Atvinnuviðtalið


Ljósmynd Börkur Sigurbjörnsson

Jürgen ræskti sig og hóf fyrirlesturinn. Hann fann fyrir hnút í maganum. Þetta var mikilvægur fyrirlestur. Framtíð hans sem jarðvísindamanns gæti ráðist á næsta klukkutímanum eða svo. Hann var ekki einungis að sækja um vinnu við þekktustu jarðvísindastofnun Þýskalands. Hann var einnig að kynna nýstárlegar kenningar sínar um kvikuhreyfingar undir Íslandi. Kenningar sem voru frábrugðnar hefðbundnum kenningum í bransanum. Ef þær reyndust réttar myndi hann skrifa nafn sitt í jarðfræðikennslubækur framtíðarinnar. Hann taldi sig hafa fundið ákveðin tengsl milli kvikuhreyfinga og veðurfarsbreytinga. Tengsl sem enginn hafði komið auga á fyrr.

Fyrirlesturinn fór fram í kennslustofu í húsakynnum jarðfræðistofnunarinnar. Í fremstu sætaröðunum sátu margir af þekktustu jarðvísindamönnum Þýskalands. Þar á meðal yfirmaður jarðvísindastofnunarinnar. Þó svo að fyrirlesturinn væri hluti af atvinnuviðtali þá var hann opinn öllum og í aftari sætaröðunum var talsverður hópur fólks sem Jürgen kannaðist ekki við en gerði ráð fyrir að væru doktorsnemar í bland við rannsóknarfólk af öðrum sviðum.

Jürgen byrjaði fyrirlesturinn á að gera stuttlega grein fyrir megin kenningu sinni. Hann vatt sér síðan í að kynna fyrsta dæmið sem studdi kenningu hans. Um var að ræða kvikuhreyfingar í tengslum við eldgos á Íslandi í mars 2010. Jürgen átti í talsverðum vandræðum með að bera fram nafnið á staðnum þar sem eldgosið braust upp á yfirborðið. Hann hafði margsinnis heyrt íslenskt fræðifólk bera fram nafnið á Fimmvörðuhálsi en aldrei náð að bera það sjálfur fram á þann veg að það hljómaði eitthvað í líkingu við upprunalega framburðinn.

Jürgen skýrði hvernig framgangur eldgossins og veðurfarið var í samræmi við kenningu sína. Máli sínu til stuðnings spilaði hann brot úr viðtölum við íslenska jarðvísindamenn og sýndi brot úr íslenskum veðurfréttum frá þessum tíma. Honum fannst það einstök snilld að honum skyldi hafa dottið það í hug að blanda myndbrotum inn í annars fræðilegan fyrirlesturinn. Hann hafði talið það gulltryggt að slík framsetning myndi vekja verðskuldaða athygli hjá þeim sem hlýddu á. Það leit hins vegar ekki út fyrir að áheyrendurnir væru jafn hugfangnir. Þeir sýndu lítil viðbrögð. Fólkið virtist heldur áhugalaust um kenningu hans. Jürgen varð fyrir vonbrigðum. Hann hafði búist við sterkari viðbrögðum.

Jürgen reyndi að láta vonbrigðin ekki slá sig út af laginu og vatt sér yfir í tæknilega útlistun á kenningu sinni og þar á eftir kynnti hann seinna dæmið sem studdi kenningu hans. Um var að ræða eldgos sem kom í kjölfar gossins í Fimmvörðuhálsi og kom upp í öðru íslensku eldfjalli sem bar nafn sem ómögulegt var að bera fram. Seinna dæmið snérist um gosið í hinum alræmda Eyjafjallajökli sem öðlaðist mikla frægð um allan heim fyrir að valda meiriháttar röskun á flugumferð í Evrópu. Líkt og í fyrra dæminu þá spilaði Jürgen brot úr viðtölum við íslenska jarðvísindamenn í bland við brot úr íslenskum veðurfréttatímum.

Stuttu eftir að hann byrjaði að kynna seinna dæmið tók Jürgen eftir því að hann hafði náð að vekja áheyrendurna af værum svefni. Fólkið byrjaði að pískra sín á milli, kinnka kolli, hrista höfuð og lyfta brúnum. Það fór gleðistraumur um Jürgen. Gat það verið að hann hefði náð að sannfæra áheyrendurna um ágæti kenningar sinnar? Hann hafði í það minnsta náð að vekja athygli þeirra. Hann gat varla beðið með það að klára fyrirlesturinnn og snúa sér að fyrirspurnum.

