Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Smásögur

Kærleikskeðjan

Kærleikskeðjan — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég opnaði augun og rétti úr sætisbakinu, breytti því úr svefnstöðu í þægilega afslöppunarstöðu. Fyrir utan gluggann reis sólin hægt og rólega upp fyrir sjóndeildarhringinn og málaði fölbleikt lag yfir ljósbláan bakgrunninn. Við ókum eftir hraðbraut, fram hjá blöndu af lágreistum og meðalháum byggingum—akandi inn í Buenos Aires, eftir því sem ég best vissi. Ég leit á úrið. Klukkan var rétt rúmlega sex. Ef ég mundi áætlunina rétt, þá áttum við rúman klukkutíma akstur fyrir höndum áður en við renndum inn á Retiro stöðina. Það þýddi væntanlega að við værum ekki ennþá komin til Buenos Aires sjálfrar heldur ækjum við um nágrannasveitarfélög hennar.

Innan rútunnar ríkti kyrrðin að mestu leyti, að undanskildu lágu suði vélarinnar og söngnum sem barst frá samspili dekkja og malbiks, í bland við einstaka djúpan andardrátt og léttar hrotur. Ég gat mér þess til að flestir væru ennþá sofandi, notuðu tímann til hins ýtrasta áður en við kæmum á áfangastað. Sjálfur hafði ég sofið eins og steinn, hafði verið þreyttur eftir göngu gærdagsins og rotaðist næstum samstundis eftir að hafa lokið við freyðivínsglasið sem boðið var upp á eftir matinn. Ég brosti við tilhugsuninni. Þar til fyrir skömmu höfðu loftbólur og langferðabílar ekki verið tengd hugtök í mínu höfði. Ég var virkilega ánægður með svefnrútukerfi Suður-Ameríku, það var snilldarhugmynd. Þægindin komu mér á óvart og ég naut þess að geta stigið upp í rútu um kvöld í einni borg og vaknað aftur næsta morgun á allt öðrum stað, í hundruða kílómetra fjarlægð. Að vaða úr einu í annað var það sem ég þarfnaðist þessa stundina. Í lok fimmtán ára sambúðar, og á tíu ára starfsafmæli, þá hafði ég gott af nokkurra vikna rótleysi til að brjóta upp vanabundna hversdagslífið og brúa bilið yfir í nýtt upphaf. Það var þó ókyrrð á leiðinni og sálartetrið sveiflaðist upp og niður.

* * *

„Vakandi?“ hvíslaði lítil stúlka, höfuðið á henni tæplega sýnilegt yfir höfuðpúða sætisins fyrir framan mig.

„Já,“ svaraði ég. „Morgunsólin vakti mig.“

„Ég vaknaði bara því ég vildi ekki sofa lengur… en ég vakti ekki mömmu. Ég er góð stelpa. Get vaknað alveg sjálf og leyft mömmu að sofa.“

„Það er nú gott,“ sagði ég geispandi. Jafnvel þótt ég væri tæknilega vakandi og vel úthvíldur, þá var heilavélin mín ekki að brenna á öllum kertunum.

„Þannig geri ég kærleikskeðjuna lengri.“

„Ha?“ hváði ég, smám saman að ná skýrari hugsun í kollinn. „Kærleikskeðjuna? Hvað er nú það?“

„Keðja af góðverkum,“ hvíslaði stúlkan og reisti höfuðið eilítið hærra yfir sætisbakið. „Yfirmaður pabba leyfði honum að fara snemma heim úr vinnunni í gær. Pabbi las sögur fyrir Javi. Javi er litli bróðir minn. Hann faðmaði mig áður en við fórum upp í rútuna. Ég leyfi mömmu að sofa. Hún gerir svo góðverk fyrir einhvern í dag. Þessi einhver gerir svo góðverk fyrir einhvern annan. Þannig lengist kærleikskeðjan yfir allan heiminn og endar allt stríð og þjáningu.“

„Áhugavert,“ sagði ég og kinkaði kolli. „Stríð mun heyra sögunni til bara af því að yfirmaður pabba þíns leyfði honum að fara snemma heim úr vinnunni í gær?“

„Já,“ svaraði stúlkan án minnstu umhugsunar. „Og af því mamma kenndi okkur að viðhalda keðjunni.“

„Snilld! Þetta kann ég að meta. En hvað gerist ef einhver slítur keðjuna?“

„Um…,“ stúlkan tyllti vísifingri á hökuna og tók sér smá hlé til umhugsunar áður en hún svaraði. „Ekkert mál. Við bara byrjum upp á nýtt.“

„Aðdáunarvert!“ Keðja góðverka sem breiðist um heiminn og útrýmir öllum heimsins hörmungum. Þetta var hugmynd sem ég kunni virkilega vel að meta.

„Hvaðan ertu að koma?“ spurði stúlkan og skipti um umræðuefni.

