Indriði gekk við hlið eiginkonu sinnar um breiðar dyrnar, inn í salinn þar sem árlegt jólaboð fyrirtækisins var þegar í fullum gangi—jólaboð fyrirtækisins hennar. Er hún gekk inn um hurðaropið, rétti Ellinor úr bakinu, lyfti hökunni og hægði á göngulaginu þar sem hún skipti yfir í heillaðu-kúnnann gírinn. Indriði fylgdi henni eftir í gegnum mannhafið, í gegnum óendanlegt flóð af kveðjum og kurteisishjali… Halló, hvernig hefurðu það?… Dásamlegt að sjá þig… Þetta er maðurinn minn, Indriði… Hvernig hafa börnin það?… Þú manst eftir manninum mínum, Indriða? Kúnnarnir höfðu tæplega nægan tíma til að líta í áttina til hans og kinka kolli í viðurkenningarskyni áður en Ellinor stýrði samtalinu frá fjölskylduvænu kurteisishjali yfir í viðskipti… ég sá að síðasti ársfjórðungur var góður… Ég held það verði fleiri tækifæri fyrir samruna þegar líður fram á næsta sumar. Indriða var alveg sama þótt hann fengi litla athygli. Hann kunni sitt hlutverk. Þetta var ekki hans kvöld. Hann var ekki manngerðin sem á sér sín eigin kvöld. Hann var að öllu jöfnu í aukahlutverki, hluti af umhverfinu, hluti af mannfjöldanum. Kvöldið var Ellinor, og það stóð svart á hvítu í óskrifuðum hjúskaparsáttmálanum milli manns og konu að þau styddu hvort annað. Og þau gerðu það. Hvort á sinn máta.
Indriði fylgdi Ellinor eftir um stund, uns hann varð leiður á því að vera eins og gæludýr í bandi, nældi sér í rauðvínsglas af bakka sveimandi þjóns og lét sig fljóta um mannhafði, út að vegg, þar sem hann gat virt fyrir sér fjöldann, athugað hvort hann kæmi auga á einhvern sem hann þekkti, einhvern sem hann kannaðist við, einhvern sem hann gæti gengið upp að og hafið samræður við. Það var þó ekki svo að hann þarfnaðist einhvers til að tala við. Hann stæði sæll í útjaðri vettvangsins, virðandi fyrir sér fólk, andlit þess, líkamstjáningu, samskiptin á milli þess. Hann væri ánægður með að fylgjast með félagslegri virkni salarins, eins og hann væri að horfa á bíómynd. Hins vegar leið honum óþægilega í þeirri stöðu. Ekki af því hann ætti almennt erfitt með að vera í hlutverki þess sem fylgist með, heldur vegna þess að fólki finnst almennt óþægilegt þegar lífvera af þeirra eigin tegund fylgist með því. Þeim er sama um öryggismyndavélarnar, vafrakökurnar og staðsetningartæknina í farsímum—eða svo hafði hann lesið í tímariti á Netinu. Fólki finnst óþægilegt að vera undir eftirliti holds og blóðs. Þeir sem gerast sekir um slíkt athæfi eru taldir skrýtnir, lágkúrulegir, annarlegir. Indriði vildi ekki teljast furðufugl—ekki í veislunni hennar Ellinor.
Gestirnir virtust vera nokkurn veginn þeir sömu ár eftir ár. Indriði kannaðist við eitt og eitt andlit en gat samt sem áður ekki komið auga á nokkurn sem hann var nægilega málkunnugur til þess að hefja samræður við, ekki að fyrra bragði. Það var talsvert um fólk sem leit út fyrir að hafa þónokkur pund á milli handanna, fólk úr viðskiptalífinu, annaðhvort kúnnar eða tilvonandi kúnnar lögfræðistofu Ellinor. Þetta var þó ekki samkoma hinna ofurríku, enginn kom í þyrlu, að minnsta kosti svo framarlega sem Indriði vissi. Það var einnig talsverður fjöldi fólks sem Indriði leit á sem almenning, vinir starfsfólks lögfræðistofunnar, makar, makar vina starfsfólks lögfræðistofunnar. Indriði hafði einu sinni hitt vin maka vinar maka eins eigandans. Umfram allt þá var mikið um Norðmenn.
