Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Frelsi

Frelsi — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Við ókum yfir sléttuna sunnan við brasilíska frumskóginn — bílstjóri, fararstjóri og fjórir ferðamenn. Við skimuðum í allar áttir í leit að stóra vinningnum.

„Ssss,“ sagði fararstjórinn allt í einu og benti út í fjarskann. Við hin fylgdum bendingu hans niður með ánni og yfir á bakkann hinum megin árinnar. Bílstjórinn hægði á ferðinni og ók varlega meðfram árbakkanum.

Ég mundaði myndavélina og beindi linsunni yfir ána. Jeppinn stoppaði og ég smellti af. Ég lét myndavélina síga og horfðist í augu við stóru kisulóruna — jagúarinn — sem stóð tignarleg á bakkanum hinum megin árinnar.

Ég dró andann djúpt og fann frelsistilfinningu fara um líkamann. Þetta var nákvæmlega það sem ég hafði verið með í huga þegar ég ákvað fyrir mánuði síðan að segja upp vinnunni og leita á vit ævintýranna.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/