Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Lykt

Lykt — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég fann sterka ilmvatnslykt þegar ég steig inn á stigaganginn. Hún truflaði mig. Ég spenntist allur upp. Það var eins og ég hefði gengið á vegg. Réttara sagt eins og ég hefði gengið inn í vegg. Nýsteyptan vegg. Blaut seigfljótandi steypan umlykti mig og hélt mér í spennitreyju. Ég gat ekki hreyft mig. Ég gat ekki andað. Hnausþykk ilmvatnslyktandi steypan tróð sér inn um nefið og ofan í lungun.

Ég bandaði höndunum frá mér, náði að losa mig út steypumótunum og hljóp í loftköstum niður stigann. Þegar botninum var náð, hratt ég upp útidyrahurðinni og stökk út á gangstéttina. Út í ferska loftið. Út úr fjötrum kæfandi ilmvatnslyktarinnar. Út í frelsið. Ég dansaði í hringi á gagnstéttinni með útbreidda arma og teygði höfuðið upp í áttina að endalausum bláum ferskum himninum.

Þegar ég hafði náð andanum á ný stöðvaði ég hringekjuna, horfði beint fram á veginn og setti stefnuna á sjóinn. Göngutúr meðfram ströndinni var það sem ég þurfti á að halda þessa stundina. Ég þurfti að horfa út á sundin og fylgjast með öldunum stinga sér inn yfir fjöruna, flæða út og koma svo aftur til baka. Taktfastar og fyrirsjáanlegar.

Lífið var svo undarlegt þessa dagana. Það var svo margt að hugsa um. Það var svo margt sem þurfti að skilja.

„Ég legg til að við skoðum hvar þú ert á einhverfurófinu,“ hafði sálfræðingurinn sagt.

Það var viðfangsefni stundarinnar. Að brjóta þessa einföldu setningu upp í öreindir sínar og raða henni aftur saman með hliðsjón af öllu því sem ég hafði heyrt, séð og skynjað á þeim fjörutíu-og-sex árum sem ég hafði dregið andann í þessum heimi.

Lykt var ein af þeim skynjunum sem ég velti fyrir mér þessa dagana. Ég mundi ekki eftir því að hafða nokkru sinni áður fundist ilmvatnslykt uppáþrengjandi. Þessa dagana þoldi ég hana ekki. Þetta skyndilega óþol var undarlegt. Samt var það eitthvað svo sjálfsagt.

Hvað lá að baki? Var ég loksins að leyfa mér að tengja við mitt eigið lyktarskyn í stað þess að sætta mig bara þegjandi og hljóðalaust við að svona væri bara lyktin af venjulegu fólki? Var ég hættur að spegla mitt eigið lyktarskyn í því lyktarskyni sem einfaldast var að hafa til þess að falla vandræðalaust inn í umhverfi mitt?

Svarið mitt var já. Já, ég var byrjaður að lykta það sem ég raunverulega lyktaði í stað þess að lykta það sem ég ímyndaði mér að samfélagið krafðist að ég lyktaði.

Ég dró andann djúpt inn um nefið og naut þess að skynja sjávarlyktina. Namm. Þetta var lykt að mínu skapi.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/