Gáleysisleg hegðun


Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Svo… ég er leiðindapúki… of fyrirsjáanlegur… of forsjáll… of…“ öskraði Már á eftir Lóu þegar hún rauk út og skellti útidyrahurðinni á eftir sér. „Ég skal sko sýna þér gáleysislega hegðun… frumkvæði… Ég skal sko sýna þér…“

Már var reiður—reglulega reiður. Hann og Lóa höfðu rifist einn einu sinni—ef rifrildi mætti kalla. Reiðikast Lóu væri betra lýsing. Einræða um það hvað hún væri leið á því að búa með honum—hversu leið hún væri á hagsýnu og kerfisbundnu viðhorfi hans til lífsins. Hún sagðist þrá einhvern sem væri ræðnari—einhvern sem sýndi meira frumkvæði—einhvern mannlegri. Þannig hafði hún orðað það. Hún þráði einhvern mannlegri.

Már fann hvernig spennan magnaðist í líkamanum. Hann fann fyrir löngun til að gera eitthvað villt—sleppa af sér beislinu. Hann þrammaði úr einu herbergi í annað, veltandi fyrir sér hvað hann gæti gert. Hann leit í kringum sig í leit að hlut sem hann gæti notað til að veita reiði sinni útrás—hlut sem hann gæti notað til að losa um spennuna.

Á baðherberginu kom Már auga á tannkremstúpuna og brjálaðar hugdettur mynduðust í höfði hans. Þú getur það, sannfærði hann sjálfan sig. Þú ert ekki eins mikill leiðindapúki og Lóa sakar þig um að vera. Þú getur verið framhleypinn. Þú getur verið áræðinn. Já, þú getur það. Már tók tannkremstúpuna og kreisti hana miðja.

„Sko!“ hrópaði Már út í tómið sem Lóa hafði skilið eftir sig í íbúðinni þegar hún fór. „Sjáðu hvað ég get gert… Ég get verið afslappaður… Ég get verið hvatvís… Allt þarf ekkert endilega að vera fullkomið.“

Már setti tannkremstúpuna aftur upp á hilluna, settist á klósettið og tárin byrjuðu að streyma niður kinnarnar. Hann fann fyrir létti. Hann var úrvinda. Hann fann spennuna fjara úr líkamanum og hann slakaði á. Nokkrar mínútur liðu þar sem hann sat og starði á baðherbergisgólfið. Honum varð síðan aftur litið á tannkremstúpuna. Svona átti þetta ekki að vera. Hvernig maður var hann orðinn? Þetta var ekki lífið sem hann vildi lifa.

Már stóð upp, gekk að hillunni og kreisti tannkremstúpuna frá toppi að opi—eins og það átti að gera.