„Iguazú.“

„Hvað varstu að gera í Iguazú?“

„Skoða fossana og virkjunina.“

„Alveg einn?“

„Já.“

„Ertu ekkert leiður að hafa engan til að tala við?“

„Ég tala við fólk. Ég tala við aðra gesti á gistiheimilunum þar sem ég dvel hverju sinni.“

„Eru þeir líka í rútunni?“

„Hverjir?“

„Gestirnir.“

„Nei. Sumir fóru fyrr. Sumir fara síðar. Sumir voru að ferðast í aðrar áttir.“

„Um hvað töluðuð þið?“

„Hitt og þetta. Hvaðan við erum. Hvað við gerum. Ferðalögin okkar. Það voru hjón á hótelinu í Iguazú sem voru að fara í spennandi siglingu. Þau ætla að sigla um suðurhöfin í kringum Suðurheimskautið og við töluðum um þeirra plön.“

„Ætlarðu með þeim í siglinguna?“

„Nei.“

„Hvert ertu að fara?“

„Til Buenos Aires.“

„Hvers vegna?“

„Til að skoða borgina og heimsækja kunningja.“

„Hvað er kunningja?“

„Einhver sem þú þekkir smá en samt ekkert sérlega vel. Í þessu tilfelli maður sem ég hef hitt nokkrum sinnum á ráðstefnum.“

„Hvað er ráðstefnum?“

„Viðburður þar sem fólk kemur saman og talar um vinnuna sína.“

„Ætlarðu að gista hjá honum?“

„Já.“

„Hvað heitir hann?“

„Matteo.“

„Er hann vinur þinn?“

„Tja…“ Ég leit út um gluggann, eins og ég gerði ráð fyrir að finna rétta svarið við hraðbrautina. „Já og nei. Við höfum hist nokkrum sinnum. Borðað kvöldmat og skemmt okkur ásamt öðrum ráðstefnugestum. Ég veit þó ekki hvort hann getur talist vinur minn.“

„Er hann ókunnugur?“

„Nei…“ Ég hikaði eitt andartak og leitaði aftur svara hjá hraðbrautinni utan gluggans. „Eiginlega ekki… ekki heldur… myndi ég segja.“

„Gott,“ sagði stúlkan og setti upp þvílíkan alvörusvip að mér fannst hún vera að segja mér til syndanna. „Þú ættir ekki að tala við ókunnuga.“

„María,“ hvíslaði kvenmannsrödd úr sætaröðinni fyrir framan mig. „Við hvern ertu að tala?“

„Manninn fyrir aftan okkur,“ hvíslaði stúlkan, settist niður og hvarf úr augsýn. „Hann er einn en ekki leiður.“

„Þú manst hvað ég sagði um að tala við ókunnuga?“

„Já mamma… en ég byrjaði.“

„Í því tilfelli…,“ hvíslaði konan til Maríu áður en hún sneri sér við í sætinu og ávarpaði mig. „Ég vona að hún hafi ekki ónáðað þig.“

„Aldeilis ekki,“ svaraði ég. „Ég naut félagsskaparins.“

„Gott og vel,“ sagði konan og sneri sér til baka.

Móðirin og dóttirin héldu áfram að hvíslast á og ég sneri mér aftur að því að virða fyrir mér útsýnið sem blasti við mér út um glugga rútunnar. Það virtist sem við höfðum á endanum náð inn í Buenos Aires, þar sem við ókum framhjá sífellt þéttbyggðari hverfum. Ég horfði á byggingarnar líða hjá án þess að reyna að veita þeim sérstaka athygli. Ég naut þess að láta umhverfið sogast inn í undirmeðvitundina án þess að spá mikið í það. Það var eitt af því sem ég hafði einsett mér fyrir ferðalagið um Suður-Ameríku. Ég reyndi að plana sem minnst fyrirfram og kaus að fylgja veðri og vindum. Það var enginn staður sem ég varð að heimsækja, ekkert sem ég varð að sjá, ekkert sem ég þurfti að mynda, ekkert sem ég þurfti að muna eftir. Ég hafði ákveðið að ég þyrfti tvo mánuði í framandi umhverfi til þess að tæma hugann af þeim væntingum sem ég hafði til lífsins—væntinganna sem ég hafði meðvitað og ómeðvitað byggt upp í gegnum árin. Þegar ég kæmi aftur til Barselóna tæki alvaran við á ný. Ég þyrfti að byggja upp nýjan hversdagsleika—nýtt líf án Mercè. Ég þyrfti einnig að ákveða hvort það væri kominn tími á nýjan starfsvettvang eftir tíu ár í háskólanum. Skipta yfir í eitthvað mýkra starf—minni útreikninga. Ef til vill vettvang þar sem ég gæti notað skáldskaparáhuga minn. Ekki það að ég hefði hugmynd um hvað það gæti verið.

