Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Aðrar útgáfur: PDF | english

Þetta var eitt af þessum atvikum þar sem að þú setur til hliðar hvað það sem nú er sem þú hefur í höndunum—í þínu tilfelli bókin sem þú hafðir nýlokið við að lesa—og gráturinn brýst fram án augljósrar ástæðu. Þú grést ekki upphátt heldur streymdu tárin í stríðum straumum niður kinnarnar og féllu niður á mánagullið í gluggakistunni þar sem þú stóðst og mændir út um opinn gluggann—stara þín límd við sjóndeildarhringinn án þess að vera að horfa á neitt ákveðið.

Kveikur — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Þú grést ekki vegna þess að aðalsögupersóna bókarinnar hafði á næst síðustu blaðsíðu mætt örlögum sínum í árekstri við tíu tonna trukk þar sem hún hjólaði heim til síns tilvonandi—þó aldrei verðandi—elskulega eiginmanns. Þú hugsaðir ekki til þeirra. Þú hugsaðir ekki til hennar. Þú hugsaðir ekki til hans.

Þú hugsaðir til hans. Hans sem hafði verið svo traustur vinur og þú hafðir elskað af heilum hug. Hans sem hafði barist svo hart við lífið, en hafði á endanum lotið í lægri hlut fyrir myrkum máttarvöldum og yfirgefið þennan heim löngu áður en hans tími var kominn.

Þú hugsaðir til hennar. Hennar sem var af þessum heimi. Hennar sem þú elskaðir svo heitt. Hennar sem var svo nálæg—en samt svo fjarri. Hennar hverrar hjarta var staðfastlega utan skotfæris þinna ástarörva.

Þú grést ekki neinar sögupersónur. Þín tár voru sönn. Tár þessa heims. Ekki blekdropar á prentuðum blaðsíðum bókar.