Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Bréfið

Bréfið — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég gekk inn í geymsluna og horfði yfir kassastaflann. Ég vissi að prófskírteinið mitt frá háskólanum væri þarna einhvers staðar. Vottur um það að ég hafði lokið meistaranámi í jarðfræði.

Ég opnaði kassana hvern af öðrum í leit að réttu skjalamöppunni. Heppnin var með mér á þriðja kassa. Ég dró möppuna upp úr kassanum og opnaði hana varlega. Þó ekki með nægjanlegri gætni til að koma í veg fyrir að bréf féll á gólfið. Ég lagði möppuna frá mér og teygði mig eftir gulleitu umslaginu sem ekki var stílað á neinn.

Ég dró fram þéttskrifaða örk og byrjaði að lesa. Það færðist bros yfir varir mínar þegar ég las mína eigin skrift þar sem ég lýsti fyrir vinum og vandamönnum ástæðum þess ég hafði ákveðið að ljúka ekki meistaranámi mínu í jarðfræði — hvers vegna ég gat ekki haldið út lengur.

Ég hafði steingleymt þessu bréfi. Bréfi sem aldrei var sent en gerði mér kleyft að koma skikka á rótið í huga mér. Það hjálpaði mér að draga djúpt andann og einbeita mér að því að klára meistararitgerðina.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/