Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Ég settist á bekk í miðjum Vondelpark og strauk svitann af enninu. Þó það væri komið fram í september þá var helst til heitt fyrir mig. Ég hafði búið alla mína tíð á Íslandi og var ekki vanur svona hita. Ég hafði fyrir rúmri viku flutt úr íslenska sumrinu yfir í hollenska haustið. Haustið var heldur heitara en sumarið. Ég yrði að venja mig við þennan hita ef ég ætlaði að lifa af þau tvö ár sem ég gerði ráð fyrir að búa hér í Amsterdam. Til skamms tíma litið gat ég huggað mig við það að veturinn var á næstu grösum. Brátt yrði hitinn væntanlega bærilegri.

Álfar og kóngar — Myndskreyting Yana Volkovich
Myndskreyting Yana Volkovich

Ég sat með minnisbók í kjöltunni og penna í hönd. Ætlunin hafði verið að skeyta saman nokkrum orðum í ljóð um haust í Amsterdam. Ég náði hins vegar ekki að einbeita mér. Orðin vildu ekki detta inn í kollinn á mér. Orðin vildu ekki detta út úr kollinum á mér. Hver sem uppspretta orðanna var þá var hún þurr. Gat það verið að það væri hitinn sem stoppaði flæði orðanna? Þurrkaði hitinn uppsprettu orðanna? Var það ástæðan? Hver sem ástæðan var þá var blaðið autt. Ég var eitthvað svo andlaus. Ég horfði yfir garðinn í þeirri von að andinn kæmi yfir mig

Garðurinn var sérstaklega stór. Ílangur með háum trjám, síkjum og tjörnum. Þvers og kruss um hann hlykkjuðust malarstígar. Inn á milli voru stórir grasbalar þar sem fólk spilaði boltaleik eða lá í sólbaði. Margir hlauparar skokkuðu fram og aftur um garðinn — að minnsta kosti fram. Það var ekki gott að segja hvað sneri fram og hvað sneri aftur í þessum garði. Það sama gilti raunar almennt um borgina. Ég átti erfitt með að ná áttum. Borgin var eitthvað svo kringlótt. Að minnsta kosti hálf-kringlótt. Aðalsíkin mynduðu hálfhringi umhverfis miðbæinn. Ég átti jafnan í vandræðum með að átta mig á því hvar á hálfhringnum ég var staddur hverju sinni.

„Het is nog steeds vrij warm hoor!“

Ég leit á kófsveittan manninn sem hafði sest á bekkinn við hliðina á mér. Ég gerði ráð fyrir að um heimamann væri að ræða. Hann leit þó ekki út fyrir að vera dæmigerður Hollendingur — stuttur, þybbinn og nauðasköllóttur. Hann passaði að minnsta kosti ekki við staðalímyndina af hinum langa og mjóa Hollendingi með ljóst og liðað hár. Hann var að kasta mæðinni eftir skokk sitt um garðinn. Ég hafði ekki skilið orð af því sem hann hafði sagt. Heitt eitthvað. Það var það eina sem ég hafði skilið.

„Afsakið, ég skil ekkert í hollensku,“ svaraði ég á ensku. „Ég er nýfluttur til borgarinnar.“

„Ó! Ég sagði bara að það væri ennþá frekar heitt,“ endurtók Hollendingurinn á ensku.

„Já, það er frekar heitt,“ samsinnti ég.

Við sátum og horfðum báðir tveir yfir garðinn. Hann reyndi að ná andanum en ég beið eftir að andinn kæmi yfir mig. Kannski ætti ég að fylgja hans fordæmi. Reyna að ná andanum í stað þess að bíða bara eftir að hann kæmi. Ég hafði nýlega lesið einhvers staðar að það væri tímaeyðsla að bíða eftir andanum. Hann kæmi sjaldan að fyrra bragði. Það eina sem gilti væri að byrja að skrifa og þá myndi andinn renna á lyktina. Hann hefði nef fyrir því að þefa uppi blek. Hann kæmi eins og kallaður. Ég mundaði því pennann og gerði mig líklegan til þess að byrja að skrifa andann yfir mig.

