Ég var að flytja erindi á hádegisfundi þegar það byrjaði að rigna. Regnið féll af himninum eins og hellt væri úr fötu.
„Afsakið,“ sagði ég og gekk á dyr.
Ég gekk út ganginn, niður tröppurnar, gegnum móttökuna og út um aðaldyrnar uns ég stansaði á miðju torginu framan við höfuðstöðvarnar.
Ég stóð grafkyrr og lét rigninguna bylja á höfði mér. Ég naut þess að finna taumana renna niður bartana, hálsinn, brjóstið, magann, lærin, sköflungana og alla leið niður á tær.
Eftir fimm mínútur í úrhellinu snéri ég til baka til höfuðstöðvanna, inn um aðaldyrnar, gegnum móttökuna, upp tröppurnar og inn ganginn að fundarherberginu.
Fundurinn var í fullum gangi með líflegum umræðum sem þögnuðu um leið og ég opnaði dyrnar, gekk í púltið með vatnsflaum í eftirdragi og tók upp þráðinn þar sem frá var horfið.