Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Valur lokaði útidyrahurð íbúðarblokkarinnar á eftir sér og skalf þegar hann mætti ferskum íslenskum sumarandvaranum. Eftir að hafa búið erlendis í einn og hálfan áratug, átti hann í erfiðleikum með að venja sig á að sumardagar kölluðu ekki sjálfkrafa á stuttermabol—jafnvel þótt það væri hásumar. Valur leit upp á milli blokkanna þar sem hann gisti þessa vikuna. Himinninn var grár. Þó að veðrið væri ekki eins og Valur átti að venjast nú til dags, gat það vart verið dæmigerðara miðað við hnattstöðu og árstíma. Þetta var einn þessara daga þar sem óvíst var hvort hann myndi haldast þurr eður ei, en eitt var víst, það átti eftir að vera skýjað.

Það sem við þráum að þrá — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Veðrið var einn af þeim þáttum sem Valur þyrfti að taka með í reikninginn ef hann ætlaði að flytja til baka til Reykjavíkur. Hann yrði að fullvissa sig um að hann gæti sætt sig við það. Það yrðu ekki eins margir sólardagar í Reykjavík og hann var vanur að njóta, hvort sem það var í Amsterdam eða Barselóna. Það yrðu tvímælalaust fleiri dagar þar sem himinninn væri hulinn skýjum. Meiri rigning. Meiri snjór. Meira slabb. Það yrði meira um þennan endalausa, óákveðna regnúða sem héngi í loftinu dögum saman án þess að gera það upp við sig hvort hann ætlaði að falla sem rigning eða ekki. Hann þyrfti að búa sig undir þá staðreynd að það gætu liðið vikur án þess að það sæist almennilega til sólar. Það var satt að hann kvartaði stundum undan kæfandi sumarhitanum við Miðjarðarhafið, en hann varð að hafa í huga að þegar allt kom til alls þá var veðurfarið í Barselóna betra en bæði í Amsterdam og Reykjavík. Það var einnig einn af fáum kostum við tíðu ferðalögin milli Barselóna og Amsterdam að hann gat valið að eyða nokkrum aukadögum á skrifstofunni í Hollandi ef hitinn í Katalóníu var yfirþyrmandi.

Valur gekk yfir bílastæðið milli íbúðarblokkanna og fann sér leið í átt að Borgartúni. Þetta var að öllum líkindum einn þéttbyggðasti hluti Reykjavíkur og ætti samkvæmt borgarfræðunum að vera iðandi af mannlífi. Hins vegar voru fáir á ferli á þessum þriðjudagsmorgni. Eina lífsmarkið var stöðugur straumur bíla upp og niður Borgartúnið. Þegar hann hugsaði út í það, þá var þetta dæmigert götulíf í Reykjavík. Þær fáu hræður sem fóru út úr húsi héldu sig í bílum sínum. Hvað var það sem batt samlanda hans svona rækilega við bíla? Líkaði þeim svona vel við þá eða var fólkið einfaldlega fast í ástandi þar sem borgarskipulagið, með dreifðri byggð og stórum úthverfum, gerði þeim ekki kleift að brjótast út úr þessum vélbúnu stálbúrum? Ef til vill var þetta eins og hin eilífa togstreita milli uppruna hænunnar og eggsins. Annars vegar notuðust fáir við sjálfbæran samgöngumáta, þar sem innviði vantaði. Hins vegar þorði enginn stjórnmálamaður að fjárfesta í innviðum fyrir sjálfbæran samgöngumáta, þar sem notendurnir voru of fáir—kjósendurnir of fáir, og atkvæðin of fá. Hvað sem hverju leið þá var Valur ekki mikið fyrir bíla og velti fyrir sér hvort hann myndi sakna götulífsins í þeim tveimur borgum sem hann var að hugsa um að snúa baki við. Hann myndi sakna iðandi mannlífsins á torgum og gangstéttum Barselóna, litlu sérverslananna sem voru allar í göngufæri, grænmetissalans, slátrarans, vínbúðarinnar. Hann myndi sakna þess að hjóla um Amsterdam, göngutúranna meðfram síkjunum, þar sem síbreytilegir húsgaflar veittu hina mestu skemmtun og síðast en ekki síst lautarferðanna í Vondelpark. Hann myndi sakna borganna þar sem leikrit lífsins var sett upp í almenningsrýmum—ekki aðeins innandyra, hvort sem það voru útidyr eða dyr bíla. Hann ímyndaði sér hversu ólíkt það væri ef hann væri á göngu um Barselóna í dag. Hann myndi setjast niður á kaffihúsi við iðandi torg og fá sér kaffibolla á meðan hann nyti þess að horfa á fólkið þar sem það fékkst við sínar útréttingar í miðmorgunssólinni. Það er að segja ef hann væri ekki á þriðjudagsmorgunfundi.

