Ég gekk inn í anddyrið og teymdi hjólið við hlið mér inn ganginn. Er ég nálgaðist dyrnar að íbúðinni minni sá ég að það biðu mín skilaboð milli stafs og hurðar. Ég hugsaði með mér að líklega væri þetta einhvers konar fjölpóstur.
„Missti svartar nærbuxur niður á veröndina þína. Kveðja, nágranninn í 5o-3a.“
Ég teymdi hjólið þvert yfir forstofuna og kom því fyrir á sínum stað úti á veröndinni. Á bakaleiðinni inn í íbúðina tók ég upp svartar kvenmannsnærbuxur sem lágu á veröndinni. Samkvæmt miðanum höfðu þær fallið af þvottasnúru nágrannans í íbúð þrjú á fimmtu hæð.
Þegar ég beið eftir því að lyftan kæmi niður á jarðhæðina rann það upp fyrir mér að þetta var í fyrsta sinn sem ég notaði hana. Á því ári sem ég hafði búið hér í Barcelona hafði ég aldrei átt erindi við nágranna mína á efri hæðum hússins. Ég þekkti þá ekki. Ég kannaðist við suma í sjón, bauð þeim góðan daginn ef ég hitti þá í anddyrinu, en þekkti engan með nafni. Ég hafði gefið sumum einkennisnöfn til þess að skilja á milli þeirra í huganum. Þar voru hjónin sem minntu mig á systkin, gamli maðurinn með stafinn, konan sem spurði mig alltaf hvort ég hefði verið að heiman því hún hefði ekki séð mig lengi, gömlu hjónin með barnabörnin, og svo framvegis. Ég skammaðist mín hálfpartinn fyrir að þekkja þau einungis af þessum lýsingarorðum.
Ég steig út úr lyftunni á fimmtu hæð og hringdi bjöllunni á 5o-3a. Dyrnar opnuðust ekki en fyrir innan gelti hundur af miklum ákafa. Hugsanlega var hann að segja mér að koma seinna. Hugsanlega var hann að segja mér að halda mig í hæfilegri fjarlægð til frambúðar. Hvað vissi ég um hundamál?
Ég var við það að halda til baka niður þegar dyrnar á 5o-2a opnuðust. Gömul kona með skakka hárkollu gekk út á stigapallinn og fast á hæla henni fylgdi aðeins yngri kona á náttslopp. Ég kannaðist við báðar konurnar en átti engin nöfn yfir þær. Gömlu konuna með skökku hárkolluna kannaðist ég við sem gömlu konuna með skökku hárkolluna. Aðeins yngri konuna á náttsloppnum kannaðist ég við að hafa séð áður en minntist þess ekki að hafa nælt á hana nokkrum lýsingarorðum.
„Halló stráksi!“ sagði gamla konan með skökku hárkolluna og sneri sér að aðeins yngri konunni á náttsloppnum. „Þetta er strákurinn sem missti vínflöskuna á gólfið í lyftunni.“
„Nei,“ svaraði aðeins yngri konan á náttslopnum. „Þetta er ungi maðurinn á hjólinu.“
„Ungi maðurinn á hjólinu?“ Gamla konan með skökku hárkolluna virtist ekki vera alveg með á nótunum.
„Já, ungi maðurinn á hjólinu,“ endurtók aðeins yngri konan á náttsloppnum. „Strákurinn á jarðhæðinni. Útlendingurinn með hökutoppinn.“
„Ah, já. Ungi maðurinn á hjólinu!“ Gamla konan með skökku hárkolluna virtist vera búin að kveikja á perunni. „Ég hélt þetta væri strákurinn sem missti vínflöskuna á gólfið í lyftunni. Ég sé það núna. Þetta er ungi maðurinn á hjólinu.“
Ég kinkaði kolli og brosti vandræðalega. Ég gat gengist við því að líklega væri ég ungi maðurinn á hjólinu. Ég var í sjálfu sér ekkert gamall og ferðaðist jafnan um á hjóli. Þar að auki var ég útlendingur með hökutopp og bjó á jarðhæðinni.
