Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Matti Bergs

Aðrar útgáfur: PDF | english

„Hvernig fannst þér hún?“ spurði vinnufélaginn þegar ég rétti honum skáldsöguna sem ég hafði fengið lánaða hjá honum.

Matti Bergs — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Bara mjög góð,“ svaraði ég og var ekkert að ýkja. Mér hafði fundist bókin þrælgóð.

„Var það ekki!“

„Jú, mér fannst persónusköpunin einstaklega vel heppnuð. Þær voru eitthvað svo lifandi—persónurnar. Svo trúverðuglegar. Eins og maður þekkti þær raunverulega.“

„Já, einmitt. Það fannst mér líka.“

„Sérstaklega þótti mér Matti Bergs karakterinn eitthvað svo lifandi og sannfærandi.“

„Matti Bergs?“

„Já, félagsfræðingurinn.“

Vinnufélaginn hváði.

„Framagosinn,“ hélt ég áfram. „Gaurinn sem þótti svo efnilegur og góður en var svo bara hrokafullur, innantómur og sjálfselskandi hálfviti.“

„Já, hann. Þú meinar Óli Jóns?“

„Óli Jóns? Hét hann það?“

„Já, hiklaust,“ sagði vinnufélaginn, viss í sinni sök. „Hvernig gastu mislesið nafnið svona rækilega?“

„Ekki hugmynd,“ svaraði ég, yppti öxlum, leit annars hugar út um gluggann og sá fyrir mér glottandi andlit Mattíasar Bergsteinssonar. Matta Bergs, sem hafði svo oft gert tilraunir til að niðurlægja mig í menntaskóla allnokkrum áratugum áður. Reynt að fá mitt ágæti dregið í efa. Reynt að hefja upp sín verk með því að kasta rýrð á mín.

Þarna sá ég hann ljóslifandi fyrir mér. Ég sem hafði næstum gleymt hans tilvist.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/