Þegar Valur kom að opna svæðinu við Höfða, stoppaði hann um stund til þess að líta yfir fjöllin handan sundanna bláu. Útsýnið sem hafði veitt mörgu ljóðskáldinu andagift. Fjöllin sem borgarskáldið lýsti sem fjólubláum draumum á vorkvöldi. Fjallasýnin, sundin, eyjarnar—það var varla hægt að ímynda sér betri ramma fyrir borg. Reykjavík var þéttbýli í nánd við náttúruna—ósnortnu víðlendurnar sem voru án vafa eitt helsta aðdráttarafl Íslands, ekki einungis fyrir ferðamennina heldur einnig fyrir Val sjálfan. Hann elskaði endalausa útsýnið yfir óbyggðir. Friðsæla náttúruna. Það var sannarlega auðvelt að komast upp í fjöllin í nágrenni Barselóna. Pýreneafjöllin voru ekki nema í nokkurra tíma lestarfæri. Það var hins vegar ekki það sama—fjall eða fjall. Það var ekki sama einangrunartilfinning á Íberíuskaganum og á íslenska hálendinu. Líkt og Valur kunni ekki við mannleysið á götum Reykjavíkur, þá kunni hann ekki við mannmergðina í Pýreneafjöllunum. Hann gerði sér grein fyrir því að hann var öfgamaður í þeim efnum. Fyrir honum voru einungis tvær tilvistarstöður, annars vegar stórborgin með mannfjölda og þéttsetnu götulífi og hins vegar ósnortin náttúra, þar sem hann gat verið einn síns liðs eða með fámennum en góðmennum vinahópi, án þess að miklar líkur væru á því að rekast á annað fólk.

Valur hlakkaði reglulega mikið til ferðarinnar sem hann átti í vændum í næstu viku. Hann var að fara með vinahópnum í gönguferð um Hornstrandir, þar sem þeir ætluðu að verja átta dögum, gangandi um óbyggðir, fjarri borgum og bæjum, án þess að koma við á einu einasta byggðu bóli. Þetta yrði ganga á landamærum nútímasiðmenningarinnar og óbyggðar ísbreiðu Norðurpólsins. Valur saknaði þessara ferða. Hópurinn fór að minnsta kosti í tvær vikulangar ferðir á ári, og þess á milli voru margar styttri helgarferðir. Valur reyndi að ná í að minnsta kosti eina af löngu ferðunum, en varð að missa af öllum helgarferðunum. Það yrði hins vegar leikur einn að taka upp þráðinn ef hann flytti til Reykjavíkur.

