„Þetta hótel er svona eins og upplifun,“ sagði Davíð, glaðvakandi, starandi upp í dimmt tómið yfir rúminu.
„Einmitt,“ muldraði Karen, einhvers staðar frá afslappaða einskinsmannslandinu milli svefns og vöku.
„Ég meina, ég held ég hafi aldrei sofið svona hátt uppi. Níunda hæð. Þetta er svolítið svakalegt. Níu hæðir.“
„Akkúrat, svakalegt.“
„Er það ekki svolítið rosalegt að þú getir fundið fyrir hæðinni, jafnvel þótt þú sért ekki að horfa út um gluggann? Maður getur bara fundið fyrir henni. Hún er í líkamanum, beinunum, iðrunum. Þessi hæðatilfinning. Hún er bara þarna til staðar.“
„Rosalegt.“
„Ég meina, hvert er málið? Hvað veldur því að við finnum svona fyrir hæðinni? Er það af því að við vitum að við erum hátt uppi og höfum séð útsýnið? Og svo málar hugurinn þessa mynd aftan á augnlokin? Eða er það þyngdaraflið? Af því að það er svo sterkt hérna uppi? Eða af því að það er svo veikt? Ég skil hreinlega ekki hvað er í gangi. Svo gæti það líka verið hljóð. Ég meina, þú heyrir hljóðið koma að neðan. Djúpt að neðan. Hljóðbylgjurnar lenda á hljóðhimnunum undir afar hvössu horni og þess vegna veit líkaminn að hljóðið hafi borist langt að neðan. Eða eitthvað svoleiðis. Gæti líka verið blanda af þessu öllu. Ég veit ekki einu sinni hvort þetta er hugrænt eða líkamlegt fyrirbrigði. Eða eitthvað stórkostlegt sálar-líkama-blandaðs-veruleika-dæmi.”
„Aha,“ muldraði Karen. „Getum við rætt þetta á morgun? Ég er svolítið þreytt.“
„Ekkert mál,“ sagði Davíð, tregur til þess að láta málið niður falla og hélt vangaveltunum áfram í huganum, einbeitti sér enn frekar að skynjuninni, skynjaði hæðina, skynjaði þyngdaraflið, varð fyrir sterkum hughrifum, hlustaði á hljóðin berast langt að neðan, fann hvernig þau lentu á hljóðhimnunni undir ókunnuglegu horni, töfrandi hvössu horni, hann hlustaði á hljóðin sem héldu honum vakandi, spenntum, áreittum, hljóðin sem hvöttu hann til að halda áfram að hugsa, hugsa í hringi, um dásemdir hæðarinnar, krafta þyngdaraflsins, undur hornafræðinnar, heillandi heim sálfræðinnar, fegurð eðlisfræðinnar, og mátt þyngdaraflsins á ný, alltaf í hringi, þangað til á endanum, eftir miðnætti, að hann fann augnlokin þyngjast, og hann sofnaði, einungis til þess að vakna nokkrum stundum síðar, á níundu hæð, án þess að skynja neitt sérstakt, hann bara vaknaði eins og í hverju öðru eintóna hótelherbergi.