Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

„Gætirðu skýrt það út fyrir mér hvernig þetta box af Ferrero Rocher endaði í vasanum hjá þér?“ hreytti öryggisvörðurinn í mig þar sem ég sat hreyfingarlaus með hendur í skauti á óþægilegum stólkolli í horni skrifstofunnar sem hann hafði til umráða. Rödd hans var hálf-kæfð vegna núningsins sem hljóðbylgjurnar áttu í mesta basli við að sigrast á á ferðalagi sínu í gegnum þykkt efnið í hágæða andlitsgrímunni sem huldi neðrihluta andlits hans og dró vafalítið úr þeim dramatísku áhrifum sem hann hafði haft í huga með ræðu sinni—ekki ósvipað þeim hljóðdeyfingar áhrifum sem fiðurkoddi hefur á byssuskot eins og við sjáum svo oft í kvikmyndunum. „Áttar þú þig á því að búðarhnupl er ekki einungis glæpur gegn þessu ágæta fyrirtæki? Svo sannarlega ekki. Það er glæpur gegn samfélaginu í heild sinni. Það er árás á grunngildi þjóðfélags okkar. Traust. Það er fólk eins og þú sem eyðir traustinu sem ríkir einstaklinga á milli í þessum heimi.“

Ég leit upp til hans og yppti öxlum án þess að svara honum upphátt. Ég hafði engu að bæta við hans heimspekilegu greiningu á mannkyninu og samskiptum þess í milli. Það hafði ekkert upp á sig. Hann myndi hvort sem er ekki skilja mig. Þeir gerðu það aldrei, hans manngerðir. Eða hvaða manngerð sem er, ef út í það var farið. Hann myndi ekki skilja að frá mínum sjónarhóli séð—frá mínu heimspekilega vinkli, ef hann kysi að halda samræðunni á svo háu stigi—þá var gjörðum mínum alls ekki beint gegn samfélaginu. Þvert á móti. Þær voru augljóslega mótaðar af téðu samfélagi. Það var ekki ég sem var að brjóta niður samfélagssáttmálann. Það var samfélagssáttmálinn sem var að brjóta mig niður—þröngva mér út í horn.

Hefði samfélagið ekki krafist þess að ég setti upp andlitsgrímu áður en ég gengi inn í stórmarkaðinn þá hefði ekki skotið niður í kolli mér þeirri dæmigerðu bíómyndasenu þar sem bankaræningi setur á sig lambhúshettu áður en hann fer inn í bankann. Og þegar orsök lætur á sér kræla þá er afleiðing sjaldnast langt undan. Málið er að atburðarásin í held sinni var aldrei undir minni stjórn. Það var samfélagið og þess sáttmáli sem fékk mig til þess að líða eins og bankaræningja. Þegar samfélagið fær mig til að líða eins og bankaræningja þá fær það mig til þess að langa að ræna banka. Og ef ekki banka, þá allavegana konfektkassa. Flóknara var það nú ekki.