Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Smásögur

Myrkrið

Myrkrið — Myndskreyting Yana Volkovich
Myndskreyting Yana Volkovich

„Vissir þú að sumt sést betur í myrkri en birtu?“ spurðir þú er við gengum saman í haustmyrkrinu eftir óupplýstum malarveginum.

„Nei,“ svaraði ég. „Eins og hvað?“

„Draugar, vættir, huldufólk, púkar og þannig,“ sagðir þú. „Allt sem þolir ekki dagsljósið.“

„En draugar eru ekki til í alvöru,“ hélt ég fram gegn eigin sannfæringu og beit laust í neðri vörina. Það fór um mig hrollur.

Þú svaraðir ekki en flissaðir lágt.

Við höfðum verið við brennu en vorum á leiðinni heim á sveitabæinn sem við notuðum sem sumarhús. Mamma og pabbi ætluðu að vera aðeins lengur við brennuna. Þau vildu skemmta sér fram í nóttina með hinu fullorðna fólkinu. Mamma bað þig að fylgja mér heim. Þú varst þremur árum eldri en ég og þess vegna varst það þú sem barst ábyrgðina á að koma okkur báðum heim í háttinn.

Úti var myrkrið koldimmt. Að baki okkur var eilítill bjarmi af kulnandi varðeldinum. Handan fjarðarins mátti sjá nokkur ljós frá sveitabæjum. Ljósin frá byggðinni hérna megin fjarðarins voru hins vegar hulin bakvið birkiskóginn sem skildi að veginn og byggðina. Það sáust hvorki tungl né stjörnur þar sem himinhvolfið var hulið skýjum. Við sáum vart hvert við gengum og reiddum okkur á það eitt að við höfðum farið þessa leið svo oft áður að við gátum ratað hana blindandi. Sem og við gerðum.

Við þögðum. Við heyrðum lítið annað en brakið í mölinni undir fótum okkar. Einstaka sinnum heyrðist lágur ómur af hlátrasköllum frá brennunni. Þess á milli datt allt í dúnalogn og þögnin var algjör. Myrkrið var algjört.

Skyndilega opnaðist glufa í skýjahulunni. Tjaldið var dregið frá leiksviði næturinnar. Tunglið beindi ljóskeilu sinni yfir víðan völl. Skuggar hlupu meðfram veginum. Veðurguðinn blés frá sér út fjörðinn. Birkitrén veifuðu kræklóttum greinum sínum fram og til baka.

Leiksýningunni lauk jafn skjótt og hún hafði hafist. Glufan í skýjahulunni lokaðist á ný. Tjaldið var dregið fyrir. Myrkrið réð ríkjum á ný.

„Sástu þetta?“ spurðir þú um leið og þú greipst í handlegginn á mér og fékkst mig til að stoppa.

„Nei,“ laug ég því að ég vissi ekki hvað það var sem ég hafði séð. Ég var viss um að ég hafði séð eitthvað. Eitthvað sem lá í leyni utan við veginn. Eitthvað sem rétt bærði á sér þegar tunglsljósið braut sér leið milli skýjanna. Eitthvað sem sveiflaðist í takt við birkigreinarnar.

„Ekki ég heldur,“ sagðir þú og flissaðir.

Það fór hrollur um líkamann. Ég fann fyrir hnút í maganum. Ég vissi að þú værir að spila með mig. Ég vissi að þú værir að reyna að hræða mig. Ég vildi ekki láta hræðsluna ná tökum á mér. Ég var hins vegar viss um að ég hafði séð eitthvað bærast í tunglskininu. Eitthvað sem kannski þoldi ekki dagsljósið.

Við þögðum það sem eftir var leiðarinnar heim. Ég hlustaði á hvert einasta brak í mölinni undir fótum okkar. Var brakið virkilega undan okkar fótum? Kom það að baki okkur? Var það framundan? Það var ómögulegt að segja. Það sást ekkert í myrkrinu og ég gaf því ímyndunaraflinu lausan tauminn. Ég hlustaði eftir hverju hljóði sem barst utan úr birkiskóginum. Var einhver á ferðinni? Ég fann hjartað slá hraðar í brjósti mér. Ég fann hræðsluna læsa klóm sínum um líkamann.

