Ég raðaði plastmálunum upp eins og spilaborg, skar tvö göt í eitt málið með gatara, hnýtti saman nokkrar gúmmí teygjur, þræddi þær í gegnum götin og kom málinu fyrir á höfðinu eins og kúrekahatti. Ég leit í spegilinn, blikkaði, skaut mína eigin spegilmynd með vísifingri og blés á reykinn. Ég var ógurlega svalur.
Ég greip afganginn af teygjunum, steig fimm skref afturábak frá skrifborðinu og hófst handa við að skjóta teygjunum í plastmálin. Ég naut þess í botn að hafa mína eigin skrifstofu til umráða. Það var svakalega gaman að geta lokað dyrunum og fíflast þegar enginn sá til.
Ég hafði skotið næstum öll plastmálin niður af borðinu þegar leikurinn var truflaður af suði í innanhússímanum.
„Já!“ svaraði ég höstugum rómi sem ég beiti alltaf þegar ég vil ekki láta trufla mig.
„Herra Forsætisráðherra,“ glumdi í innanhússímanum. „Forsetinn er í símanum. Hún segir að hún eigi við þig áríðandi erindi.“
„Er það nú svo?“ andvarpaði ég mæðulega og hugsaði mig um eitt andartak. „Allt í lagi — gefðu henni samband.“