Þegar Valur kom niður á Laugaveg lifnaði yfir götunni og fleiri voru á ferli. Það var þó mestmegnis um ferðamenn að ræða. Hann átti í vandræðum með að ákveða sig hvort hann teldi sjálfan sig heimamann eða ferðamann. Að einhverju leyti var umhverfið kunnuglegt en á sama tíma var það einnig afar framandi. Hann átti erfitt með að ná tengingu við staðinn. Svo margt hafði breyst á undanförnum fimmtán árum. Samfélagið hafði þróast og hann hafði þroskast. Það var eitthvað við íslenskt samfélag sem hann gat ekki tengt sig við. Hann naut þess að lifa hóflegum lífsstíl í lítilli íbúð, án munaðar á borð við örbylgjuofn, sjónvarp, uppþvottavél eða þurrkara. Hann átti hvorki bíl né húsnæðislán. Hlutirnir voru öðruvísi á Íslandi. Honum fannst sem ætlast væri til að allir væru steyptir í sama mótið, þar sem hver og einn átti sitt hús og garð, börn og bíla, uppþvottavélar og hunda. Val langaði til að lifa sveigjanlegu lífi—vera frjáls til að ferðast—frjáls til að lifa í núinu án þess að þurfa að hugsa um framtíðina. Hann var hræddur um að ef hann flytti til Reykjavíkur þá myndi hann steypa fæturna fasta í ófrjóan íslenskan jarðveg.

Úr Bankastræti tók Valur stefnuna á höfnina þar sem Harpa, tiltölulega nýja tónlistarhúsið, stóð. Hann staldraði við á Arnarhóli og virti bygginguna fyrir sér. Húsið sjálft var áhrifamikið glerhýsi undir áhrifum frá sexhyrndu stuðlabergi sem fannst svo víða í íslenskri náttúru. Nánasta umhverfi var hins vegar ekki eins töfrandi—blanda af auðum byggingarlóðum og gapandi holum, sem biðu þess að vera fylltar af undurstöðum nýrra bygginga. Það voru nú liðin fjögur ár frá hruninu 2008, sem hafði sett mestalla uppbyggingu á ís, og það voru ekki mörg merki um að sá klaki myndi bráðna á næstu árum. Torgið fyrir framan tónleikahöllina var eins niðurdrepandi og byggingin sjálf var upplífgandi. Næstum allt torgið var þakið svörtu malbiki, ekki ósvipuðu stærðarinnar bílastæði. Til þess að bílstjórar rugluðust ekki í ríminu, var stórum steinsteypukubbum komið fyrir á víð og dreif. Valur kunni að meta hið dæmigerða íslenska landslag, með svörtum söndum eins langt og augað eygði, en þetta var ekki rétti staðurinn fyrir eyðimörk. Rétt eins og íslensku sandarnir sýna mannfólkinu ekki mikla gestrisni, þá var þetta malbikshaf afar fráhrindandi. Þetta var miðborgin. Þarna ætti að vera vin fyrir fólk. Það voru að vísu nokkrir bekkir á stangli um torgið en ekkert sem gat laðað að sér skemmtilegt borgarlíf. Enginn gróður. Ekkert kaffihús. Ekkert. Valur varð dapur. Hann óskaði þess svo heitt að hann gæti fallið fyrir Reykjavík. Hann þráði að vera spenntur. Það myndi gera ákvörðun hans um að flytja til borgarinnar þeim mun auðveldari.

Valur hristi af sér vonbrigðin og gekk yfir Lækjartorg, inn Hafnarstræti og í átt að Listasafni Reykjavíkur. Hann þurfti að hreinsa hugann—beina þönkunum í aðrar áttir. Hann þurfti að hætta um stund að velta fyrir sér búferlaflutningum, og listasafn var tilvalið til þess að dreifa huganum.

* * *

Jafnvel þótt það væri skýjaður sumarmorgunn, og ferðamannatímabilið í hámarki, þá var hann einn í stórum salnum. Þögnin var alger, ef frá var talið ískrið undan gúmmísólum skónna þegar hann gekk yfir glansandi lakkað steinsteypugólfið. Valur fann hvernig slaknaði á spennunni sem safnast hafði upp í líkamanum undanfarna daga. Það hafði verið góð hugmynd að heimsækja safnið. Þema sýningarinnar, sem var í gangi þessa stundina, var list úr hversdagslífinu. Auglýst markmið hennar var að leita línunnar á milli þess sem við köllum listaverk og hluta sem við álítum hversdagslega í okkar daglega lífi.

