Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Til morguns

Til morguns — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég legg aftur augun og dreg andann djúpt í gegnum munninn. Nefið er stíflað af kvefi. Ég finn fyrir þyngslum í brjóstinu og bólgu í kokinu. Loftið fer illa í lungun og ég hósta. Ég finn þyngslin flæða upp í höfuðið og veit að sótthitinn er ekki liðinn hjá. Flensan er enn til staðar.

Það góða er að ég veit hvernig ég get læknað mig. Ég þekki töframixtúruna—og hún er ekki flókin. Það eina sem ég þarf að gera er að sofa. Hvíla mig. Gefa líkamanum það svigrúm sem hann þarf til þess að vinna sig í gegnum þessa flensu á sinn náttúrulega máta.

★ ★ ★ ★ ★

Ég opna augun og lít á klukkuna. Það er ennþá tiltölulega snemma kvölds. Gott. Það er von. Ég sný mér á hliðina, dreg að mér fæturna og hringa mig í fósturstellingu.

Núna þarf ég bara að nýta tækifærið til þess að snúa taflinu við. Hamra á rétta hugarfarinu. Ekki endurtaka það sem ég hef gert undanfarna dagana. Ekki vakna með samviskubit yfir því að hafa ekki komið í verk því sem ég ætlaði að gera í vikunni. Ekki gráta tapaðar vinnustundir. Ekki örvænta þó öll plön mín hafi riðlast. Nú þarf ég að sofna til þess að ná þessum skít úr mér. Til þess að ná aftur tökum á tilverunni. Þess vegna fór ég snemma í háttinn. Til þess að sofna. Til þess að batna. Koma svo. Ég get þetta.

★ ★ ★ ★ ★

Ég bylti mér á bakið. Þyngslin í höfðinu leka aftur í hnakkann. Ég sný mér á hliðina. Þyngslin renna fram í ennið. Það er sama hvernig ég bylti mér. Ég finni ekki afslappandi stöðu. Þyngslin í höfðinu magnast. Hnúturinn í maganum herpist.

Ef ég sofna ekki strax þá mun morgundagurinn verða alveg eins eyðilagður og hinir þrír dagarnir sem ég hef sólundað í veikindi þessa vikuna. Ég mun vakna klukkan níu, lítt sofinn og fullur samviskubits. Ég mun drösla mér á fætur og reyna að koma einhverju í verk til þess að dragast ekki enn frekar aftur úr mínum plönum. Ég mun telja mér trú um að ég sé nógu hress til að vinna. Ekki nógu slappur til þess að hanga uppi í rúmi. Bara vegna þess að ég vil ekki viðurkenna að ég er ekki nógu hress. Ég mun þó koma litlu í verk þar sem höfuðið verður þungt og augnlokin enn þyngri. Eftir því sem líður á daginn mun mér einungis takast að auka enn á veikindin án þess að komast nokkuð nær markmiðum vikunnar.

Nema kannski að mér tækist að sofna fljótt. Ekki örvænta. Bara sofna.

★ ★ ★ ★ ★

Ég opna augun og lít á vekjaraklukkuna. Núll, núll, núll. Miðnætti. Ég læt höfuðið falla aftur á koddann.

Ég er ekki að höndla þetta. Ég verð að fara að sofna. Ég er glaðvakandi. Ég þarf að hætta að hafa áhyggjur af því að ná ekki fljótt bata. Kvíðinn hefur tekið yfirhöndina. Ég þarf að nota nóttina til þess að slaka á og hvíla líkamann. Ég finn alla vöðva spennta.

★ ★ ★ ★ ★

Ég rís upp við dogg, teygi mig í pappír og snýti mér. Það er alltaf sama sagan. Ég segi við sjálfan mig að næst muni ég haga mér öðruvísi. Ég muni slaka á og leyfa mér að vera veikur. Ég muni leyfa mér að sofa. Ég muni leyfa líkamanum að vinna sig í gegnum sýkinguna fljótt og örugglega—á sínum tíma. Þegar á hólminn kemur þá leyfi ég mér hins vegar aldrei að vera veikur. Ég þræla mér áfram án þess að koma nokkru almennilega í verk. Leyfi mér ekki að sofa daglangt. Leyfi mér ekki að batna.

★ ★ ★ ★ ★

Ég kasta af mér sænginni, sest upp og gríp um höfuðið. Ég höndla ekki þessa flensu lengur. Það er svo sorglegt að ég veit hvernig ég get læknað mig. Ég þarf bara að sofa.

Nú er hugsunin komin í enn einn hringinn án þess að komast að nokkru nýju sem ég vissi ekki fyrir. Það eina sem hefur þokast áfram er tíminn á ferðalagi sínu frá upphafi til endaloka. Klukkan er farin að ganga tvö. Ég er enn ekki sofnaður. Það er ekki að fara að gerast. Ég er ekki að fara að sofna í bráð. Ég er ekki að fara að vakna ferskur í fyrramálið. Öll vikan er farin í súginn.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/