Það var hins vegar seinni tíma vandamál. Nú þurfti ég að komast að því hvað væri að gerast í mínu næsta nágrenni. Rútan hafði numið staðar á umferðarmiðstöð sem virtist í stærri kantinum. Áhöfnin tilkynnti ekki hvar við værum og ég gat ekki séð nein skilti með stöðvarheiti. Flestir, ef ekki allir, farþegarnir virtust vera að búa sig undir að yfirgefa rútuna. Ég leit á úrið og blaðaði í ferðaáætluninni. Samkvæmt henni áttum við enn hálftíma akstur fyrir höndum áður en við kæmum til Retiro-stöðvarinnar í Buenos Aires.

„Þetta er Retiro,“ sagði kvenmannsrödd sem greinilega var fær um að lesa hugsanir mínar eða látbragð. „Við erum á undan áætlun.“

Ég leit upp. María og móðir hennar stóðu í gangveginum milli sætanna, tilbúnar að yfirgefa rútuna.

„Njóttu dvalarinnar í Buenos Aires,“ hélt móðirin áfram, áður en hún leiddi dóttur sína af stað fram ganginn.

„Bless, ókunnugur,“ sagði María og blikkaði.

„Bless, takk,“ svaraði ég og horfði á eftir þeim mæðgum þar sem þær nálguðust dyrnar.

Ég greip taupokann sem ég notaði til þess að geyma mín helstu verðmæti og nauðsynjar, stóð upp og yfirgaf rútuna ásamt síðustu farþegunum.

* * *

Eftir að hafa náð í bakpokann minn úr farangursgeymslunni var kominn tími til að halda inn í miðborgina. Ég vissi að aðaltorgið var austur af Retiro, en þegar ég steig út um dyr stöðvarinnar gerði ég mér grein fyrir að ég hafði hvorki hugmynd um hvaða útgang ég hafði farið né hvaða gata lægi til austurs.

Ég staðnæmdist um stund og leit yfir umhverfið. Göturnar virtust vera að vakna til lífsins. Það var ekki margmenni fyrir utan stöðina heldur nokkrir götusalar sem voru að vinna við að setja upp sölubása og einstaka vegfarandi lagði lykkju á leið sína fram hjá kössum með söluvarningi. Þetta leit ekki út fyrir að vera aðalinngangur.

Ég gekk niður rampinn frá stöðinni og út á strætið. Ég beygði til hægri, gekk meðfram vegg stöðvarinnar, horfði vandlega eftir götuheitum og lagði þau á minnið. Nokkrum götuhornum síðar beygði ég til hægri án umhugsunar, enn á ný umhugað um að gefa götuheitum góðan gaum. Ég gekk að næstu gangbraut, fór yfir götuna og gekk til baka hinum megin. Eftir ein gatnamótin enn sneri ég til vinstri og gekk yfir að bekk í almenningsgarði, framan við Retiro-stöðina, gengt innganginum þar sem ég hafði yfirgefið stöðina.

Þegar ég ferðaðist um ókunnar slóðir kunni ég ekki við að styðjast við kort þegar ég stóð úti á miðri götu. Ég vildi ekki vekja athygli á mér sem birtingarmynd hugmyndarinnar um hinn dæmigerða týnda ferðalang. Mér fannst það gera mig berskjaldaðan fyrir hnupli, svikum og prettum.

Ég tók af mér bakpokann, settist á bekkinn og tók upp Lonely Planet útgáfuna af Suður-Ameríku. Að öllu jöfnu hefði ég leitað mér að kaffihúsi áður en ég kíkti í ferðahandbókina en á þessum stutta göngutúr um nágrenni umferðarmiðstöðvarinnar hafði ég ekki komið auga á nokkurt slíkt. Ef til vill hafði ég verið of upptekinn við að leggja götuheiti á minnið.

Ég skoðaði kort af Retiro-svæðinu og hófst handa við að staðsetja mig með hjálp götuheitanna í huglægu minnisbókinni. Mér til mikillar gleði uppgötvaði ég að ég þyrfti bara að fylgja einu stræti eftir til þess að komast á þann stað í miðbænum sem ég vildi komast á. Þótt það væri dágóður spölur, þá var það að minnsta kosti bein braut. Ég þyrfti bara að fylgja San Martín sem tæki mig beinustu leið að Plaza de Mayo. Það kom þó á daginn að gangan var í hásuður en ekki austur, eins og ég hafði haldið.

* * *

Ég kom inn í miðbæinn við norðvesturhorn Plaza de Mayo. Það var enn tiltölulega snemma morguns og ég hafði talsverðan tíma til aflögu áður en ég hefði samband við Matteo—kunningja minn. Eða var hann vinur minn? Eða ókunnugur. Í öllu falli þá var of snemmt að hringja núna. Satt best að segja var ég ekki viss um það hvenær væri góður tími til að hafa samband. Það var laugardagsmorgunn og ég hafði ekki hugmynd um það hvernig helgarrútínan hans var, eða kurteisisvenjur þessa heimshluta varðandi símtöl fyrir hádegi.

