu sinni á meðan hún drap peð með biskup og skákaði mig.
“Og hvað gerðist svo?“ hélt hún svo áfram að drápi loknu. „Ég flutti til Reykjavíkur, lærði lögfræði, stofnaði mína eigin stofu og endaði uppi sem dómari í hæstarétti.“
Hún gerði aftur hlé á máli sínu, leit upp frá taflborðinu og út um gluggann.
„Ég varð hins vegar aldrei skáld.“
Þessi saga byggir á sannsögulegum atburðum.