Pierre bylti sér í rúminu. Hann gat ekki sofið. Hann var of stressaður. Hann hafði unnið of mikið undanfarið. Hann átti alltaf í vandræðum með svefn þegar mikið var að gera í vinnunni.
Natasha bylti sér í rúminu. Hún svaf. Hún hafði unnið mikið undanfarið. Hún átti alltaf auðvelt með svefn þegar mikið var að gera í vinnunni. Hún svaf mikið en hafði undarlegar draumfarir.
Pierre gafst upp á að reyna að sofna. Hann fór fram úr rúminu og klæddi sig. Það hafði ekkert upp á sig að liggja uppi í rúmi þar sem að það var ljóst að hann myndi ekki geta sofið næstu klukkutímana. Hann ákvað að fá sér göngutúr.
Natasha var stödd í stóru björtu herbergi í gamla heimalandi sínu. Hún var önnum kafin við að strauja skyrtur fyrir tzarinn. Gular, appelsínugular og fjólubláar Hawaii skyrtur með pálmatrjám og sólarströndum. Tzarinn var á leiðinni á brimbrettamót. Þetta var greinilega einn af þessum undarlegu draumum. Skyrturnar voru sléttar. Hún gat ekki sagt draumfarir sínar jafn sléttar.
Pierre lokaði dyrunum varlega að baki sér. Hann vildi ekki trufla næturkyrrðina. Hann gekk eftir hljóðlátri götunni, yfir torgið og niður eftir Carrer de Torrijos. Hann naut næturinnar. Hann naut kyrrðarinnar. Hann var ekki mikill náttúruunnandi og fór því sjaldan út fyrir borgina í leit að kyrrð og ró. Þegar hann vildi fá hvíld frá ys borgarinnar leitaði hann heldur í rólegri hluta borgarinnar — í tíma eða rúmi.
Natasha hafði lokið við að strauja skyrtur fyrir tzarinn. Hún hafði yfirgefið Rússlandið sitt og var komin til baka til Barcelona. Hún sat á baki villigaltar og þeystist um auðar götur borgarinnar. Hún ríghélt sér í hálsól galtarins til þess að forðast það að detta af baki. Þau fóru hratt yfir — hún og gölturinn. Þau geystust eftir Travesera de Gràcia, framhjá markaðnum og beygðu síðan til vinstri upp Carrer de Torrijos.
Pierre varð bylt við þegar heyrði skarkala neðar í götunni. Af hljóðinu af dæma var eins og kúahjörð væri á ferð. Hann pírði augun. Kúahjörðina sá hann enga. Honum virtist um vera að ræða knapa sem hentist um á baki einhvers konar dýrs. Hann færði sig úr vegi dýrsins og faldi sig í skúmaskoti.
Natasha og villigölturinn geystust áfram upp Carrer de Torrijos. Hún átti í mestu erfiðleikum með að halda sér á baki. Þau fóru of hratt yfir. Allt í einu varð hún var við hreyfinugu út undan sér. Það var mannvera sem faldi sig í skúmaskoti við einn stigaganginn. Var þetta Pierre? Hún mundi ekki til þess að hafa séð hann áður í draumum sínum. Henni datt í hug að vinka til hans en þorði ekki að taka hönd af hálsól villigaltarins. Hún var hrædd um að detta af baki. Það var hvort sem er of seint núna. Hún var komin langt framhjá Pierre. Hún var á sundi meðal marglitaðra fiska í Kyrrahafinu.
Pierre trúði varla sínum eigin augum. Hafði hann séð ofsjónir? Hafði það verið Natasha sem geystist upp götuna á baki villigaltarins? Var hann að dreyma? Hann kleip sig í handlegginn. Hann fann til. Hann var vakandi. Hann var vakandi en það sótti á hann þreyta. Hann ákvað því að snúa til baka heim. Þegar heim var komið fór hann beinustu leið í bólið og steinsofnaði.
Natasha synti meðal marglituðu fiskanna í Kyrrahafinu. Sumir fiskanna voru gulir. Sumir voru appelsínugulir. Sumir voru fjólubláir. Þeir minntu hana á skyrtur tzarsins sem hún hafði straujað fyrr í drauminum. Hún virti fiskana betur fyrir sér. Þeir báru allir höfuð tzarsins.
Pierre vaknaði af værum blundi. Hann undraði sig á því hvers vegna hann var kappklæddur. Smám saman rifjuðust upp fyrir honum atburðir næturinnar. Hann minntist andvökunnar. Hann minntist göngutúrsins. Hann minntist þess að hafa séð Natöshu geysast um á villigelti. Hann var ringlaður.
Natasha vanknaði af værum blundi. Hvílíkur draumur. Hún minntist þess að hafa straujað skyrtur fyrir tzarinn. Hún minntist þess að hafa farið geyst á gelti. Hún minntist þess að hafa séð Pierre fela sig í skúmaskoti. Hún minntist fiskanna í Kyrrahafinu. Allt var svo óraunverulegt. Nema Pierre. Hann var raunverulegur.
Pierre valdi númer Natöshu. Hann hringdi. Hún svaraði.
,,Hvert er málið með göltinn?'' spurði Pierre.
,,Ha, já, þetta með göltinn,'' svaraði Natasha vandræðalega. ,,Það var nú eiginlega bara svona draumur, sko.''
,,Já en ég kleip mig í handlegginn,'' sagði Pierre og virtist ringlaður. ,,Það var sárt. Ég var vakandi.''
,,Æ, þú þarna vitleysingurinn þinn,'' sagði Natasha og hló lágt. ,,Auðvitað var það sárt. Auðvitað varstu vakandi. Þetta var minn draumur. Ekki þinn.''
,,Ha, nú, þannig,'' sagði Pierre og virtist enn ringlaður. ,,Það skýrir ýmislegt. Eða svoleiðis.''
,,Til í kaffi?'' spurði Natasha.
,,Endilega,'' svaraði Pierre því honum fannst hann þurfa á kaffisopa að halda.