Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Aðrar útgáfur: PDF | english

Sólin kemur upp handan fjallsins og geislar hennar glitra á stöðuvatninu í botni dalsins. Fuglarnir vakna og hefja söng—flögra frá einni grein til þeirrar næstu og gæða sér á safaríkum berjum í morgunmat. Mýsnar hlaupa eftir tréhandriðinu og feykja flyksum af uppþornaðri málningu í allar áttir þegar fætur þeirra mæta snjáðu og rotnandi timbrinu. Refirnir geispa er þeir læðast rólega út úr skógarjaðrinum og inn á túnin til að hlýja sér í morgunsólinni.

Dögun — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Jaðrakan rótar í moldinni uns hann rekst á eitthvað hart. Hann notar gogginn til þess að draga hlutinn upp á yfirborðið. Mannabein. Hugsanlega hluti af fingri. Það morar allt í rotnandi leifum þessarar útdauðu skepnu.

Enginn veit með vissu hvernig útrýminguna bar að. Kenningar eru þó á hverju strái. Sumir hallast að einhvers konar sjálfsútrýmingu eða sjálfsofnæmi. Aðrir benda á náttúruhamfarir, eldgos, loftstein eða jafnvel verur frá öðrum hnöttum. Engin veit en allir þykjast vita.

Jaðrakaninn sleppir beininu og kveikir á einbeitingunni. Hann hugsar beinafundinn samviskusamlega inn í alheimssjálfið áður en hann blakar vængjunum og hefur sig til flugs.