Í salnum miðjum stoppaði Valur við nokkuð venjulegan hægindastól sem stóð við hlið skiltis þar sem gestir voru beðnir um að sitja ekki á listaverkinu. Val varð starsýnt á stólinn. Var þetta listmunur eða einungis hluti af hinu daglega lífi? Þetta var sannarlega áleitin spurning. Hvað er eiginlega list? Gat venjulegur stóll í miðjum sal verið list? Stóllinn var klárlega hönnun. En list? Hvar lágu mörkin milli listar og hönnunar? Milli hönnunar og framleiðslu? Var hönnunin til staðar í hverju framleiddu eintaki, eða aðeins í frumgerðinni? Plató hefði örugglega haft svar við því.

„Er þetta list?“

Val var brugðið. Hann hafði ekki heyrt neinn ganga inn í salinn og röddin virtist eiga upptök sín rétt fyrir aftan hann. Valur sneri sér við og stóð augliti til auglitis við konu sem stóð í nokkurra feta fjarlægð. Hún var undir meðalhæð og grannvaxin. Hnotubrúnt hárið var klippt stutt í kinnbeinahæð. Gráblá augun fönguðu athygli hans, eins og seglar. Húðin var ljós og slétt. Hún brosti. Í aðra röndina var hún barnsleg í útliti en það var eitthvað við hana sem fékk hann til að geta sér til um að hún væri á hans aldri—væri nýlega skriðin yfir þrjátíu og fimm ára markið.

„Satt best að segja, þá hef ég ekki hugmynd,“ svaraði Valur eftir að hann hafði jafnað sig eftir sjokkið. „Ég var eiginlega að spá í nákvæmlega sömu spurningu. Ég á erfitt með að sjá stól í miðju herbergi sem listmun. Ef þetta er list getur hvað sem er kallast list. Er það ekki?“

„Ég er ekki viss um að málið sé svona einfalt,“ sagði konan, um leið og hún færði sig nær, og gekk í kringum stólinn til þess að líta betur á hann. „Ef til vill er listin ekki í stólnum sjálfum. Listamaðurinn gæti verið að hvetja okkur til þess að líta lengra en á stólinn og spyrja okkur annarra spurninga. Er það ekki of þröng túlkun að einblína einungis á stólinn sem listaverk? Getur listin ekki falist í samspilinu á milli stólsins og skiltisins? Í móthverfunni sem sköpuð er með því að leyfa fólki ekki að nota stólinn í því hlutverki sem hann var framleiddur til að þjóna? Ef til vill er tilgangur listamannsins einmitt sá að fá okkur til þess að gera upp á milli tveggja andstæðra kosta. Kannski vill hann að við setjumst í stólinn jafnvel þótt okkur sé sagt að gera það ekki.“

Konan lauk hringferð sinni um stólinn og settist. Valur fékk gæsahúð og fiðring í magann. „Þú getur ekki gert þetta,“ hvíslaði hann, og leit í kringum sig til þess að athuga hvort hann sæi öryggisverði. „Einhver gæti séð til þín!“

„Ég efa það,“ sagði konan og glotti. „Ég held að listamaðurinn vilji hvetja þig til þess að hugsa um móthverfuna milli þess sem þú ættir að gera og þess sem þig langar að gera. Milli þess sem þú heldur að þú ættir að gera og þess sem þig virkilega langar til þess að gera. Þess sem þig langar að langa og þess sem þig raunverulega langar. Fólk er alltaf að spyrja sig rangra spurninga. Ákaft í að spyrja sig spurninganna sem leiða það að þeirri niðurstöðu sem það vill komast að.“

„Ert þú listakonan?“ spurði Valur, sem hafði róast lítið eitt við grunsemdirnar að þetta væri allt hluti af sýningunni.