Ég hóf skoðunarferð mína um miðbæinn með því að ganga að forsetahöllinni bleiku, Casa Rosada, og til baka. Síðan þræddi ég hliðargöturnar í kringum Plaza de Mayo, án þess að líta á nokkuð sérstakt en innbyrða á sama tíma allt sem ég sá. Ég gekk fram hjá blaðasala sem var að opna búðina sína. Ég leit við hjá honum og keypti mér kort af borginni. Ég hugsaði með mér að það gæti komið sér vel að hafa nákvæmt kort í höndunum þegar ég leitaði að heimilisfangi Matteo, eitthvað haldbærara en litlu uppdrættina í Lonely Planet. Sér í lagi þar sem ég kenndi þeim um morgunruglinginn varðandi það hvað var austur og hvað suður. Það ert ekki þú sem ert ruglaður, sagði ég við sjálfan mig, þetta er allt ferðahandbókinni að kenna.

Eftir að hafa mælt göturnar í kringum Plaza de Mayo í næstum klukkutíma gekk ég fram á kaffihús sem leit vel út. Ég hafði svosem ekki verið að leita að stað til að setjast niður á en ég áttaði mig á að gangan um bæinn hafði vakið upp svengd og ég ákvað að það væri góð hugmynd að fá sér smá morgunmat, um leið og ég skoðaði nýja kortið mitt til þess að ná áttum í borginni. Ég pantaði mér cappuccino og croissant, fletti kortinu sundur og gerði fyrstu tilraun til að finna út hvar Matteo bjó. Með kortið útbreitt fyrir framan mig áttaði ég mig á því að ég stóð frammi fyrir gríðarstórri borg með eitt götuheiti. Ég var ekki með neitt í höndunum til þess að þrengja leitarhringinn. Nálar og heystakkar komu upp í hugann. Ég vissi ekkert um hverfi borgarinnar, né heldur í hvaða hverfi Matteo bjó, hvað þá heldur hvort heimilisfangið væri í miðbænum, úthverfi, norður, suður, austur eða vestur. Ég reyndi að skanna kortið frá efra vinstra horni til neðra hægra horns en komst fljótt að því að það myndi taka aldur og ævi. Því næst prófaði ég að líta af handahófi á svæði í kringum miðbæinn og lesa öll götunöfn í þeirri von að finna Olavarría. Hvorug aðferðin skilaði árangri. Um stund sá ég eftir því að hafa skilið snjallsímann minn eftir heima á Spáni. Það hefði verið leikur einn að kortleggja heimilisfangið með aðstoð alvörusíma og gagnapakka.

Ég hafði ákveðið að skilja snjallsímann eftir því ég vildi slíta sem flest tengsl við gamla heiminn í þá tvo mánuði sem ég hugðist vera á flakki um nýja heiminn. Ég hafði ákveðið að taka mér smáfrí frá stafræna heiminum og reyna að lifa hliðrænu lífi í nokkrar vikur. Lífið snerist um annað og meira en reiknirit, sannfærði ég sjálfan mig um, allt þarf ekki að vera útreiknað. Ég átti þó í mestu vandræðum með að leggja reikniritin alveg frá mér. Það var nú bara þannig sem ég hugsaði.

Án þess að hafa fundið það sem ég leitaði að, braut ég kortið saman og kláraði morgunmatinn. Það var ennþá tiltölulega snemma morguns og mér varð aftur hugsað til þess hversu árla dags ég gæti hringt í Matteo. Klukkan var hálftíu og ég ákvað að það væri við hæfi að hringa upp úr tíu. Ég hafði þó varla lokið við þá hugsun þegar ósnjalli síminn minn byrjaði að hringja.

„Hæ, þetta er Matteo. Hvernig hefurðu það? Ertu kominn til Buenos Aires?“

„Já, ég kom með rútunni í morgun og er rétt í þessu að klára morgunmatinn.“

„Flott mál. Hvar ertu?“

„Skammt vestur af Plaza de Mayo, held ég, annars er ég frekar áttavilltur í dag.“

„Ekkert vandamál. Það er frábær staðsetning. Það er afar auðvelt að rata heim til mín þaðan. Farðu niður í átt að Casa Rosada, haltu þig hægra megin og hoppaðu upp í vagn 64 til La Boca. Vagninn beygir svo til suðurs og þú ferð fram hjá San Telmo, svo undir brú og framhjá garði á hægri hönd. Vagninn tekur svo beygju til vinstri inn í La Boca. Þú skalt fara út úr vagninum áður en hann beygir til hægri á ný við Puente Nicolás Avellaneda. Svo gengurðu til baka, eina og hálfa húsalengju, og beygir til vinstri inn í Olavarría. Slotið mitt er þá á hægri hönd, fyrir ofan apótek. Náðir þú þessu?“

„Já, það held ég. Casa Rosada, hægra megin, vagn 64, La Boca, suður, San Telmo, brú, garður, vinstri, stíga af áður en hann beygir til hægri og svo til baka, vinstri inn í Olavarría og apótek.“

„Nákvæmlega! Sjáumst eftir smá.“

„Ókei bæ.“

Ég endurtók leiðarlýsinguna í huganum. Casa Rosada, hægri hönd, vagn 64 La Boca, brú, garður, vinstri, stíga af áður en hann beygir til hægri og svo apótek. Þetta hljómaði alls ekki svo flókið.

