Borja leit yfir barinn. Bakaríið. Stofuna. Hann vissi ekki hvað hann ætti að kalla búlluna. Hann renndi augunum frá útidyrunum meðfram afgreiðsluborðinu sem innihélt dágóðan skammt af ýmis konar bökum. Barborðið tók við af afgreiðsluborðinu. Bjórdæla var annars vegar og barstólar hins vegar. Inn af barnum voru tvö rými. Á vinstri hönd var rúmgott eldhús með góðum bakarofni. Hægra megin var stofan. Sófi úti í horni. Skjávarpi hékk neðan úr loftinu og varpaði mynd á vegginn í innri enda barsins, bakarísins, stofunnar, eða hvað það nú var sem hann ætti að kalla búlluna. Hún var eiginlega sambland af þessu þrennu. Í raun var hún hins vegar eitthvað allt annað.
Borja lét fingurna leika yfir hálsinn og sló á létta strengi. Hann spilaði létta tóna sem svifu um barinn, bakaríið, stofuna, eða hvað það nú var sem hann ætti að kalla búlluna. Hann horfði á leikmenn Barcelona liðsins hlaupa fram og til baka á veggnum í stofunni. Þeir voru að leika í átta liða úrslitum í meistaradeildinni. Borja sló á strengi í takt við leikinn. Það fór um hann sælutilfinnning. Þetta var fullkomið líf. Og þó. Það mættu kannski vera einhverjir viðskiptavinir á staðnum. Og þó. Hann hafði sína fastakúnna. Kúnnana sem hann hafði haft frá því áður en hann opnaði barinn, bakaríið, stofuna eða hvað það nú var sem hann ætti að kalla búlluna.
Borja heyrði þrusk við útidyrnar. Viðskiptavinur var mættur á staðinn. Hann kannaðist ekki við kauða. Þetta var líklega einn þeirra fáu sem duttu inn á staðinn öðru hvoru til þess að horfa á fótbolta. Þeir tengdust ekki beint kjarnastafseminni en keyptu oft bjór og bakkelsi. Ágætis fólk.
Borja lagði frá sér gítarinn og bjó sig undir að afgreiða viðskiptavininn sem settist innarlega við barborðið, pantaði bjór og tvær spínatbökur. Viðskiptavinurinn setti sig síðan í stellingar til þess að fylgjast með meistardeildinni sem skjávarpinn varpaði á stofuveggginn.
Borja skellti tveimur spínatbökum í ofninn. Hann passaði sig á að velja tvær bökur sem bakaðar voru úr rétta smörinu — eða ranga smörinu — allt eftir því hvernig á það var litið.
Eftir að hafa gert viðskiptavininum skil tók Borja upp bók og byrjaði að lesa. Hann kunni ekki við að halda áfram að glamra á gítarinn. Ekki á meðan viðskiptavinurinn horfði á meistaradeildina.
Borja hafði lúmskt gaman að svona viðskiptavinum. Hann hafði gaman að því að dunda sér við að baka og afgreiða viðskiptavini. Hann var ánægður með að hafa látið verða af því að opna barinn, bakaríið, stofuna eða hvað það nú var sem hann ætti að kalla búlluna. Það var vissulega talsverð áhætta sem fólst í því að höndla tvenns konar smjör og hann þurfti að passa sig á því að rugla ekki saman bökum og bökum. Þetta líf var hins vegar ólíkt skemmtilegra en að vera í heimsendingarþjónustu. Honum fannst hann vera frjálsari. Þetta var hans eigin viðskiptamódel. Þetta var hans eigin bar. Bakarí. Stofa. Eða hvað það nú var sem hann ætti að kalla búlluna. Hann var að vísu enn afar háður heildsalanum. Honum fannst hann samt einhvern veginn frjálsari.
Borja minntist þess þegar hann var nýbúinn að opna barinn, bakaríið, stofuna eða hvað það nú var sem hann ætti að kalla búlluna. Hann hafði verið á nálum. Hann vissi ekki hvernig hann ætti að vekja athygli á sér. Hvað þá heldur hvernig hann ætti að passa sig á því að vekja ekki athygli á sér. Allt eftir því hvernig á það var litið. Hann hafði ekki þurft að hafa áhyggjur af fastakúnnunum. Þeir voru fljótir að láta sjá sig. Þeir létu aðra kúnna vita. Fiskisagan komst fljótt á flug.
Borja hafði óneitanlega verið heldur stressaður þegar tveir félagar frá Guardia Urbana fóru að venja komur sínar í hádeginu. Fyrsta daginn færði hann þeim bökurnar heldur skjálfhenntur. Hann hafði verið viss um að dagar hans sem frumkvöðull væru taldir. Eftrir að þeir höfðu mætt í hádeginu á hverjum degi í heila viku varð hann hins vegar sannfærður um að þeir væru grunlausir. Þeir væru einungis mættir til þess að fá sér bökur. Hann gat smám saman slakað á í þeirra návist.
Borja var feginn að hans fastakúnnar komu sjaldan í hádeginu. Það var því lítil hætta á að þeir fengju veður hver að öðrum — löggurnar og fastakúnnarnir. Þeir voru ekki góð blanda. Löggurnar myndu fæla fastakúnnana frá og fastakúnnarnir gætu vakið grunsemdir hjá löggunum. Það var gott að þeir komu hver á sínum tíma.