„Þú manst þá ekkert eftir mér, er það nokkuð?“ spurði konan og starði á hann með þessum dáleiðandi, grábláu augum.

„Nei, ætti ég að gera það?“ viðurkenndi Valur og hugsaði með sér hvort konan væri fyrrverandi bekkjarfélagi úr menntaskóla eða jafnvel grunnskóla. Nei, hann gat ekki fyrir nokkurn mun staðsett hana í minninu.

„Þetta er ég, Ugla,“ sagði hún. „Manstu ekki? Æskuvinkona þín.“

„Ugla?“ Val var brugðið. Atburðarásin hafði verið ruglingsleg hingað til en núna tók botninn úr og allt varð afar súrrealískt. „Ugla? Ósýnilega vinkona mín úr æsku?“

„Lít ég út fyrir að vera ósýnileg í þínum augum?“

„Nei,“ játaði Valur, þó ekki fyllilega sannfærður.

„Þá myndi ég heldur kjósa að þú kallaðir mig bara…,“ hún tók sér smá umhugsunarfrest, „…einfaldlega vinkonu þína.“

Valur þagði og starði á konuna sem sat í hægindastólnum andspænis honum. Hún starði á móti, glottandi. Valur lokaði augunum og andaði djúpt. Ugla, ímyndaða vinkona hans úr æsku. Hann brosti. Hann hafði ekki hugsað til hennar í langan tíma. Satt best að segja átti hann engar eigin minningar um hana. Hann mundi einungis frásagnir foreldra sinna sem þau höfðu endurtekið svo oft. Sögurnar um það hvernig þau léku sér saman, hann og Ugla. Sögurnar um það þegar hann bað foreldrana að leggja á borð fyrir Uglu því að hún ætlaði að borða með þeim. Sögurnar af því þegar hún ferðaðist með fjölskyldunni, þar til eitt sumarið þegar þau voru á ferðalagi um Írland, þá hvarf hún. Hann hætti að minnast á hana. Hann hætti að leika við hana. Hún virtist hafa horfið gersamlega úr huga hans—hætti að vera hluti af ímynduðum heimi hans. Enginn vissi hvað hafði bundið enda á vinskap þeirra.

Valur opnaði augun aftur. Ugla var enn á sama stað. Hún sat í hægindastólnum, hallaði sér aftur og starði á hann.

„Hvers vegna förum við ekki eitthvert og fáum okkur í glas,“ sagði hún og stóð upp úr stólnum. „Það er heilmikið sem við þurfum að ræða. Við þurfum að rekja það helsta sem á okkar daga hefur drifið síðan við sáumst síðast.“

* * *

Valur og Ugla yfirgáfu listasafnið og héldu aftur út í kaldan sumarmorguninn. Það var ennþá klukkutími til hádegis og það yrði ekki nokkurt mál að finna hljóðlátan stað til að tala saman. Valur stakk upp á að þau færu á veitingastaðinn í gamla Fálkahúsinu í Hafnarstræti. Staðurinn var nálægt, og satt best að segja, einn af fáum stöðum sem Valur þekkti í miðbænum. Hann var of sjaldan á landinu til þess að halda í við tíðar breytingar á veitingastaðasviðinu.

„Ég ætla að skella mér á klósettið,“ sagði Ugla þegar þau höfðu fundið sér þokkalegt borð við glugga, með útsýni út á Ingólfstorg.

Valur settist niður og skoðaði vínlistann. Hann var enginn sérfræðingur þegar kom að víni en kannaðist við tvær rauðvínsflöskur sem voru í boði, spænska Crianza frá Rioja og argentínska Malbec frá Mendoza.

„Við ætlum að fá flösku af Malbec,“ sagði Valur við þjóninn þegar hann kom yfir að borðinu. „Og tvö glös.“

Valur gat ekki annað en brosað. Þetta var eins og í frásögnum foreldra hans þegar hann fann sig knúinn til að biðja sérstaklega um að lagt yrði á borð fyrir Uglu.