Jürgen lauk fyrirlestrinum á að útlista nokkrar spurningar sem enn var ósvarað varðandi kenningu sína. Hann setti fram rannsóknaráætlun sem hann hugðist fylgja til þess að renna styrkari stoðum undir kenninguna. Hann klykti út með því að hann vonaðist til þess að geta fullunnið kenningu sína innan veggja þeirrar ágætu stofnunar sem hann heimsótti í dag.

Eftir að Jürgen hafði lokið fyrirlestrinum gaf hann orðið laust fyrir spurningar. Hann leit beint á yfirmann jarðvísindastofnunarinnar sem sat í fremstu sætaröð. Jürgen til mikillar gleði þá rétti yfirmaðurinn upp hönd og virtist ákafur í að svala fróðleiksþorsta sínum með spurningu. Jürgen iðaði í skinninu. Þetta leit vel út.

,,Varðandi þessi tvö dæmi sem þú tókst,“ byrjaði yfirmaðurinn spurningu sína, ,,hvers vegna voru allir karlkyns viðmælendur með yfirvararskegg í fyrra dæminu en enginn í því seinna?“

Jürgen starði á yfirmanninn og gapti. Hann vissi ekki hverju hann átti að svara. Spurningin hafði gersamlega slegið hann úr af laginu. Hann hafði ekki rekið augun í að hárvöxtur í andlitum viðmælendanna hefði verið mismunandi í þessum tveimur dæmum. Hann gerði ráð fyrir að hann hafi verið of upptekinn við að spá í það hvað viðmælendurnir höfðu að segja.

,,Ja, já, nei,“ stamaði Jürgen. ,,Ég bara hreinlega veit það ekki.“

Jürgen fann roða streyma fram í kinnarnar. Hann svitnaði í lófunum. Þetta voru ekki viðbrögðin sem hann hafði vonast eftir að fyrirlestur hans fengi. Hann hafði verið að vonast eftir að fá spurningar og athugasemdir um kenninguna sjálfa. Hann leit yfir skólastofuna og vonaði að einhver spyrði annarrar spurningar. Honum létti eilítið þegar hann sá ungan en vel metinn prófessor sem sat í annarri sætaröð rétta upp hönd. Jürgen kinnkaði kolli og gaf til kynna að prófessorinn hefði orðið.

,,Ja, þetta er nú meira athugasemd heldur en spurning,“ sagði prófessorinn og Jürgen vonaði að athugasemdin yrði jákvæð. ,,Þetta með yfirvararskeggið, það gæti nú verið tengt veðurfari.“

Jürgen yppti öxlum. Hann hafði í fyrstu túlkað athugasemdina sem meinfyndni í þá átt að tengja saman skeggvöxt og veðurfarskenningar Jürgens. Prófessornum stökk hins vegar ekki bros á vör og Jürgen túlkaði það sem að honum hefði verið alvara með athugasemd sinni. Sem og við fyrri spurningunni þá hafði Jürgen ekkert um málið að segja og varð hinn vandræðalegasti. Yfirmaður jarðvísindastofnunarinnar virtist hins vegar hafa eitthavð um málið að segja. Hann snéri sér við og fór að ræða athugasemdina við prófessorinn. Jürgen heyrði ekki nákvæmlega hvað þeim fór á milli en heyrði stikkorð á borð við yfirvararskegg, skammdegi, norðanátt og einnig önnur veðurtengd orð.

Aðrir áheyrendur hlustuðu af athygli á samtal yfirmannsins og prófessorsins unga. Smám saman blönduðu fleiri sér í umræðuna og eins konar pallborðsumræður mynduðust fremst í kennslustofunni. Jürgen tvísté og velti því fyrir sér hvort hann ætti að slást í hópinn og reyna að færa umræðu pallborðsins frá yfirvararskeggi til tengsla á milli kvikuhreyfinga og veðurfars. Hann hafði hins vegar fengið nóg af umræðu um yfirvararskegg. Hann ákvað því að ganga frá fartölvunni sinni, minnisbók og penna ofan í bakpokann sinn og læðast úr kennslustofunni eins hljóðlega og hann gat til þess að trufla ekki umræðurnar. Hann gæti örugglega fengið vinnu einhvers staðar annars staðar.