Borja leit upp þegar hann heyrði fleiri viðsiptavini ganga inn á barinn, bakaríið, stofuna eða hvað það nú var sem hann ætti að kalla búlluna. Hann fann fyrir hrolli þegar hann bar kennsl á gestina. Heildsalinn var kominn í heimsókn. Þeir voru þrír saman. Heildsalinn og tveir aðstoðarmenn. Þeir litu í kringum sig og settust síðan við barborðið. Borja gaut augum í átt til viðskiptavinarins. Hann virtist niðursokkinn í meistaradeildina. Borja vonaði að heildsalinn yrði ekki til vandræða og viðskiptavinurinn fengi að horfa á leikinn í friði.
,,Flott hola sem þú ert með hérna,“ sagði heldsalinn hress í bragði.
,,Takk.“
Borja vissi ekki hvort hann ætti einhverju sérstöku að þakka þessa heimsókn. Hann gat sér þess þó til að ekki væri um kurteisisheimsókn að ræða.
,,Kúnni?“ spurði heildsalinn og gaut augum í átt til viðskiptavinarins.
,,Nei,“ svarði Borja. ,,Eða jú. Eða ekki þannig sko.“
Borja leið í átt til viðskiptavinarins. Hann var enn upptekinn við að horfa á meistaradeildina og virtist ekki hafa tekið eftir neinu.
,,Einmitt!“ sagði heildsalinn. ,,Það er einmitt það sem við höfum áhyggjur af. Að þú farir að rugla saman viðskiptavinum og viðskiptavinum. Ef þú veist hvað ég á við.“
,,Já,“ Borja vissi hvað hann átti við.
,,Ég vil að þú áttir þig á því að við verslum með afar viðkvæman varning,“ hélt heildsalinn áfram alvarlegur í bragði. ,,Við erum svolítið áhyggjufullir varðandi nýja viðskiptamódelið þitt. Það fellst svolítil áhætta í því. Ef þér verður á í messunni þá viljum við ekki að böndin berist að okkur. Þú skilur?“
Borja skildi. Hann kinnkaði kolli.
,,Gott,“ sagði heildsalinn og glotti. ,,Við styðjum þig heils hugar svo framarlega sem viðskiptamódelið gengur upp. Það er alltaf gott að hafa hugmyndaríka stráka eins og þig innanborðs.“
Borja langaði að benda heildsalanum á að ákvörðunin um að opna barinn — bakaríið, stofuna eða hvað það nú var sem hann ætti að kalla búlluna — var höfð með það í huga að færa sig fyrir borð. Hann vildi ekki vera innanborðs. Hann vildi vera sjálfstæður atvinnurekandi.
,,Ef vel gengur mætti athuga með að færa út kvíarnar. Stofna keðju. Flytja viðskiptamódelið til annarra borga.“
Borja hafði engan áhuga á að stofna keðju eða flytja viðskiptamódelið til annarra borga.
,,Ég veit nú ekki hvort ég hafi áhuga á að færa út kvíarnar,“ sagði Borja varndræðalega.
,,Ég var nú ekki að tala um að þú færir að færa út kvíarnar. Ég var nú að tala um okkur. Þú skilur.“
,,Eh, já.“
Borja skildi. Það rann upp fyrir honum að hann hafði haft rangt fyrir sér með það að geta orðið óháður heildsalanum ef hann færi af stað með sitt eigið viðskiptamódel. Hann var bara peð í flóknu tafli sem gekk út á það að verja kónginn. Þeir þögðu. Kóngurinn, hrókarnir tveir og peðið.
,,Ég talaði við David í morgun,“ sagði heildsalinn eins og hann hafði allt í einu munað eftir einhverju sem hann hafði gleymt.
,,David?“ spurði Borja og fann fyrir hnút í maganum. ,,Leigusalann?“
,,Já, David,“ svaraði heildsalinn og glotti. ,,Fyrrverandi leigusalann!“
,,Fyrrverandi leigusalann?“
,,Ég gerði honum tilboð sem hann gat ekki hafnað,“ sagði heildsalinn og glotti. ,,Ef þú veist hvað ég á við.“
Borja vissi hvað hann átti við. Hann hefði svosem átt að segja sér það fyrir fram að það yrði ekki auðvelt að komast undan hæl heildsalans. Hann hafði hins vegar ekki búist við að hann gengi svona langt til þess að tryggja áhrif sín.
,,David er nú samt enn sem komið er skráður eigandi af þessari kytru. Þú heldur bara áfram að borga honum leigu þangað til ég segi annað.“
Heildsalinn starði stíft í augun á Borja til þess að fylgja orðum sínum eftir. Hann vildi láta það vera skýrt hver hafði töglin og haldirnar. Það var skýrt. Borja gat ekki komið upp orði. Heildsalinn tók það sem merki um að þeir skildu hvor annan.
,,Það var nú ekkert fleira,“ sagði heildsalinn og gerði sig klárann til að halda sína leið. ,,Gangi þér vel!“
Borja horfði á eftir heildsalanum hverfa út um dyrnar á barnum, bakaríinu, stofunni eða hvað það nú var sem hann ætti að kalla búlluna. Honum var ljóst að taflið hafði snúist í höndunum á honum. Tilraun hans til þess að komast undan ægivaldi heildsalans hafði mistekist. Hann átti ekki marga leiki í stöðunni. Ef hann vildi losna úr klóm heildsalans yrði hann að hætta viðskiptum við hann og snúa sér að því að selja einungis hefðbundið bakkelsi og bjór.
,,Gæti ég fengið tvær bökur í viðbót og einn bjór?“
Borja leit á viðskiptavininn. Það var kominn hálfleikur í meistaradeildinni. Borja brosti og hófst handa við að afgreiða bökurnar og bjórinn. Það yrði ekki hlaupið að því að láta enda ná saman með því að selja einungis hefðbundið bakkelsi og bjór. Átta liða úrslit í meistaradeildinni og einn viðskiptavinur. Það var ekki gæfulegt viðskiptamódel.