Ég borgaði morgunmatinn og hélt yfir Plaza de Mayo í átt til Casa Rosada, þyljandi fyrsta hluta leiðarinnar í huganum, vagn 64 til La Boca. Þegar ég kom að stoppistöðinni renndi einmitt vagn 64 í hlað og ég stökk um borð.

Þegar upp í vagninn var komið spurði ég vagnstjórann hvað farið kostaði og án þess að svara benti hann mér á sjálfsala aftar í vagninum. Ég gekk inn ganginn og las leiðbeiningarnar á sjálfsalanum. Ég hafði tvo valkosti til að borga farið, annars vegar gat ég borgað einn peseta með strætókorti eða notað tveggja peseta mynt. Ég hafði hvorugt undir höndum. Ég var bara með tveggja peseta seðil.

„Get ég borgað með tveggja peseta seðli?“ spurði ég vagnstjórann.

„Nei.“

„Getur þú skipt seðli í mynt?“ spurði ég, þótt það væri nánast sama spurning og áður.

„Nei.“

Nú voru góð ráð dýr, hugsaði ég með mér þar sem ég stóð á ganginum í miðju vagnsins og velti því fyrir mér hvaða kostir væru í stöðunni. Vagninn hafði þegar ekið af stað svo ég var of seinn að stökkva frá borði til að leita að skiptimynt. Á hinn bóginn kunni ég ekki við að setjast einfaldlega niður án þess að borga.

„Ég tek þetta.“

Maður í bláum verksmiðjusamfestingi gekk upp að sjálfsalanum og borgaði farið mitt með strætókortinu sínu.

„Kærar þakkir,“ sagði ég og rétti manninum tveggja peseta seðilinn.

„Ég borgaði bara einn peseta með kortinu og ég á ekki skiptimynt.“

„Það er ekkert vandamál,“ sagði ég og otaði seðlinum í átt til hans. „Farið hefði hvort sem er kostað mig tvo peseta.“

„Hafðu engar áhyggjur,“ sagði maðurinn og hélt höndunum upp, eins og til að gefast upp fyrir einhverjum sem væri að ráðast á hann með eggvopni.

„Nei, endilega, takt’ann,“ þrjóskaðist ég við. „Það er minnsta sem ég get boðið.“

Verkamaðurinn hristi höfuðið brosandi og sneri aftur í sætið sitt. Ég þakkaði honum á ný fyrir greiðann og fékk mér sjálfum sæti aftar í vagninum. Mér leið vandræðalega yfir að hafa þegið aðstoð mannsins. Ég var nokkuð viss um að ég væri betur settur fjárhagslega en hann og tveggja peseta seðillinn væri betur kominn í hans höndum en mínum. Ég velti því fyrir mér hvernig ég gæti endurgreitt honum. Ég vildi endurgjalda greiðann einhvern tímann. Einhvern veginn. Hins vegar var afar ólíklegt að vegir okkar myndu nokkurn tímann liggja saman aftur. Við þá hugsun hvarflaði hugurinn til Mercè. Myndu okkar vegir liggja saman aftur? Það virtist óhjákvæmilegt en samt svo ómögulegt að ímynda sér hvernig þeir endurfundir yrðu—eftir allt sem hafði gerst, eftir allt sem sagt hafði verið, eftir allt sem hafði verið hrópað.

Þegar vagninn stoppaði á næstu stöð stóðu þeir upp, farþegarnir tveir sem setið höfðu fyrir framan mig, og héldu til dyra. Kona leiddi litla stúlku. Rétt áður en þær stigu af vagninum sneri stúlkan sér við, leit í áttina til mín, brosti og vinkaði. Mér varð bylt við. Þetta var María, nýja vinkona mín. Áður en mér gafst færi á að veifa til baka höfðu dyrnar lokast að baki þeim og vagninn lagt af stað á ný.

Var þetta einhvers konar jarteikn? Voru viðskipti mín við verkamanninn bara einn hlekkur í kærleikskeðjunni? Ef til vill hafði móðir Maríu gert manninum góðverk og hann borgað farið mitt sem sinn hlekk í keðjunni. Nú var komið að mér að gera góðverk. Það var komið að mér að framlengja kærleikskeðjunni sem myndi á endanum binda endi á öll stríð og hörmungar þessa heims. Og þó. Ef til vill var maðurinn ekki hluti af keðjunni sem hófst á því að yfirmaður föður Maríu hafði gefið honum hálfan frídag. Maðurinn gæti eins auðveldlega verið hluti af annarri kærleikskeðju, öðrum þræði sem væri að vefa sama kærleiksdúkinn sem myndi á endanum hylja jörðina og vernda okkur öll. Ég hristi höfuðið og ákvað að þetta væri nægur ljóðrænn prósi í bili, ég hafði stað til þess að komast á.

