Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

„Jæja,“ sagði læknirinn þar sem hann horfði niður fyrir sig og páraði á blað. „Ég ætla að skrifa upp á tvenns konar töflur fyrir þig. Þær bleiku tekur þú á hverju kvöldi til þess að hjálpa þér að sofna og þær fjólubláu getur þú tekið í hvert sinn sem það hellast yfir þig yfirþyrmandi áhyggjur sem gætu leitt til kvíðakasts.“

Bleikar og fjólubláar — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„En,“ stamaði ég. „Getur þú ekki skrifað upp á neitt sem gæti tekið á rótum vandans? Komið í veg fyrir kvíðann? Getur þú ekki skrifað upp á félagslegt réttlæti? Borgaralaun? Fordómalaust samfélag? Jafnrétti kynjanna? Mannkærleika? Eða umhverfisvitund?“

„Nei, vinur minn,“ svaraði læknirinn, gerði hlé á párinu og leit í augun á mér. „Ég er bara læknir. Ég er bara í pillunum.“

„Hafðu samt ekki áhyggjur,“ hélt hann svo áfram um leið og hann hófst handa við að skrifa lyfseðilinn á ný. „Taktu bara pillurnar þínar samviskusamlega og þær fá þig til þess að gleyma öllu þessu hinu sem þú minntist á.“