Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Dögun

Aðrar útgáfur: PDF | english

Dögun — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Sólin kemur upp handan fjallsins og geislar hennar glitra á stöðuvatninu í botni dalsins. Fuglarnir vakna og hefja söng—flögra frá einni grein til þeirrar næstu og gæða sér á safaríkum berjum í morgunmat. Mýsnar hlaupa eftir tréhandriðinu og feykja flyksum af flagnaðri málningu í allar áttir þegar fætur þeirra mæta snjáðu og rotnandi timbrinu. Refirnir geispa er þeir læðast rólega út úr skógarjaðrinum og inn á túnin til þess að hlýja sér í morgunsólinni. Jaðrakan rótar í moldinni uns hann rekst á eitthvað hart. Hann notar gogginn til þess að draga hlutinn upp á yfirborðið. Mannabein. Hugsanlega hluti af fingri. Á þessum slóðum morar allt í rotnandi leifum þessarar útdauðu skepnu.

Enginn veit með vissu hvernig útrýminguna bar að en kenningar eru á hverju strái. Sumir hallast að einhvers konar sjálfsútrýmingu eða sjálfsofnæmi. Aðrir benda á náttúruhamfarir, eldgos, loftstein eða jafnvel verur frá öðrum hnöttum. Engin veit en allir þykjast vita.

Jaðrakaninn sleppir beininu og kveikir á einbeitingunni. Hann hugsar beinafundinn samviskusamlega inn í alheimssjálfið áður en hann blakar vængjunum og hefur sig til flugs.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/