Ég leit út um gluggann og reyndi að muna lýsingu Matteo á leiðinni. Vagn 64, brú, garður, stíga af áður en hann beygði til hægri. Það var allt og sumt sem ég gat munað. Hvernig í ósköpunum ætti ég að vita hvenær ég ætti að stíga af vagninum?

Ég tók upp kortið og fletti því sundur, eins mikið og takmarkað rýmið í vagninum leyfði. Nú þegar ég hafði hverfisnafn undir höndum, þá ætti ég að geta framkvæmt ítarlegri og árangursríkari leit að heimilisfangi Matteos. Augun hvörfluðu yfir kortið og í snarheitum fylgdu þau flugi krákunnar frá Casa Rosada, yfir San Telmo, í La Boca hverfið, og þar pírði ég augun á kortið í leit að Olavarría. Bingó. Þarna blasti gatan við. Mér varð litið til baka til Casa Rosada og reyndi að endurspila leiðarlýsingu Matteos á kortinu. Beygir suður og fer undir brú. Ég leit út um gluggann og sá að við vorum að nálgast mislæg gatnamót. Ég leit aftur á kortið og fann garðinn og vinstri beygjuna inn í La Boca. Þetta var smám saman að rifjast upp fyrir mér. Nú þurfti ég bara að passa mig á því að stíga af vagninum áður en hann beygði til hægri, eftir að hafa beygt til vinstri.

Ég leit aftur út um gluggann. Gatnamótin mislægu voru að baki og garðurinn var á hægri hönd. Fyrr en varði myndi vagninn beygja til vinstri. Allt var eins og það átti að vera og það yrði barnaleikur að finna rétta stoppistöð.

Ég hlustaði á stöðvarheitin í hvert sinn sem næsta stopp var tilkynnt og reyndi að finna þau á kortinu svo ég gæti yfirgefið vagninn á þeirri réttu. Mér gekk brösuglega í fyrstu. Ég var of seinn að leita. Smám saman komst ég þó upp á lagið með því að vera með vísifingur á kortinu, hlusta og horfa út um gluggann. En þegar ég hafði loksins komið mér upp kerfi til að fylgja eftir ferð vagnsins, hugsaði ég með mér að það væri miklu skemmtilegra að njóta útsýnisins um ókunnuga borg heldur en að fylgja eftir ferð strætisvagns með fingur á korti. Málið var ekki eins flókið og ég var að gera það. Allt sem ég þurfti að gera var að njóta útsýnisins og bíða eftir að vagninn beygði til hægri. Þá myndi ég vita að ég hefði misst af réttu stoppistöðinni en væri að minnsta kosti í réttu hverfi. Það yrði seinni tíma vandamál að finna rétta húsið. Ég sleppti því fingrinum af kortinu, hætti að hlusta eftir stöðvarheitum og naut útsýnisins.

Á endanum beygði vagninn til hægri, svo ég hringdi bjöllunni og steig út við fyrsta tækifæri. Ég leit í kringum mig til þess að kynnast umhverfinu. Hinum megin götunnar lá göngusvæði meðfram síki. Mín megin var röð niðurníddra húsa. Þeirri hugsun skaut upp í huga mínum að ég hafði heyrt sögur um að La Boca væri ekki beint öruggasta hverfi borgarinnar. Ef til vill höfðu það verið mistök að fylgja ekki upphaflegu leiðarlýsingunni. En þrátt fyrir áhyggjur mínar, að þetta væri ekki góður staður til þess að viðra áttavillu mína á almannafæri, þá settist ég niður á bekkinn við stoppistöðina og leit á kortið til þess að finna út hvar ég væri, og hvernig væri best að komast heim til Matteo.

„Leitarðu einhvers?“

Ég hrökk við, herti takið á kortinu og kreisti saman hnén til þess að tryggja bakpokann. Ég leit upp og sá eldri mann setjast niður við hlið mér.

„Ég er að leita að Olavarría,“ játaði ég.

„Olavarría,“ sagði maðurinn hægt. „Fylgdu þessari götu að næstu gatnamótum, beygðu þá til hægri og Olavarría mun vera þriðja gatan sem þú kemur að.“

„Kærar þakkir!“

Ég gekk enn á ný frá kortinu í bakpokann og fylgdi leiðarlýsingu gamla mannsins, þó á báðum áttum og með smávægis áhyggjur af því hvort hann hafi sent mig í rétta átt eða reynt að afvegaleiða mig. Áður en ég vissi af þá stóð ég hins vegar fyrir framan apótekið sem Matteo hafði lýst fyrir mér í símanum. Nú leit út fyrir að ég skuldaði kærleikskeðjunni tvö góðverk.

