Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Úrhelli

Úrhelli — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég var að flytja erindi á hádegisfundi þegar það byrjaði að rigna. Regnið féll af himninum eins og hellt væri úr fötu.

„Afsakið,“ sagði ég og gekk á dyr.

Ég gekk út ganginn, niður tröppurnar, gegnum móttökuna og út um aðaldyrnar uns ég stansaði á miðju torginu framan við höfuðstöðvarnar.

Ég stóð grafkyrr og lét rigninguna bylja á höfði mér. Ég naut þess að finna taumana renna niður bartana, hálsinn, brjóstið, magann, lærin, sköflungana og alla leið niður á tær.

Eftir fimm mínútur í úrhellinu snéri ég til baka til höfuðstöðvanna, inn um aðaldyrnar, gegnum móttökuna, upp tröppurnar og inn ganginn að fundarherberginu.

Fundurinn var í fullum gangi með líflegum umræðum sem þögnuðu um leið og ég opnaði dyrnar, gekk í púltið með vatnsflaum í eftirdragi og tók upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/