Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Smásögur

Ólán

– Halló. Ég heiti Ferdinand. Við verðum víst herbergisfélagar. Hvað varð til þess að þú komst hingað?

° Þetta byrjaði allt með símtali frá stóra Jóni.

– Stóra Jóni!! Milljarðamæringnum, mafíuleiðtoganum og styttusafnaranum?

° Já. Hann hringdi í mig og bað mig um að vinna smá verk fyrir sig. Ég átti að stela styttu. Ég var blankur og vantaði því peninga sárlega. Þetta verk var vel borgað og ég sló því til. Ég flaug til New York, skráði mig inn á hótel og byrjaði að undirbúa ránið. Þegar borgin var sofnuð læddist ég út. Ég var ekkert að slóra heldur gekk rakleiðis upp að henni, styttu frelsisins. Ég tók skiptilykil upp úr vasanum, losaði styttuna, setti hana ofan í ferðatösku sem ég hafði meðferðis, fór heim á hótel og sofnaði. Morguninn eftir fór ég að undirbúa heimferð. Ég huldi styttuna í töskunni með kókaíni og lokaði vandlega. Ég tók leigubíl út á flugvöll. Ég komst léttilega í gegnum öryggisgæsluna á flugvellinum. Þurfti einungis að borga tólf dollara í yfirvigt. Á meðan ég beið eftir brottförinni keypti ég mér samloku með skinku og osti. Þegar ég hins vegar hugðist snæða lokuna þá var kallað út í flugvél svo að ég stakk brauðinu í vasann svo að ég gæti borðað það seinna. Flugferðin heim gekk vel. Þegar kom að tollinum þá byrjaði ballið. Daglega eru nokkrir einstaklingar valdir af handahófi og farangur þeirra grandskoðaður. Ég lenti í þeim hópi. Það var gramsað í töskunni minni en ekkert fannst nema Frelsisstyttan og kókaínið. Mér var því leyft að fara. Þegar ég var á leiðinni út um dyrnar var ég kallaður til baka. Það hafði gleymst að leita í fötum mínum. Tollararnir þukluðu á mér og fundu auðvitað skinkusamlokuna sem ég hafði gleymt að borða. Nú er ég hér með lífstíðardóm á bakinu fyrir ólöglegan innflutning á erlendu kjöti.

– Vá. Þú ert sko ólukkunar pamfíll.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/