Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

„Hvað er það með þig og hunda?“ spurði vinurinn þar sem við sátum úti á torgi í glimrandi sólskini og sötruðum ískaffi.

Hundur í sálinni — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Hvað meinarðu?“ spurði ég á móti þar sem ég kom gersamlega af fjöllum og hafði svo sannarlega ekki hugmynd um það hvað hann átti við.

„Beit þig hundur í æsku?“

„Nei,“ ekki svo að ég myndi eftir.

„Áttir þú ástkæran hund sem mætti örlögum sínum á óvenju tragískan hátt?“

„Nei,“ því myndi ég muna eftir ef svo hefði verið.

„Langaði þig í hund en fékkst aldrei?“

„Nei,“ en mig langaði einu sinni rosalega í hamstur.

„Hvers vegna koma þá hundar alltaf svo neikvætt fyrir í sögunum þínum?“

„Ha? Gera þeir það?“

Ég renndi huganum yfir sögurnar í smásagnasafninu sem ég hafði gefið út nokkrum vikum áður. Hundar komu jú nokkrum sinnum við sögu. Ég gat nú samt ekki séð að það hafi verið í neitt neikvæðum tón.

„Það er eins og það sé hundur í sál þinni,“ lýsti vinurinn yfir eftir smá þögn.

Þetta var undarlegasta sálgreining sem ég hafði nokkru sinni heyrt.

„Ég verð nú bara að segja eins og er að þá trúi hvorki á hunda í sálum né á sálir í hundum.“

„Sérðu! Þarna gerðir þú það aftur!“

„Hvað?“

„Æ, það skiptir engu,“ sagði vinurinn og dæsti. „Ég myndi samt láta sérfræðing líta á þetta mál við tækifæri.“