„Á ég að koma með vínið strax, eða á ég að bíða eftir sessunautnum?“ spurði þjónninn.

„Komdu endilega með það strax,“ svaraði Valur. „Við komum saman. Hún fór bara á klósettið og kemur eftir smástund.“

„Að sjálfsögðu, auðvitað,“ sagði þjónninn og lyfti brúnum. „Eins og þér hentar.“

Þjónninn kom til baka með vínflöskuna og tvö glös. Hann hellti smálögg í annað glasið og leyfði Val að smakka. Valur lét vínið rúlla eftir tungunni í augnablik áður en hann samþykkti það. Þjónninn fyllti glasið og hélt síðan áfram að sinna öðrum gestum. Valur nældi í flöskuna og hellti hálffullt glas fyrir Uglu.

„Hvert er tilefnið að þú ert staddur á Íslandi þessa stundina?“ spurði Ugla þegar hún kom til baka af klósettinu. „Ég hafði frétt að þú værir í Barselóna, eða var það Amsterdam?“

„Jú, það er rétt, ég bý mestmegnis í Barselóna en er einnig mikið í Amsterdam, vinnunnar vegna. Er bara í heimsókn hér á landi.“

„Fyrir Amsterdam og Barselóna,“ sagði Ugla og lyfti glasinu til þess að skála. „Hljómar eins og fínasta blanda.“

„Skál,“ sagði Valur og lyfti sínu glasi. „Það er rétt. En þú? Varst þú ekki á Írlandi þegar við sáumst seinast?“

„Jú, við sáumst þar, en annars á ég mér ekki fastan samastað. Ég ferðast um. Ég fer þangað sem mín er þörf. Ég dvel vanalega í stuttan tíma á hverjum stað. Núna er ég í verkefni í Reykjavík. Ég geri ráð fyrir að stoppa stutt. En þú?“

„Ég verð í rúman hálfan mánuð.“

„Viðskipti eða dægradvöl?“

„Bæði. Ég er að fara í gönguferð með vinum mínum í næstu viku, en ég er einnig á landinu vegna atvinnutækifæris. Ég fór í viðtal hjá íslensku fyrirtæki í gær.“

Valur fann fyrir fiðrildum í maganum þegar honum varð hugsað til atvinnuviðtalsins. Var hann virkilega svona stressaður yfir því hvort hann fengi starfið? Eða var maginn aðeins að kvarta yfir því að hann væri að drekka rauðvín fyrir hádegismat? Satt best að segja hafði hann enga ástæðu til þess að hafa áhyggjur. Hann hafði farið í miklu erfiðari viðtöl fyrr á ferlinum. Þetta hafði verið barnaleikur í samanburði við það. Það var eins og starfslýsingin hefði verið skrifuð til að passa nákvæmlega við menntun hans og starfsreynslu. Viðtalið hafði gengið eins og í sögu og hann hafði fundið góðan anda á meðal starfsfólksins. Kemistrían hafði verið rétt að svo mörgu leyti. Ef eitthvað var þá leit þetta of vel út til að vera satt. Um var að ræða glænýtt sprotafyrirtæki á sviði efnaverkfræði þar sem hann gæti einbeitt sér hundrað prósent að tilraunum með náttúruleg efni undir áhrifum frá íslenskum jarðhitasvæðum. Varan var byggð á hugmynd sem hann hafði verið sjálfur að gæla við í nokkurn tíma. Þetta yrði mikil breyting frá núverandi starfi hjá stórum, alþjóðlegum efnarisa, þar sem hann eyddi meiri tíma á leiðinlegum fundum og í innanhússpólitík heldur en að fást við efnafræðina sjálfa.

„Vongóður?“ spurði Ugla og truflaði hugsanir hans.

