Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Tannþráður

Ég gat ekki annað sagt en að aldrei þessu vant þá hlakkaði ég til þess að fara til tannlæknis. Í gegnum árin þá hafði tilfinning mín einatt verið önnur. Ég hafði frekar kviðið þeirra heimsókna heldur en hlakkað til. Það sem helst olli þeim kvíða var samtalið um tannþráðinn. Það er að segja þeim tímapunkti í tannlæknisheimsókninni þar sem tannlæknirinn spurði „En hvernig er það nú, notar þú tannþráð daglega?“ Ég neyddist alltaf til þess að kyngja skömminni og viðurkenna að ég væri óreglumaður þegar kæmi að notkun tannþráðs. Ég gæti ómögulega komið mér upp þeim vana að troða þræði reglulega á milli tannanna í mér.

Tannþráður — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Nú var hins vegar allt annað upp á teningnum. Í heilt ár—367 daga í raun—þá hafði ekki liðið sá dagur sem ég hafði sleppt því að renna tannþræði á milli tannanna minna. Ég var óendanlega stoltur af sjálfum mér og fullur sjálfstrausts til þess að mæta tannlækninum án þess að þurfa að yfirgefa stofuna hans með skottið á milli lappanna.

„Jæja,“ sagði tannlæknirinn þegar hann hafði lokið skoðun sinni. „Þetta lítur allt frekar heillega út.“

Ég brosti út að eyrum. Þetta var góðs viti.

„En hvernig er það nú,“ hélt tannlæknirinn áfram og ég iðaði í skinninu að geta loks svarað játandi spurningunni sem ég taldi mig vita að kæmi næst. „Drekkur þú ekki aðeins of mikið kaffi? Þær eru ansi skellóttar í þér tennurnar.“

Brosið hvarf af vörum mínum og ég var við það hreyta út úr mér „En ég nota tannþráð daglega.“ Það yrði hins vegar til lítils. Það virtist aldrei hægt að gera þessum blessuðu tannlæknum til geðs.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/