Eltandi draum


Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég opna augun og lít upp í loftið. Ljósakrónan sveiflast í andvaranum sem berst inn um opinn gluggann. Mig hafði verið að dreyma. Við vorum saman á líflegu borgartorgi við Miðjarðarhafið. Við töluðum saman og þú varst að því komin að segja mér hvers vegna þú yfirgafst mig. Hvers vegna þú hvarfst úr lífi mínu.

Ég loka augunum og sný til baka til torgsins. Ég lít í kringum mig í leit að þér. Þig er hvergi að sjá. Torgið er autt. Ég byrja að hlaupa. Ég hleyp upp og niður strætin í kringum torgið, leitandi að þér. Ég verð að finna þig. Ég verð að fá að vita hvers vegna þú yfirgafst mig. Ég hleyp upp eitt stræti og beygi svo inn í annað. Eins og torgið þá eru allar göturnar auðar. Það er engan að sjá. Draumurinn er horfinn.

Ég sný aftur til torgsins, móður eftir hlaupin. Ég halla mér fram, styð lófum á hné og reyni að anda eðlilega. Ég veit að eltingaleikurinn mun ekki bera ávöxt. Ég mun aldrei ná í skottið á þér. Ég gefst upp, opna augun og sný til baka yfir í raunheiminn.

Urban Volcano er vefsíða án auglýsinga og stólar á bókasölu til þess að styða reksturinn. Ef þú hefur haft gaman að sögunum á vefnum, íhugaðu þá endilega að kaupa bók eftir höfundinn. Rafbækur og kiljur eru fáanlegar hjá Amazon (þar með talið Kindle) og Apple iBooks Store. Einnig má fylgja höfundinum á Goodreads.