Eftir að búið var að bera kennsl á mig tók við þögn á stigapallinum. Konurnar horfðu á mig spyrjandi augum. Ég tók það sem vísbendingu um að líklega væri komið að mér að gera grein fyrir ferðum mínum hér á efri hæðum hússins.
„Ég kom bara til þess að skila nærbuxum til konunnar á 5o-3a,“ sagði ég og lyfti nærbuxunum upp svo að konurnar gætu séð þær.
Um leið og ég hafði sleppt orðunum áttaði ég mig á því að ég hafði ekki gert góða grein fyrir veru minni hérna. Hún gæti misskilist. Ég fann roðann flæða út í kinnarnar. Þögnin ríkti á ný á stigapallinum. Líklegast biðu konurnar þess að ég skýrði mál mitt nánar. Að minnsta kosti var mér í mun að skýra mál mitt nánar. Ég vildi halda í það að vera þekktur sem ungi maðurinn á hjólinu fremur en að fá á mig önnur misskilin lýsingarorð.
„Eh, ég meina. Eh. Nærbuxurnar féllu af snúrunni,“ stamaði ég. „Ég fann þær á veröndinni minni.“
„Það er dökkhærða konan með hundinn,“ sagði aðeins yngri konan á náttsloppnum og beindi orðum sínum til gömlu konunnar með skökku hárkolluna.
„Ha?“ hváði gamla konan með skökku hárkolluna.
„Það er dökkhærða konan með hundinn sem á nærbuxurnar,“ skýrði aðeins yngri konan á náttsloppnum út fyrir gömlu konunni með skökku hárkolluna.
„Nú?“ Gamla konan með skökku hárkolluna var enn ekki alveg með á nótunum.
„Já, dökkhærða konan með hundinn missti nærbuxurnar þegar hún var að hengja út þvottinn og þær lentu á veröndinni hjá unga manninum á hjólinu.“
Gamla konan með skökku hárkolluna kinkaði kolli. Hún virtist vera búin að átta sig á stöðu mála. Ég var feginn að vera mín hér á stigapallinum var komin á hreint. Ég hugðist því kveðja og halda áfram ferð minni til baka niður á jarðhæðina. Ég kvaddi og veifaði konunum — hugsanlega heldur óheppilega með þeirri höndinni sem hélt á nærbuxunum.
„Láttu mig bara hafa þær,“ sagði aðeins yngri konan á náttsloppnum og greip nærbuxurnar úr hendi mér. „Ég skila þeim til dökkhærðu konunnar með hundinn.“
Ég tvísté á stigapallinum og vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við. Ég hefði kosið að koma þvottinum milliliðalaust í hendurnar á réttum eiganda. Mér fannst heldur vandræðalegt að vera að skiptast á annarra manna nærfötum við nágrannana. Ég kunni hins vegar ekki við það að biðja um nærbuxurnar til baka. Ég gat því ekki annað en þakkað fyrir mig og haldið niður á ný. Aðeins yngri konan á náttsloppnum myndi örugglega koma þvottinum til skila til dökkhærðu konunnar með hundinn.
*****
Ég hrökk upp við það að dyrabjallan glumdi. Ég stóð upp úr sófanum og slökkti á sjónvarpinu. Ég hafði sofnað út frá fréttunum. Ég opnaði dyrnar. Fyrir utan stóð dökkhærð kona með hund í bandi.
„Góða kvöldið. Ég er nágranni þinn í 5o-3a,“ sagði dökkhærða konan með hundinn.
„Aha“, svaraði ég og hugsaði með mér að þetta væri að öllum líkindum dökkhærða konan með hundinn.
„Ég missti þvott niður á veröndina þína.“
Ég hikaði við það að svara. Ég var ekki viss hvernig ég ætti að koma orðum að því að ég væri ekki lengur með þvottinn í mínum fórum.