Mér létti þegar við höfðum stigið inn yfir þröskuldinn heima og kveikt ljós. Það voru samt ennþá einhver ónot í mér eftir gönguna í myrkrinu. Ég gat ekki hætt að hugsa um það hvort draugar eða óvættir leyndust fyrir utan.

„Góða nótt,“ sagðir þú og glottir, eftir að við höfðum háttað og burstað tennurnar. „Dreymi þig vel.“

Þú skríktir er þú valhoppaðir inn í þitt herbergi. Þú vissir að þú hafðir náð að magna upp í mér myrkfælnina. Þú vissir að mig myndi ekki dreyma vel.

Ég bylti mér í rúminu og gat ekki sofnað. Ég hlustaði á hvert hljóð sem barst utan úr myrkrinu. Ég hlustaði á brakið í þaksperrunum. Ég hlustaði á krafsið í trjágreinum sem vindurinn dró fram og til baka eftir bárujárnsklæddum húsgaflinum.

Ég vissi að draugar voru ekki til. Að minnsta kosti vildi ég trúa því að svo væri. Samt sem áður gat ég ekki komist hjá því að ímynda mér að einhver væri á ferðinni uppi á lofti í hvert sinn sem ég heyrði brakið í þaksperrunum. Í hvert sinn sem ég heyrði trjágrein strjúkast eftir húsgaflinum birtist í huga mér mynd af óræðri veru sem sveif fram eftir húsinu. Þér hafði tekist að hræða mig. Mér fannst ég skynja tilvist einhvers fyrir utan gluggann. Einhvers sem smeygði sér inn. Mér fannst ég skynja tilvist einhvers inni í herberginu. Ég fann hjartað slá hraðar.

Skyndilega heyrði ég smell. Í kjölfar smellsins heyrðist lágt tíst. Hjartað sló enn hraðar. Ég faldi mig undir sænginni. Ég dró andann djúpt og reyndi að hægja á hjartslættinum. Það tókst. Ég reisti mig upp og steig varlega fram úr rúminu. Ég gekk í hægðum mínum fram að dyrunum og þreifaði í myrkrinu eftir ljósrofanum. Ég kveikti ljósið. Úti í horni sá ég það sem hafði valdið smellinum og tístinu. Lítil mús hafði fest sig í músagildru.

Ég beygði mig niður og virti músina fyrir mér. Hún horfði á mig bænaraugum. Ég brosti. Ég myndi losa músina úr prísund sinni og láta hana lausa. Það var okkur báðum í hag. Ég greip um viðkvæman líkamann og losaði músina varlega úr gildrunni. Ég reis upp og ruggaði músinni í lófa mér. Ég fann hjartslátt hennar. Hún var greinilega hrædd. Hjartað sló hratt.

Ég opnaði dyrnar og gekk varlega fram á ganginn. Ég læddist inn eftir ganginum í átt að svefnherberginu þínu. Ég opnaði dyrnar hljóðlega og læddist inn. Ég sá ekki mikið í myrkrinu en ég heyrði að þú svafst vært. Ég lagði músina varlega á rúmstokkinn, læddist til baka fram á ganginn og hallaði hurðinni hljóðlega á eftir mér.

Ég hafði vart skriðið upp í rúmið mitt þegar ég heyrði þig öskra. Ég vissi hversu illa þér var við mýs. Þér var jafn illa við mýs og mér var illa við myrkrið. Nú hafði ég jafnað leikinn. Ég fann hvernig hægðist á hjartslættinum. Ég hætti að hlusta á brakið í þaksperrunum. Ég hætti að hlusta á klórið í trjágreinunum. Það færðist yfir mig værð og ég sofnaði.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/