Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Bleikar og fjólubláar

„Jæja,“ sagði læknirinn þar sem hann horfði niður fyrir sig og páraði á blað. „Ég ætla að skrifa upp á tvenns konar töflur fyrir þig. Þær bleiku tekur þú á hverju kvöldi til þess að hjálpa þér að sofna og þær fjólubláu getur þú tekið í hvert sinn sem það hellast yfir þig yfirþyrmandi áhyggjur sem gætu leitt til kvíðakasts.“

Bleikar og fjólubláar — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„En,“ stamaði ég. „Getur þú ekki skrifað upp á neitt sem gæti tekið á rótum vandans? Komið í veg fyrir kvíðann? Getur þú ekki skrifað upp á félagslegt réttlæti? Borgaralaun? Fordómalaust samfélag? Jafnrétti kynjanna? Mannkærleika? Eða umhverfisvitund?“

„Nei, vinur minn,“ svaraði læknirinn, gerði hlé á párinu og leit í augun á mér. „Ég er bara læknir. Ég er bara í pillunum.“

„Hafðu samt ekki áhyggjur,“ hélt hann svo áfram um leið og hann hófst handa við að skrifa lyfseðilinn á ný. „Taktu bara pillurnar þínar samviskusamlega og þær fá þig til þess að gleyma öllu þessu hinu sem þú minntist á.“

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/