„Hvaðan ertu?“ spurði Hollendingurinn hlaupandi áður en ég náði að koma orði á blað.

„Frá Íslandi,“ svaraði ég og setti lokið aftur á pennann.

Það kom undrunarsvipur á andlit Hollendingsins. Það var eins og það tæki hann svolítinn tíma að melta svarið.

„Nú já. Það er ekkert annað. Ég man ekki eftir því að hafa hitt Íslending fyrr,“ sagði Hollendingurinn og kinkaði kolli eins og hann væri enn að meðtaka það að hann hefði komist í návígi við eintak af þeirri sjaldgæfu dýrategund sem kallaðist Íslendingar. „Þekkirðu Björk?“

Spurningin kom mér í opna skjöldu. Ég vissi auðvitað að Björk væri heimsfræg en mér fannst spurningin samt undarleg. Eins og ef ég myndi spyrja hvort hann þekkti Gullit. Sjálfur þekkti ég enga Hollendinga og vissi enn sem var lítið um landið. Mér dytti samt ekki í hug að spyrja hvort hann þekkti Gullit. Það væri asnaleg spurning.

„Nei. Eða Já. Eða nei,“ svaraði ég vandræðalega. „Ekki persónulega.“

Auðvitað þekkti ég Björk. Systir mín hét Björk. Ég þekkti samt ekki Björk með stóru béi. Ekki það að systir mín væri björk með litlu béi. Ég þekkti bara ekki frægu Björkina. Söngkonuna. Ekki persónulega.

„Það þekkja þá ekki allir alla á Íslandi?“ spurði Hollendingurinn og virtist hissa. Ég gat ekki lesið úr svipnum hvort hann væri raunverulega hissa eða hvort um einhvers konar kaldhæðnislegan húmor væri að ræða.

„Nei. Það er orðum aukið,“ svaraði ég og varð hugsað til allra Íslendinganna sem ég þekkti ekki. „Það er jafnvel ekki svo að flestir þekki flesta.“

„Nú jæja.“ sagði Hollendingurinn og lyfti brúnum.

„En allnokkrir þekkja samt allnokkra,“ bætti ég við og setti upp spekingslegan svip.

Hollendingurinn svaraði engu en kinkaði varfærnislega kolli eins og hann biði eftir því að ég kláraði svar mitt.

„En það gildir kannski einnig hér í Hollandi. Jafnvel heldur fleiri sem þekki heldur fleiri.“

Ég kímdi þar sem mér fannst ég hafa komist vel að orði. Ég hugsaði með mér að ég ætti að leggja brandarann á minnið. Ég gæti notað hann síðar.

„Nei. Það held ég ekki,“ svaraði Hollendingurinn alvarlegur í bragði.

Það var þá það. Hann hélt ekki. Kannski fattaði hann ekki brandarann. Kannski var brandarinn alls ekki fyndinn. Þetta var jú svo sem ekki beint brandari, heldur bara vel að orði komist. Það fannst mér allavegana.

Við þögðum og horfðum á fólk sleikja haustsólina í garðinum. Mér leið hálf vandræðalega. Mér fannst eins og það lægi í loftinu að samtalinu væri ekki lokið. Mér datt hins vegar ekkert í hug til þess að segja. Ég var aðeins sleginn út af laginu vegna misheppnaða brandarans. Ég ákvað því að þegja og sjá til hvort Hollendingurinn héldi áfram. Ég mundaði pennann á ný og velti því fyrir mér hvort það væri dónaskapur að snúa sér aftur að því að reyna að koma ljóði á blað.

