Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Kuldahrollur

Kuldahrollur — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Hurðin skall aftur með svo miklum hvelli að ég hrökk við. Ég leit á klukkuna á náttborðinu. Hún var sex. Þetta hafði þá verið draumur eftir allt saman.

Þó það væri óvenjulega hlýr sumarmorgun þá fór um mig kuldahrollur. Það var ónotatilfinning í mér eftir drauminn. Mér fannst ég vera utangarðs.

Ég fór í heita sturtu til þess að reyna að ná úr mér kuldanum. Ég skalf undir sjóðandi bununni.

„Þú ert snemma á fótum í dag,“ sagði konan mín þegar ég kom út úr baðherberginu. „Hvað kemur til?“

„Mig dreymdi hálf-illa,“ svaraði ég dapur í bragði. „Ég var í vinnunni. Fyrst var skrifborðið mitt undir þakglugga sem lak. Því næst við útidyr þar sem blés inn köldu þegar fólk kom inn eða gekk út. Mér var kalt. Lyklaborðið var ryðgað. Ég ráfaði árangurslaust um skrifstofuna til þess að finna betri vinnuaðstöðu. Allt kom fyrir ekki.“

„Þú verður nú að fara að leita þér að nýrri vinnu,“ sagði konan. „Þessi er ekki fyrir þig.“

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/