* * *

Eftir að hafa rölt um San Telmo í yfir fjörutíu mínútur, leitandi að stað til að fá mér hádegismat, þá var ég glaður yfir að hafa séð kaffihús sem leit vænlega út. La Poesía. Þótt ég teldi mig meira fyrir prósa þá ákvað ég að kíkja inn. Ég hafði gengið fram hjá nokkrum vel álitlegum stöðum á morgungöngu minni en þegar ég kíkti inn sá ég alltaf eitthvað sem fældi mig frá. Of tómt. Of fullt. Of bjart. Of dimmt. Ég átti mér enga nákvæma skilgreiningu á því hvað heillaði mig varðandi hádegisverðarstað en þegar á hólminn var komið og ég varð að taka ákvörðun þá fannst mér auðvelt að sannfæra mig um að handan við hornið gæti grasið verið grænna, húsgögnin verið brúnni eða maturinn girnilegri. Ég gerði mig sekan um þannig hugsunarhátt æ ofan í æ. Ég gekk þangað til ég var of svangur til þess að halda áfram og endaði á því að borða á hvaða stað sem var nálægastur þeim stað sem ég hafði fyllst örvæntingu. Ég borðaði alltof oft á stöðum sem voru miklu síðri en þeir sem ég hafði gengið fram hjá og hafnað. Ég var glaður að þannig virtist ekki vera uppi á teningnum þegar La Poesía var annars vegar. Gat það verið að óákveðni mín hefði borgað sig, einu sinni?

La Poesía var í fjallakofastíl. Borð og stólar voru í eldri kantinum en afar stílhrein. Veggirnir voru þaktir svarthvítum ljósmyndum og hlutum úr fortíðinni. Þótt þemað væri antík, þá var andrúmsloftið ferskt og innanstokksmunir virtust valdir af kostgæfni, hver hlutur virtist á réttum stað án þess að skapa tilgerðarlegt umhverfi. Staðurinn var náttúrulega heillandi.

Kaffihúsið var hálfsetið af viðskiptavinum. Lýðurinn spannaði breitt bil hvað aldur og útlit varðaði. Við útidyrnar voru tveir eldri menn í hrókasamræðum. Á borðinu þeirra lá stafli af úrsérgengnum bókum. Ég gat ekki heyrt samræður þeirra en gerði mér í hugarlund að þarna væru á ferðinni bókagagnrýnendur að þræta um bókmenntalegt gildi sígildra verka. Í innsta horni staðarins sat hópur unglingsstúlkna sem spjölluðu saman milli þess sem þær litu á símana sína. Í miðju staðarins sat kona á miðjum fertugsaldri, giskaði ég á, pikkandi á fartölvu, með latte á aðra hönd og skrifblokk á hina.

Ég fann mér borð fyrir miðju kaffihússins og settist niður. Enn á ný minnti ég sjálfan mig á það í huganum hversu heppinn ég hafði verið að vera vandfýsinn á hádegisverðarstað þennan daginn. Ef ég hefði ekki verið það hefði ég líklega misst af þessum. Það var eitthvað við þetta kaffihús sem ég hefði ekki viljað missa af.

Ég pantaði mér steikarsamloku og bjór. Þetta var þriðji dagurinn minn í Buenos Aires og ég hafði ekki enn fengið mér steikarsamloku. Yfir morgunmatnum hafði Matteo stungið upp á því að ég prófaði eina slíka. Þetta var að vissu leyti áhugaverð uppástunga, þar sem hann sjálfur var grænmetisæta. Hún var hins vegar fullkomlega í samræmi við persónuleika mannsins sem ég hikaði núna ekki við að kalla vin, frekar en kunningja eða ókunnugan. Hann hafði næmt eyra fyrir því sem ég kunni að meta og kom með sérsniðnar uppástungur fyrir mig sem voru samt sem áður byggðar á þekkingu heimamannsins á borginni.

Á meðan ég beið eftir matnum tók ég upp minnisbókina og hófst handa við að skrifa ferðadagbók fyrir Buenos Aires. Það var þó varla hægt að kalla þetta ferðadagbók. Þetta var bara dagbók—samansafn handahófskenndra hugsana um allt og ekkert. Ég hafði svosem ekki staðið mig vel í hlutverki ferðalangs. Það er að segja í þeim skilningi sem greint var frá í Lonely Planet. Ég hafði bara gengið um án áfangastaðar, hugsað og virt fyrir mér lífið í borginni, milli þess sem ég settist niður og páraði nokkur velvalin orð í minnisbókina. Ég hafði getað slakað vel á og náð að hrista af mér áhyggjurnar sem ég hafði í upphafi haft um öryggi borgarinnar. Orðin flæddu og mér leið betur en ég hafði gert í háa herrans tíð. Veran að heiman var að gera mér gott. Lundin var tvímælalaust léttari. Mér leið ekkert illa yfir því að hafa ekki kynnst borginni eins og aðrir ferðamenn. Þess í stað kynntist ég henni á minn hátt. Ég er hugsuður, skrifaði ég í minnisbókina, og ef borg fær mig til að hugsa, þá hugsa ég. Ég er göngumaður, og ef borg fær mig til þess að ganga, þá geng ég. Ég er rithöfundur—í víðum skilningi þess orðs—og ef borg fær mig til þess að skrifa, þá skrifa ég. Jafnvel þótt ég sé í Buenos Aires, þá þarf ég ekkert að læra að dansa tangó, svo framarlega sem penninn dansar yfir pappírsörkina.