„En segðu mér annað,“ sagði Hollendingurinn og ljómaði eins og hann hefði rétt í þessu náð að muna eitthvað stórfenglegt. „Er það rétt sem ég hef heyrt að Íslendingar trúi á álfa?“

Það var þá ímynd Íslands út á við — Björk og álfar.

„Já,“ svaraði ég hikandi.

Var það annars ekki rétt? Eða var það kannski bara ein af þessum úreltu staðalímyndum? Var íslenska álfatrúin ef til vill á sama stalli og staðalímynd hins hávaxna ljóshærða Hollendings? Rétt að vissu marki en ekki algild.

„Allir?“ spurði Hollendingurinn og virtist hissa.

„Nei, kannski ekki allir,“ svaraði ég og minntist þess ekki að hafa séð tölfræði um það hversu hátt hlutfall Íslendinga tryði á álfa og huldufólk. Það var ekki eins og álfatrúin væri ofarlega í huga íslenskra tölfræðinga. Það var ekki eins og þjóðarpúls Gallup mældi mánaðarlega breytingu á álfatrú landans.

„En þú?“ spurði Hollendingurinn og glotti. „Trúir þú á álfa?“

Ég hikaði. Ég var ekki viss hverju ég ætti að svara. Ég hafði aldrei spáð í þetta af neinni alvöru. Það gilti sama um mig og tölfræðinga Gallup, mér voru álfar og huldufólk ekki ofarlega í huga. Ég spáði frekar í veraldlegri hluti. Ég hafði búið tuttugu og fjögur ár á Íslandi án þess að þurfa að gera upp við mig hvort ég tryði á álfa og huldufólk.

Þegar ég spáði í það þá var ekkert í mínum reynsluheimi sem sýndi fram á tilvist þeirra. Á móti kom að það var ekki heldur neitt sem afsannaði tilvistina. Þetta var kannski svipað og með mörgæsir. Þó ég hefði aldrei séð mörgæs þá var það nú ekki svo að ég tryði ekki á tilvist þeirra. Og þó. Álfar og huldufólk voru kannski annars eðlis en mörgæsir. Trúin á tilvist mörgæsa var líklegast ekki spurning um það hvort maður hefði séð eina slíka eða ekki. Fólk tók bara tilvist þeirra sem sjálfsögðum hlut. Það var hins vegar eitthvað við álfa og huldufólk sem gerði tilvist þeirra ekki eins sjálfsagða. Hvað sem því leið þá var komið að ögurstundu. Ég þurfti að gera upp hug minn. Ég varð að svara spurningu Hollendingsins. Að trúa eða trúa ekki — á álfa og huldufólk — það var efinn.

„Já,“ svaraði ég öruggur með mig. Hvers vegna ekki? Mörgæsir eru til. Er það ekki annars? Hvers vegna geta álfar og huldufólk þá ekki allt eins verið til.

Hollendingurinn horfði á mig vantrúaður. Hann hafði líklega ekki búist við þessu svari. Ég gat að vissu leyti skilið hann. Í sjálfu sér hafði ég ekki heldur búist við þessu svari.

„En af hverju?“

Þetta var góð spurning. Þar sem það höfðu ekki liðið fimm mínútur frá því að ég gerði upp hug minn varðandi álfatrúna mína þá var ég ekki tilbúinn með skothelt svar við spurningunni. Ég þyrfti að spila af fingrum fram.

„Af hverju ekki?“ spurði ég á móti og fannst það prýðisgott svar — þó sandkassalegt væri. „Það sakar í sjálfu sér ekkert að trúa á álfa. Þar að auki getur það bara verið frekar gaman.“

Ég kom sjálfum mér skemmtilega á óvart. Mér fannst röksemdafærsla mín hreint út sagt alls ekki svo galin. Það kostaði ekki neitt að trúa á álfa og huldufólk. Það er að segja fyrir flest okkar sem ekki standa í vega- eða jarðgangagerð.