„Ha, já, sko,“ stamaði ég að lokum „Ég er sko eiginlega ekki með hann lengur.“
„Ha?“ Dökkhærðu konunni með hundinn virtist brugðið.
„Konan á 5o-2a er með hann,“ svaraði ég og fann roða færast í andlitið. Af hverju þurfti aðeins yngri konan á náttsloppnum endilega að taka þvottinn í sína vörslu? Það gerði mál mitt heldur vandræðalegt.
„Ha?“
Mér var ljóst að þetta hljómaði allt heldur undarlega. Ég vissi hins vegar ekki hvernig ég ætti að skýra þetta betur. Ég vissi engin frekari deili á konunni í 5o-2a til þess að skýra nánar frá því hver væri með þvottinn í sínum fórum.
„Konan á náttsloppnum?“
Já einmitt! Dökkhærða konan með hundinn leysti málið fyrir mig. Það var einmitt konan á náttsloppnum sem var með þvottinn í sínum höndum.
„Já, einmitt!“ svaraði ég og var feginn að málið var farið að skýrast.
„Hvers vegna er konan á náttsloppnum með nærbuxurnar mínar?“
Ég gat ekki annað en viðurkennt að þetta var afar góð spurning. Málið var kannski ekki eins nálægt því að skýrast og ég hafði haldið. Ég þurfti að skýra það nánar.
„Hún tók þær,“ var það eina sem mér datt í hug að segja.
„Hún tók þær?“ svaraði dökkhærða konan með hundinn.
„Eh, já. Hún tók þær.“ Mér datt ekkert í hug til þess að skýra þetta nánar.
„Af veröndinni?“ spurði dökkhærða konan með hundinn undrandi.
„Nei. Úr höndunum á mér.“
„Hvað voru nærbuxurnar mínar að gera í höndunum á þér fyrir framan konuna á náttsloppnum?“ spurði dökkhærða konan með hundinn. Undrunin virtist vera að víkja fyrir reiði. Málið var að flækjast um of. Ég varð að reyna að skýra þetta betur.
„Ég fór með þær upp. Þú varst ekki heima. Hún kom hins vegar út og tók þær af mér.“
Ég var nokkuð ánægður með það hvernig ég náði að loksins að orða það sem hafði gerst. Þetta var kannski ekki svo fókið eftir allt saman.
„En hún er skrýtin!“
Ég átti ekkert svar við þessu. Ég gat hvorki neitað né játað. Ég þekkti ekki nægilega vel til konunnar á náttsloppnum. Ég hafði einungis hitt hana í eitt sinn. Það er að segja sem konuna á náttsloppnum.
„Af hverju er konan á náttsloppnum með nærbuxurnar mínar?“ spurði dökkhærða konan með hundinn og virtist vera að tala við sjálfa sig. „Af hverju hún? Hún er skrýtin! Jafn skrýtin og gamla konan með skökku hárkolluna. Hún hefur þó afsökun. Hún er mjög gömul.“
Hvað gat ég sagt? Ekkert. Ég stóð og hlustaði á dökkhærðu konuna með hundinn tala við sjálfa sig. Reiðin virtist hafa vikið fyrir depurð. Hún þagði og horfði niður fyrir sig eins og hún væri að tala við hundinn í hljóði. Ég þagði.
„Ójæja. Það nær þá ekki lengra,“ sagði hún loks og leit upp frá hundinum og á mig.
Ég yppti öxlum. Það næði þá ekki lengra. Dökkhærða konan með hundinn kvaddi og kallaði á lyftuna. Ég kvaddi sömuleiðis og lagði hurðina að stöfum. Á leiðinni til baka yfir að sófanum gekk ég framhjá speglinum. Ég staðnæmdist og horfði á eigin spegilmynd og sagði við sjálfan mig: „Svo þú ert ungi maðurinn á hjólinu.“