Á milli setninga leit ég upp frá minnisbókinni og yfir kaffihúsið, yfir að barnum, drekkandi í mig andrúmsloft staðarins, og ekki síður til þess að stelast til að líta á þjónustustúlkurnar, sem mér fundust afar fallegar. Eftir fimmtán ára sambúð með Mercè fannst mér ég vera að horfa á eftir fallegu kvenfólki í fyrsta sinn í langan tíma—það er að segja meðvitað. Ef aðeins Mercè hefði haft sama sjónarhorn á samband okkar, þá hefði ekki verið um neinn Fábian að ræða, enga stórkostlega opinberun og engan skilnað. Á hinn bóginn hefði heldur ekki verið um neina ferð til Suður-Ameríku að ræða, engin endurlífgandi ganga um Buenos Aires og engin ný ævintýri. Ef til vill hafði allt heila klabbið verið til þess að frelsa mig frekar en að niðurlægja.

Í lok eins þessara yfirlita var ég við það að snúa mér aftur að skriftum þegar ég kom auga á kunnuglega persónu sem stóð við barinn á spjalli við eina þjónustustúlkuna. Ef mér skjátlaðist ekki þá var þetta Ellen, kanadísk kona sem ég hafði hitt yfir morgunverði í Iguazú fyrir nokkrum dögum. Ég hafði átt áhugavert spjall við hana og eiginmann hennar.

„Hæ, þvílík tilviljun að sjá þig hér!“ sagði ég þegar ég nálgaðist barinn þar sem Ellen stóð.

„Þú hér! Frábært! Þú talar spænsku, er það ekki?“ spurði Ellen og andvarpaði. „Mig langar að panta steikarsamloku til þess að taka með mér í rútuna til Bariloche en ég virðist ekki geta komið því til skila að ég vilji fá samlokuna til að taka með.“

„Hafðu engar áhyggjur,“ sagði ég og sneri mér að þjónustustúlkunni. „Quiere el lomito para llevar.“

“Ah, para llevar, ahora sí,” svaraði þjónustustúlkan og brosti af létti. “¿Lo quiere completo?”

„Má bjóða þér samlokuna með öllu?“

„Hvað er innifalið í öllu?“

„Skinka, spælt egg, ostur, beikon…“

„Nei, bara venjulega samloku,“ svaraði Ellen. „Ég man eftir því að hafa fengið mér steikarsamloku þegar ég var í Buenos Aires fyrir tólf árum síðan. Hún var afar girnileg.“

„Solo el sandwich,“ þýddi ég fyrir þjónustustúlkuna en sleppti að þýða seinni hluta setningarinnar, þar sem ég mat hann óviðkomandi samlokupöntuninni. Ég hélt áfram starfi mínu sem túlkur, þýðandi seinasta hluta viðskiptanna sem snerist um greiðslu.

„Hvers vegna sest þú ekki hjá mér á meðan þú bíður eftir matnum,“ sagði ég og benti í áttina til borðsins þar sem ég hafði komið mér fyrir. „Ég er sjálfur að bíða eftir minni samloku.“

Þar sem við biðum þá spjölluðum við um það sem á daga okkar hafði drifið síðan við sáum hvort annað í Iguazú. Tíminn leið hratt og áður en við vissum af voru samlokurnar komnar á borðið.

„Ég verð að þjóta,“ sagði Ellen. „Ég get ekki verið sein í rútuna.“

„Njóttu Bariloche, og skemmtisiglingarinnar, og samlokunnar. Ekki endilega í þeirri röð.“

„Takk fyrir að grípa inn í og bjarga pöntuninni. Ef ég gæti bara borgað þér til baka einhvern veginn.“

„Það er engin þörf fyrir endurgreiðslu. Ég er bara að viðhalda kærleikskeðjunni. Þú skuldar mér ekki neitt. Ég lagði bara góðverk inn í alþjóðakærleiksbankann. Þú getur gert hið sama með því að aðstoða einhvern annan. Við getum þannig sótt í bankann þegar við þurfum þess með. Við þurfum ekki að gjalda greiða með gagnkvæmum hætti. Við þurfum bara að vera góð hvert við annað til þess að tryggja að alltaf sé til innistæða í bankanum.“

„Ha?“

„Skiptir engu,“ svaraði ég brosandi. „Einhvern tímann seinna. Hlauptu á eftir rútunni.“

Framlag mitt til kærleikskeðjunnar hafði verið lítið. Engin lífsbjörg eða annar hetjuskapur. Samt sem áður leið mér vel að vera loksins hluti af keðjunni sem myndi á endanum breiðast um allan heiminn og binda enda á öll stríð. Hver einasti hlekkur í keðjunni skipti máli, gerði ég mér í hugarlund, hversu smár eða stór.

Þar sem ég fylgdi Ellen til dyra með augnaráðinu þá stoppuðu augun skyndilega við borð nálægt innganginum. Enn og aftur hitti ég fyrir Maríu og móður hennar. Stúlkan brosti og ég blikkaði hana.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/