Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Ást við fyrstu sýn

Aðrar útgáfur: PDF | english

Ást við fyrstu sýn — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég leit upp þegar þú gekkst inn á kaffihúsið. Hárið féll yfir axlirnar eins og foss í náttúrulífsmynd. Eða auglýsingu fyrir hárnæringu.

Þetta var ást við fyrstu sýn.

Þú settist niður við næsta borð, fórst úr yfirhöfninni og ég dáðist að bleikri peysunni þinni. Þú leist upp og augu okkar mættust. Þú brostir. Ég brosti til baka. Við litum svo bæði vandræðalega undan.

Þetta var stefnumót við fyrstu sýn.

Þó þú værir sæt í bleiku, þá ímyndaði ég mér þig enn dásamlegri í hvítu, þar sem þú gengir inn kirkjugólfið. Í áttina til mín. Inn í okkar lukkulega hjónaband. Við yrðum svo hamingjusöm saman.

Þetta var brúðkaup við fyrstu sýn.

Þar sem þú horfðir yfir kaffihúsið þá laumaðist ég til að virða fyrir mér vangasvipinn. Nefið þitt færi svo vel við augnabrýrnar mínar. Við myndum eignast einstaklega fallega samhverf börn.

Þetta var fjölskylda við fyrstu sýn.

Þú pantaðir þér kaffibolla og barst hann upp að vörum þínum. Ég sá þig fyrir mér í garðinum okkar í úthverfinu, sötrandi kaffi í morgunsólinni. Við fengjum okkur hvolp og skírðum hann Ingjald.

Þetta var hundur við fyrstu sýn.

Og svo, allt í einu, þá beindist augnaráð þitt til dyranna. Augun þín ljómuðu. Þú hljópst til mannsins sem gekk inn. Ókunna mannsins. Þú faðmaðir hann. Þið mættust í ástríðufullum kossi. Hvað þá? Hvernig gastu gert mér þetta? Hvernig gastu svikið samband okkar? Samhverfu börnin? Ingjald?

Þetta var skilnaður við fyrstu sýn.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/