Sæll, ég heiti James, sagði ungur maður sem hafði laumað sér upp að hlið Indriða á meðan hann virti fyrir sér mannhafið. Indriði, svaraði Indriði. Norskur? Já. Verið lengi í Lundúnum? Hversu langt var nú liðið síðan þau fluttu frá Ósló? Meira en þrjú ár. Þetta var þriðja jólaboð Indriða í borginni. Það voru þá fjögur ár síðan Ellinor hafði sagt Indriði, elskan, komdu og sestu niður, ég hef fréttir að færa. Það voru þá fjögur ár síðan Indriði hafði haldið að Ellinor væri við það að tilkynna honum að hún væri ólétt. Það var hún sem vildi ekki eignast börn. Hún sagði að börn pössuðu ekki við þær væntingar sem hún gerði til starfsframans. Indriði hafði allaf verið opnari fyrir því að stækka fjölskylduna, jafnvel þótt hann hefði ekki sterka skoðun á málinu. Hann var ekki maður sterkra skoðana, svona almennt. Að minnsta kosti ekki varðandi hversdagslega hluti. Ekki það að barneignir væru hversdagslegur hlutur, þannig lagað. Þegar allt kom til alls hafði Ellinor ekki tilkynnt honum að hún væri ólétt, þar sem þau sátu fyrir fjórum árum í hrímhvítri stofunni í Ósló—eða var hún marmarahvít? Hún hafði sagt honum að hún hefði fengið ótrúlega áhugavert tilboð um að koma á fót glænýju útibúi lögfræðistofunnar í Lundúnum. Rúmlega þrjú ár, svaraði Indriði unga manninum, kom hingað með konunni minni, hún er meðeigandi í fyrirtækinu. Ellinor? Já. Ég vissi ekki að hún væri norsk, sagði James og kinkaði kolli, eins og hann væri að hamra þessum nýju upplýsingum inn í höfuðið á sér, ég byrjaði í síðustu viku, ég vinn fyrir stofuna, lærlingur. James og Indriði spjölluðu um stund. Það kom á daginn að ungi maðurinn var forvitinn og vildi vita margt um Noreg. Indriði reyndi að svara eins rækilega og hann gat, rúmlega fimm milljónir, olía, nei, en á evrópska efnahagssvæðinu, ostaskerinn, fótbolti, skíði og skautar, Ole Gunnar Solskjær, en ég geri ráð fyrir að það hafi verið fyrir þinn tíma, Edvard Grieg og Edvard Munch, A-ha, einnig fyrir þinn tíma, nei, ég trúi ekki að jólasveinninn búi þar, eða nokkurs staðar, ef út í það er farið. Það var gaman að hitta þig, sagði James að lokum eftir að hann virtist hafa fræðst nægilega mikið um Noreg, ég verð að halda áfram að blanda geði við gesti. Það var sömuleiðis gaman að tala við þig, svaraði Indriði, og þeir tókust í hendur að skilnaði.
