Kæra dagbók!
Kæri ég!
Til þeirra sem málið varðar eða varðar alls ekki.
Varð hugsað til Jo í morgun. Fésbókin sagði að hann ætti afmæli. Fannst því tilvalið að senda honum línu. Við höfum alveg misst niður sambandið eftir að við héldum hvor í sína áttina eftir námsárin í Berlín. Við sem náðum svo vel saman á þeim tíma. Sambandið var eitthvað svo áreynslulaust. Það var eins og það væri meitlað í stein af einhvers konar almætti og við þurftum bara að slaka á og fylgjast með því þróast og dafna.
Jo sendir mér afmælisóskir á hverju ári. Ég sendi honum aldrei hamingjuóskir á hans afmæli. Ekki frekar en öðru fólki sem ég hef kynnst í gegnum tíðina. Hvað veldur?
Stundum langar mig að heyra frá fólki en fæ mig samt aldrei til að skrifa þeim að fyrra bragði. Hvað myndi fólk hugsa ef það fengi allt í einu skilaboð frá mér? Hvers vegna er þessi gaur að senda mér eitthvað núna? Eftir öll þessi þöglu ár? Hann sem skrifar annars aldrei. Þyrfti ég ekki að skýra það eitthvað af hverju ég skrifaði núna en ekki áður? Myndu skrifin svo ekki setja einhvers konar móralska pressu á mig til að halda uppi reglulegum skrifum? Pressu sem ég efaðist stórlega um að ég gæti staðið undir til lengri tíma litið.
Ákvað að senda Jo hamingjuóskir þetta árið. Mig langaði virkilega að heyra frá honum. Hvernig sem það myndi líta út. Hvað sem hann myndi hugsa.
Það var ekki auðvelt. Það er vægast sagt óstöðugt efnahagsástandið í hans heimshluta þessa dagana. Myndi honum finnast það ósmekklegt ef ég minntist eitthvað á það í bland við hamingjuóskirnar? Myndi honum finnast það dæmi um fáfræði af minni hálfu eða skort á samkennd ef ég minntist ekkert á ástandið?
Hvað með fréttir af mér? Ætti ég að tína til einhverja mola? Hann hefur nánast ekkert heyrt frá mér í hvað, þrjú, fjögur, fimm ár. Tíminn flýgur. Í hvað hefur hann farið? Hvaða fréttir ætti ég svo sem að segja? Þær nýjustu? Merkustu? Er eitthvað í mínu lífi sem gæti talist í frásögur færandi? Hefði hann yfir höfuð einhvern áhuga á að vita hvað væri af mér að frétta? Væri ég ekki bara að eyða nokkrum dýrmætum mínútum úr hans degi—mínútum sem hann gæti betur notað til þess að halda upp á afmælið sitt?
Á endanum skrifaði ég honum bara einfaldar hamingjuóskir. Ekkert meira. Bara til hamingju með daginn. Búið.
Nú er klukkan að nálgast miðnætti. Það eru sjö tímar síðan ég sendi kveðjuna. Hann er ekki búinn að svara. Hann er ekki einu sinni búinn að kíkja á skilaboðin.
Eitthvað virðist þetta nú hafa misfarist hjá mér. Eins og vanalega.