Jaime rann kalt vatn milli skinns og hörunds þar sem hann sat við eldhúsborðið og dreypti á morgunkaffinu áður en hann héldi til vinnu. Inn um gluggann sem snéri út að bakgarðinum flæddi kolsvart heimskautamyrkrið inn í agnarsmátt rýmið og hótaði því að kæfa daufa birtuna frá ljósinu í viftunni fyrir ofan eldavélina. Jaime leit upp frá kaffinu, til vinstri og til hægri. Auðvitað var ekki nokkur þar. Ekki frekar en fyrri daginn.
Jaime heyrði þrusk innan úr holinu og fannst sem einhver andaði ofan í hálsmálið á peysunni hans. Hann snéri sér við og horfðist í augu við ekkert annað en staðna skuggana sem virtust varanlega málaðir á umhverfið. Jaime hristi höfuðið—það var líklega bara gnauðið í vindinum og eilíft myrkrið sem var að bora sér inn í sálina.
Fyrir mánuði síðan hafði Jaime flutt til Íslands og tekið kjallaraíbúð á leigu í miðbæ Reykjavíkur. Hann hafði í fyrstu verið afar ánægður með íbúðina. Þó lítil væri, þá var hún heimilisleg og greinilega innréttuð af alúð með það fyrir augum að láta leigjendum líða vel. Eftir því sem tíminn leið þá höfðu notalegheitin smám saman horfið og Jaime byrjaði að fá það á tilfinninguna að hann væri ekki einsamall. Hann trúði hvorki á drauga né aðrar yfirnáttúrulegar verur en hann gat ekki fyrir nokkurn mun hrist af sér tilhugsunina um að hann væri í óútskýranlegri sambúð. Hann langaði að tala um þetta við leigusalann sem bjó á hæðinni fyrir ofan en hann var hræddur um að hún héldi hann væri búinn að tapa glórunni. Sem var kannski rétt. Ef til vill var hann að ganga af göflunum við það að rembast við að aðlaga sig að þessum nýstárlega, kalda og dimma útjaðri heimsins.
Jaime skellti í sig því sem eftir var af kaffinu í einum gúlsopa, fór í frakkann, smeygði sér í kuldaskóna, vafði trefil um hálsinn, setti ullarhúfu á kollinn, þræddi fingrunum í vettlinga, greip lyklana, rauk út í kaldan morguninn og keyrði leigusalann sinn næstum því um koll í hamaganginum. Hún hafði verið að moka snjó úr innkeyrslunni.
„Góðan daginn,“ sagði leigusalinn og brosti með öllu andlitinu milli frostbitinna kinnanna. „Hvernig hefurðu það? Er allt í lagi í íbúðinni?“
„Daginn… Já… Allt er í fínasta lagi. Íbúðin er snotur og hljóðleg. Og rúmið… Afar þægilegt. Ég er virkilega ánægður.“
„Það er gott að heyra. Þú lætur mig bara vita ef það er eitthvað sem þér líkar ekki við.“
Jaime hikaði eitt augnablik, tvísteig á stéttinni og horfði niður á snæviþakta kuldaskónna.
„Það er… Það er bara eitt smáatriði,“ stamaði hann að lokum.
„Láttu heyra,“ sagði leigusalinn, hallaði sér fram á við og lét þyngdina hvíla á stóru snjóskóflunni.
„Það er að segja… Ég veit að þetta hljómar eins og vitleysa… Ég meina… Þetta hlýtur að vera ímyndun í mér… Ég meina… Þetta getur ekki verið satt… Málið er… Ég hef það bara á tilfinningunni að ég sé ekki einn í íbúðinni.“
„Ó, já, það,“ svaraði leigusalinn, brosið hvarf úr andliti hennar og hún lét augun hvarfla í átt að kjallaradyrunum. „Ég fékk sjáanda til þess að líta við í kjallaranum fyrir nokkrum árum. Hún sagði mér að þar byggi fjögurra manna fjölskylda sem hafði áður búið í kofa þar sem húsið mitt stendur nú. Kofinn hafi hins vegar brunnið ásamt sínum íbúum skömmu áður en að núverandi hverfi byggðist.“
Jaime fann vöðvana stirðna, munnurinn þornaði upp og hnútur tók að myndast í maganum. Hann var ekki viss um það hvort hann ætti að hlæja eða gráta yfir því að lygilegur grunur hans hafði verið staðfestur.
„En, hafðu engar áhyggjur,“ hélt leigusalinn áfram og brosið færðist á ný yfir andlitið. „Þetta eru víst allt góðar sálir.“