„Þvílíkt draumalíf sem við lifum nútildags“, nefndi lítill piparfugl við annan stærri þar sem þeir sátu á grein geniptrés, baðandi sig í snemmmorgunssólinni eftir að hafa þanið sig út af óhóflegu magni genipap ávaxta. „Ég meina, nú þegar mannfólkið er horfið á brott, þá er allt svo hljóðlegt, allt svo miklu öruggara. Vindurinn er klárlega ferskari er hann strýkur þér um gogginn þar sem hann líður áfram yfir votlendið. Við höfum séð fyrir endann á öllum hörmungum mannlegrar eyðileggingar. Bönd eru komin á skógareyðinguna. Öllum til heilla útrýmdi hamfarahlýnunin tegundinni sem olli henni. Það er eins og sönn náttúra hafi snúið aftur.“
„Ég verð að segja að ég sé heiminn ekki eins ljóðrænum augum og þú,“ svaraði stærri piparfuglinn í sínum vanalega lágstemmda og þunglynda tón. „Ég sé ekki að það sé svo mikill munur.“
„Nei? Hvers vegna ekki?“
„Sérðu til dæmis jagúarinn á greininni þarna fyrir neðan okkur?“ spurði stærri piparfuglinn án þess að hægt væri að heyra nokkra breytingu í röddinni. „Þann sem færir sig varlega í áttina til okkar?“
„Guð minn almáttugur, já,“ hrópaði minni fuglinn upp fyrir sig, sleppti greininni, flögraði upp og flaug yfir í krónu næsta trés þar sem hann kom sér fyrir á ný.
„Jæja,“ sagði stærri piparfuglinn eftir að hafa slegist í hóp með þeim minni á nýju greininni. „Næst er allt eins líklegt að þú gerir það ekki. Þú verður auðveld bráð fyrir hungraðan köttinn.“
Smærri fuglinn svaraði ekki, umvafinn óvanalegri þögn, starandi út í fjarskann.
„Á hvorn veginn sem er,“ hélt stærri piparfuglinn áfram. „Mannfólk eða ekki mannfólk. Það skiptir ekki öllu máli. Við étum. Við erum étnir. Þar hefurðu sanna náttúru.“