Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Mótmæli

Mótmæli — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég sat við stofuborðið með pappaspjald og tússpenna fyrir framan mig. Mig langaði að skrifa sterk skilaboð til heimsins. Ég vildi mótmæla. En hvað var það sem ég vildi mótmæla? Ástandi þjóðfélagsins. En hvað var það við ástand þjóðfélagsins sem ég vildi mótmæla? Ég vildi mótmæla bankakerfinu. En hvað vissi ég um afleiður og fjármálagerninga? Ég vildi mótmæla stjórnmálamönnunum. En hvað var það annars sem þeir gerðu? — þessir blessuðu stjórnmálamenn.

Ég var gersamlega hugmyndasnauður og fann til vanmáttar vegna þess að ég gat ekki komið mótmælum mínum í orð. Þjóðfélagið var svo flókið að þó ég vissi að eitthvað væri í ólagi þá gat ég ekki sett fingur á orsökina. En var það kannski ekki málið?

Ég greip um tússpennann og skrifaði skilaboð mín til heimsins: „Ég krefst einföldunar á þjóðfélaginu til þess að fólk eins og ég geti skilið hverju við viljum mótmæla!“

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/