„En það hefur engan tilgang,“ svaraði Hollendingurinn og dæsti. „Og svo eru svona fyrirbæri ekki til. Þú hefur enga sönnun.“

Mér fannst freistandi að setja fram mörgæsa-röksemdina. Það var hins vegar ekki útilokað að þessi Hollendingur hefði farið til Suður-Ameríku — eða í dýragarð. Það gæti því orðið erfitt að nota mörgæsirnar til þess að svara spurningunni um tilvist álfa. Ég taldi mig vita nægjanlega mikið um rökfræði til þess að vita að það var almennt séð flókið að afsanna tilvist hluta. Ég ákvað því að nota nærtækara dæmi og einbeita mér að spurningunni um tilgang.

„Er þetta bara ekki svipað og að trúa á konungsfjölskylduna?“ spurði ég sakleysislega. „Hefur það nokkurn tilgang?“

Hollendingurinn hikaði um stund. Hafði ég gengið of langt? Var konungsfjölskyldan of heilög til þess að draga hana inn í umræðuna um tilvist álfa og huldufólks?

„Það er ekki það sama,“ svaraði Hollendingurinn vandræðalega. „Konungsfjölskyldan er til.“

Þetta var góður punktur. Hann hafði auðvitað mikið til síns máls. Ég hafði hins vegar viljandi reynt að forðast spurninguna um tilvist og reynt að einbeita mér að spurningunni um tilgang. Mig langaði til þess að halda áfram með samlíkinguna og sjá hversu langt ég kæmist.

„En hefur samt engan tilgang,“ sagði ég og reyndi að brosa eins vingjarnlega og ég gat til þess að sýna fram á að það væri ekki illa meint hjá mér þó ég líkti hollensku konungsfjölskyldunni við álfa og huldufólk.

„Jú, hún er sameiningartákn þjóðarinnar,“ svaraði Hollendingurinn hróðugur.

„Getur trú á álfa ekki verið sameiningartákn þjóðar?“ spurði ég jafnharðan á móti.

Ég vissi að ég væri kominn á hálan ís. Það var heldur langsótt að líkja hollensku konungsfjölskyldunni við álfa og huldufólk. Þar að auki gat verið að það væri viðkvæmt mál hér í Hollandi að setja út á konungsfjölskylduna. Hollendingurinn hafði hins vegar snert einhverja taug. Mér fannst það eins og skylda mín sem Íslendingur að verja íslensku álfatrúna.

„Og svo er konungsfjölskyldan andlit hollensku þjóðarinnar út á við,“ bætti Hollendingurinn við án þess að svara því hvort álfar gætu verið sameiningartákn.

Þar hafði hann hitt naglann á höfðið. Þarna var komin enn ein samsvörunin milli álfa og huldufólks annars vegar og kónga og drottninga hins vegar. Að minnsta kosti ef tekið væri mið af þessu samtali okkar þá virtust það vera álfar og huldufólk — ásamt Björk — sem mynduðu andlit Íslands út á við.

„Í tilfelli Íslands eru það einmitt álfar sem eru andlit þjóðarinnar út á við,“ sagði ég og brosti. „Voru ekki álfar og Björk það eina sem þú vissir um Ísland? Er því ekki bara tilvalið að álfar séu sameiningartákn íslensku þjóðarinnar og andlit hennar út á við. Væri það ekki tilvalið að þegar hollenska konungsfjölskyldan kæmi í heimsókn til Íslands þá myndu álfarnir standa í röð á flugvellinum til þess að taka á móti henni. Björk gæti sungið við sama tækifæri.“

Hollendingurinn brosti á móti. Hann hafði þá ekki móðgast við konungslastið. Hann hristi höfuðið, stóð upp, kvaddi og hélt áfram skokki sínu. Ég sat eftir á bekknum og velti því fyrir mér hvort það væri nokkuð svo vitlaust að skipta íslenska forsetanum út fyrir álfa og huldufólk.

Smásagan Álfar og kóngar er hluti af smásagnasafninu 999 Erlendis.