„Um hvað?“ Valur hafði gleymt því að hún væri á staðnum, og hvað þau höfðu verið að tala um.

„Um starfið, auðvitað.“

„Ó, já. Nei. Ég meina já. Bæði. Já og nei. Ég er á milli steins og sleggju. Á annan bóginn er ég vongóður um að ég fái starfið. Á hinn bóginn… Ég veit ekki… Þá vona ég að ég fái það ekki. Þetta er svolítið flókið.“

„Er starfið ekki nógu áhugavert?“

„Nei, það er ekki málið. Ég meina já, það er áhugavert. Ef eitthvað er, þá er þetta draumastarfið.“

„Svo, það er nokkuð ljóst að þú munir fá það?“

„Já, það held ég.“

„Það er frábært!“

„Ég veit það ekki.“

„Af hverju ekki?“

„Ég yrði að flytja til Reykjavíkur.“

„Hvað er að því að flytja til Reykjavíkur?“

„Ég veit það ekki. Ég er ekki viss um að mér líki við borgina. Ég er ekki viss um að ég passi lengur inn í íslenskan hugsunarhátt.“

„Hvers vegna ekki?“

„Ég kann vel við einfaldan, borgaralegan lífsstílinn sem ég lifi í Barselóna. Ég nýt þess að geta borðað morgunmat á kaffihúsi úti á torgi allt árið um kring.“

„Hversu oft borðar þú morgunmat úti á torgi í Barselóna?“

„Næstum aldrei, í raun og veru.“

„En?“

„Það er ekki málið. Þetta hefur meira með konseptið að gera. Ég vil eiga völina. Ég sé mig bara ekki fyrir mér í Reykjavík.“

„Hvers vegna ekki?“

„Það er svo margt sem spilar inn í. Í fyrsta lagi, þá kann ég við bíllausan lífsstíl. Foreldrar mínir búa í klukkutíma fjarlægð frá Reykjavík. Vinir mínir eru dreifðir út um allt höfuðborgarsvæðið, í miðbænum, úthverfunum og nágrannasveitarfélögunum. Það yrði geðveiki að komast á milli staða.“

„Hvers vegna ertu þá samt að spá í að flytja?“

„Í tvö ár hef ég í og með verið að hugsa um þetta, að flytja til baka til Íslands. Ég vil eyða meiri tíma með foreldrunum. Ég á þéttan vinahóp hérna. Ég sakna hans. Ég sakna þess að vera með vinunum, í gönguferðum úti í náttúrunni.“

„Ég skil,“ sagði Ugla og setti upp vingjarnlegt bros sem fékk Val til þess að slaka á.

„Mér líkar hins vegar ekki valið. Í tvö ár hef ég forðast það að þurfa að svara spurningunni um það hvort ég geti hugsað mér að búa á Íslandi, einfaldlega með því að minna mig á að það eru engin störf fyrir mig hér. Engin störf sem henta beint minni reynslu, þar er að segja. Ég hef talið mér trú um að ég hafi sérhæft mig út af íslenska vinnumarkaðinum. Þannig hef ég ekki þurft að velja á milli heimsborgarinnar og heimaborgarinnar. Það hefur því aldrei verið neitt val. Svo hafði þetta nýja fyrirtæki samband við mig fyrir nokkrum vikum og bauð mér að koma í viðtal.“

„Og þar sem viðtalið gekk vel þá getur þú ekki falið þig lengur,“ hélt Ugla áfram, á meðan hún horfði í augu Vals og las hugsanir hans. „Þú getur ekki falið þig á bak við afsökunina að það séu engin störf við þitt hæfi á Íslandi. Þú verður að gera upp hug þinn. Þú verður að taka ákvörðun.“

„Nákvæmlega!“ Innst inni vonaði Valur að svarið við atvinnuviðtalinu yrði neikvætt. Hann vonaði að hann væri ekki rétti maðurinn í starfið og yrði þess vegna hafnað. Þá þyrfti hann ekki að svara öllum þessum erfiðu spurningum. Hann gæti skotið á frest ákvörðuninni varðandi það hvort hann flytti til baka til Íslands eða yrði áfram í Barselóna. Honum fannst þetta erfið staða. Báðir möguleikarnir höfðu sína kosti og galla. Hvorugur var greinilega betri en hinn. „Ég vil eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum en ég vil líka búa í raunverulegri borg.“

„Hvað er raunveruleiki?“ spurði Ugla.

