Ég bíð eftirvæntingarfullur eftir svari. Það eru liðnir fimmtíu og fimm tímar síðan ég ýtti á takkann og sendi inn umsóknina þar sem ég sótti um stöðu teymisstjóra innkaupadeildarinnar. Þetta var staðan sem mig hafði dreymt um að landa síðustu tvö ár. Fyrir um tveimur árum hafði núverandi teymisstjóri sagt mér að hún væri byrjuð að telja niður dagana þangað til hún kæmist á eftirlaun. Þá voru dagarnir sjöhundruð þrjátíu og fjórir.
Í tvö ár hafði ég undirbúið þessa stund. Ég hafði fylgst gaumgæfilega með því hvernig yfirmaður minn vann sitt starf. Hvernig hún tók ákvarðanir. Hvernig hún kom fram við okkur hin. Hvernig hún skipulagði vinnu teymisins.
Ég hafði setið kvöld eftir kvöld í stofunni og skrifað ýtarlega stafslýsingu teymisstjórans eins og hún kom mér fyrir sjónir og hvernig ég myndi breyta henni þegar ég væri loksins kominn með stöðuna í mínar hendur. Ég skrifaði hjá mér hvernig ég myndi gera hlutina. Hverju ég myndi viðhalda og hvað ég myndi gera öðruvísi. Afraksturinn mátti finna í hundrað og tólf blaðsíðna Word skjali.
Samhliða skriflegum undirbúningi hafði ég einnig unnið í verklega hlutanum. Ég hafði lagt mig fram við að fá að takast á við meiri ábyrgð í mínu núverandi starfi. Ég hafði þó gætt þess í framapoti mínu að ganga ekki á hlut samstarfsfólks míns. Ég hafði nálgast alla af virðingu og lagt mig fram við að efla liðsandann innan teymisins og séð til þess að allir fengju sína rödd heyrða. Ég var eftir því sem ég best gat séð vel liðinn af samstafsfólki mínu fyrir vikið og hafði hlotið mikið hrós frá yfirmanninum sem var fegin því að hafa minna að gera á lokametrum starfsævinnar.
Það er því óhætt að segja að ég hafi verið vel undirbúinn þegar staðan var auglýst til umsóknar. Ég hafði notið mín í botn við að skrifa umsóknina. Ég hafði verið óhóflega spenntur, æstur og fullur eftirvæntingar.
Núna, þegar umsóknin er komin úr mínum höndum og í hendur yfirstjórnar fyrirtækisins þá hafði ég gert ráð fyrir að mér myndi líða frábærlega. Ég hafði ímyndað mér að eftirvæntingin yrði áfram við völd.
Mér líður ömurlega. Ég get ekki sofið. Ég get ekki hætt að hugsa um það hvað myndi gerast ef ég fengi af einhverjum ástæðum ekki starfið. Ég hrekk við í hvert sinn sem ég fæ tölvupóst. Ég þori ekki að líta á hann. Hvað ef að í honum leyndist neikvætt svar? Ég þori ekki að horfast í augu við forstjóra fyrirtækisins þegar ég hitti hana á göngum skrifstofunnar eða á kaffistofunni. Ég þori ekki að mæta augnaráði sem gæti hugsanlega gefið til kynna að ég fengi ekki starfið.
Ég vil ekki fá svar. Ég vil ýta á pásu. Ég vil lifa lengur í mínum draumaheimi þar sem draumastarfið er tvímælalaust mitt.