Samtalið hafði vakið upp þorsta hjá Indriða og hann gekk yfir að barnum og bað um annað glas af rauðvíni. Og hvort ertu starfsmaður eða kúnni? spurði lágvaxinn, eldri maður þegar Indriði hélt í átt frá barnum með nýfyllt glasið í hendinni. Maðurinn var klæddur í svört, teinótt jakkaföt, hvíta skyrtu og með búrgúndí-þverslaufu. Indriði gat sér til um að maðurinn væri skjólstæðingur Ellinor. Einn þeirra sem hún gaf ráð varðandi samruna og yfirtökur, hlutafjárútboð, eða hvað það nú hét allt saman sem lögfræðistofan hafði upp á að bjóða. Heimavið töluðu þau ekki mikið um vinnuna. Þess í stað töluðu þau um tónlist og kvikmyndir—þeirra sameiginlegu áhugamál—áhugamálin sem höfðu á sínum tíma verið undirstaða sambands þeirra, og þjónaði áfram hlutverki líms. Indriði kannaðist ekki við manninn. Hugsanlega var hann nýr kúnni. Hvorugt, svaraði Indriði, ég er eiginmaður eins meðeigandans, Ellinor. Það er yndislegt, sagði maðurinn eins og hann hefði marga fjöruna sopið í ástarmálum, hjónaböndum eða hvoru tveggja. Og við hvað starfar þú? spurði maðurinn. Ég er málari. Það er yndislegt, í hvaða stíl? Sjálfur safna ég mestmegnis skúlptúr. Hef ég séð verk þín einhvers staðar? Sagði ég þér að ég safna skúlptúr? Já, það gerði ég, var það ekki? Nútímaskúlptúr er ekki höggmyndalist liðinna tíma, það skal ég segja þér. Nú til dags er einnig meira um innsetningar—vídeóinnsetningar, hljóðinnsetningar, og þess háttar. Ég safna því líka. Ég keypti eitt verk í síðustu viku. Vídeóinnsetning af brosandi konu. Það kann að hljóma fáfengilegt og snobbað, en ósvikið bros er bara svo yndislegt, sannarlega list að festa það á filmu. Þú sagðist vera málari, var það ekki? Hvert er þitt sérsvið? Ég er mikill áhugamaður um impressjónismann. Það eru hins vegar fáir sem mála þannig nú til dags. Í síðustu viku heyrði ég um fólk sem telur sig fást við póstsamtímalist. Þvílíkt orð. Hvernig getum við verið komin fram úr samtímalist? Er fólk farið að mála inn í framtíðina? Er fólk að selja kauprétt á ómáluð málverk? Svona eins og gengur og gerist á Wall Street?
Á þessum háfleygu orðum lauk maðurinn einræðu sinni og Indriði fékk loksins tækifæri til þess að svara upprunalegu spurningunni. Ég fæst að mestu leyti við einlitan akríl á steinsteypu, svaraði Indriði. Yndislegt, afar frumlegt, sagði maðurinn, ég er ekki viss um ég hafi nokkru sinni séð það fyrr. Hvernig skilgreinir þú það? Nýnaumhyggju? Við verðum að vera í sambandi til að fylgja þessu samtali eftir. Ég hef samband í gegnum Ellinor. Nú verð ég að þjóta. Án þess að segja meira skaust maðurinn þvert yfir salinn og tók upp nýjar samræður—eða aðra einræðu. Ellinor bað Indriða alltaf um að segja að hann fengist við skreytingar, í stað þess að segjast vera málari þegar hann talaði við Englendinga. Við verðum að laga okkur að staðbundnum málvenjum, sagði hún. Indriði hafði ekki eins mikla aðlögunarhæfni og Ellinor. Hann hafði ekki farið í háskóla í Oxford. Hann kunni ekki við að segjast fást við skreytingar—jafnvel þótt það væri venjan hér. Hann leit ekki á sjálfan sig sem skreytingarmann. Hann leit ekki á handverk sitt sem skreytingu. Hann skreytti ekki veggi. Hann stillti ekki upp blómum og vösum. Hans verk var einfaldlega að þekja veggi með málningu. Hann var málari en ekki skreytingarmaður.