„Er það ekki kaldhæðnislegt að þú skulir draga það í efa hvað sé raunveruleiki og hvað ekki?“

„Ertu að segja að ég tilheyri ekki raunveruleikanum?“

„Ég veit það hreinlega ekki,“ andvarpaði Valur.

„Það sem ég er að reyna að segja er að stundum er ekki auðvelt að greina á milli þess sem er raunverulegt og þess sem er það ekki. Við eigum oft í erfiðleikum með að greina á milli þess sem við þráum að þrá og þess sem við raunverulega þráum.“

„Ég er ekki viss um að pælingin sé eins djúp eða heimspekileg,“ sagði Valur. „Ég held að málið snúist einfaldlega um skilyrði sem ekki er hægt að uppfylla samtímis. Í öllu falli þá var ég að reyna að taka mér smáfrí frá því að hugsa um þetta. Getum við skipt um umræðuefni?“

„Auðvitað,“ sagði Ugla. „Hvernig hefur bróðir þinn það?“

„Bróðir minn?“ Valur fann hvernig líkaminn spenntist, blóðið streymdi fram í andlitið og málrómurinn hækkaði. „Hvað kemur… kemur hann málinu við?“

„Rólegur. Ég spurði bara,“ sagði Ugla og yppti öxlum. „Ég var bara forvitin þar sem ég mundi eftir því frá okkar fyrri fundum að þú áttir eldri bróður. Árinu eldri, var það ekki?“

„Jú, ég átti eldri bróður,“ svaraði Valur. „Á eldri bróður. Ég geri ráð fyrir að hann hafi það gott.“

„Svo þú hefur ekki haft samband við hann síðan þú komst til landsins?“

„Nei,“ svaraði Valur og horfði yfir torgið. „Ég hef verið upptekinn.“

„Og sú staðreynd að bróðir þinn giftist æskuástinni þinni—ást lífs þíns—hefur ekkert með það að gera að þú efist um það hvort þú eigir að flytja til baka til Íslands?“

Valur lokaði augunum og fannst heimurinn hringsnúast í höfði sér. Þetta var ekki að eiga sér stað. Hann var ekki að taka við lexíu um lífið frá veru sem var ekki einu sinni raunveruleg—frá einhverri ímyndaðri veru, sem virtist geta valsað inn og út úr lífi hans eins og hún vildi á nokkurra áratuga fresti. Hvað vissi hún um það hvað hann hugsaði, eða hugsaði ekki? Hvað hann raunverulega þráði, eða þráði að þrá?

* * *

Þegar Valur opnaði augun aftur og leit yfir borðið, þá var Ugla horfin. Hann sat einungis andspænis hálffullu rauðvínsglasi. Hann með tómt rauðvínsglas í höndunum. Hann hellti síðustu dropunum úr flöskunni í glasið sitt og hallaði sér aftur í sætinu. Hann fann á sér, en hugurinn var skýrari en hann hafði verið áður. Hann hafði tekið ákvörðun. Hún hafði haft rétt fyrir sér þegar allt kom til alls. Hann þurfti ekki að bíða frekari svara. Hann ætlaði ekki að taka starfinu, jafnvel þótt honum byðist það. Hann var ekki tilbúinn að flytjast til baka til Reykjavíkur. Hann var ekki tilbúinn að takast á við raunveruleikann.

Smásagan Það sem við þráum að þrá er hluti af smásagnasafninu Talaðu við ókunnuga.