Við ókum yfir sléttuna sunnan við brasilíska frumskóginn — bílstjóri, fararstjóri og fjórir ferðamenn. Við skimuðum í allar áttir í leit að stóra vinningnum.
„Ssss,“ sagði fararstjórinn allt í einu og benti út í fjarskann. Við hin fylgdum bendingu hans niður með ánni og yfir á bakkann hinum megin árinnar. Bílstjórinn hægði á ferðinni og ók varlega meðfram árbakkanum.
Ég mundaði myndavélina og beindi linsunni yfir ána. Jeppinn stoppaði og ég smellti af. Ég lét myndavélina síga og horfðist í augu við stóru kisulóruna — jagúarinn — sem stóð tignarleg á bakkanum hinum megin árinnar.
Ég dró andann djúpt og fann frelsistilfinningu fara um líkamann. Þetta var nákvæmlega það sem ég hafði verið með í huga þegar ég ákvað fyrir mánuði síðan að segja upp vinnunni og leita á vit ævintýranna.