Sælinú, gaman að sjá þig aftur, sagði maður á norsku. Indriði kannaðist við að hafa séð hann í jólaboði síðasta árs. Þú virðist í þungum þönkum, komdu og spjallaðu við okkur, hélt maðurinn áfram og bauð Indriða inn í hóp þriggja manna sem komu allir kunnuglega fyrir sjónir og voru eflaust í veislunni í fyrra. Það er að verða eins konar hefð að hittast svona einu sinni á ári, hélt maðurinn fram. Indriði játaði því kurteislega, á meðan hann reyndi að muna hver maðurinn var, og hver tenging hans var við lögfræðistofuna. Var þetta endurskoðandinn, bróðir skrifstofustjórans? Þvílíkur umferðarþungi í dag, tilkynnti maðurinn hópnum, það tók mig aldur og ævi að skutla börnunum í skólann í morgun. Þetta var þá ekki endurskoðandinn. Hann átti engin börn á skólaaldri, það mundi Indriði frá samtali þeirra frá árinu áður. Hann átti uppkominn son sem nam verkfræði í háskóla. Þegar þeir hittust í fyrra var sonurinn við það að leggja af stað í ferðalag um löndin við Persaflóann til þess að berja augum stórframkvæmdir sem voru í gangi í því heimshorni. Hann var víst heillaður af stórum verkfræðiundrum. Hann hafði alltaf verið heillaður af framkvæmdum. Allt frá því hann var ungur drengur hafði endurskoðandinn farið með hann í skoðunarferðir um byggingarsvæði. Í seinni tíð var öldin önnur og sonurinn fór með föðurinn á þau svæði þar sem mest spennandi nýbyggingar var að finna. Þeir voru nánir, faðir og sonur, jafnvel þótt þeir byggju ekki lengur saman. Sonurinn bjó hjá fyrrverandi eiginkonu endurskoðandans. Endurskoðandinn bjó hins vegar með núverandi eiginmanni sínum. Eða þannig hafði þessu alla vega verið farið í fyrra þegar þeir höfðu talað saman. Það hafði verið ánægjulegt samtal. Indriði hugsaði með sér að það hefði verið gaman að hitta endurskoðandann aftur þetta árið. Hann var miklu skemmtilegri í viðræðu en þriggja manna hópurinn sem Indriði stóð frammi fyrir þessa stundina, án þess að heillast af umræðunni.
Indriði tók gúlsopa af rauðvíni til þess að næla sér í afsökun til þess að yfirgefa hópinn. Honum fannst óþægilegt að tala við fólk sem var kunnuglegt en samt ókunnugt. Það voru of margir óvissuþættir í samtalinu og hann kunni ekki við að spyrja spurninga til þess að fylla í eyðurnar. Það myndi aðeins afhjúpa óþægilegan sannleikann, að hann hefði gleymt hvert fólkið var. Það gæti orðið vandræðalegt ef fólkið myndi hver hann var. Það gæti litið illa út fyrir Ellinor. Ókunnugir kunningjar voru það versta. Það var miklu betra að tala annaðhvort við fólk sem hann þekkti virkilega eða fólk sem hann þekkti alls ekki neitt. Indriði lyfti tómu glasinu til hópsins. Tími til að fylla á að nýju, sagði hann, og hélt í átt að barnum.
Á meðan hann beið í röð eftir afgreiðslu, leit Indriði yfir salinn og sá Ellinor í líflegum samræðum við kúnna. Eitt augnablik mættust augu þeirra. Hann brosti og kinkaði kolli. Hún brosti og kinkaði kolli. Þetta var bara andartak áður en hún sneri sér aftur að samræðunum. Hún virtist sátt. Það leit út fyrir að jólaboðið stæði undir væntingum. Indriði var glaður fyrir hennar hönd.
Í stað þess að fylla á glasið, skildi Indriði það eftir á barborðinu, gekk út á ganginn, náði í frakkann sinn úr fatahenginu og gekk út í kalt desemberkvöldið. Það var djassklúbbur handan við hornið. Það var staður þar sem Indriði kunni betur við sig. Þar yrðu engir ókunnugir kunningjar.