Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

„Góðan daginn,“ sagði Lára og brosti á móti fyrstu bylgjunni af fólki sem streymdi út úr lestinni og upp stigann í áttina að næsta brautarpalli.

Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Góðan daginn,“ sagði Lára við mannhafið sem leið framhjá henni, flestir niðurlútir og einbeittir í því að komast eins skjótt og mögulegt var til vinnu.

„Góðan daginn,“ sagði Lára við þögulan fjöldann sem var vart viðræðuhæfur svona snemma morguns.

„Góðan daginn,“ sagði ung kona sem gekk teinrétt í hægðum sínum á eftir þvögunni.

„Góðan daginn,“ svaraði Lára. „Og gangi þér allt í haginn það sem eftir lifir dags.“

Lára horfði á eftir konunni hverfa upp tröppurnar. Hún fékk borgað fyrir það að kasta kveðju á morgunumferðina, en leit á það sem ánægjulegan kaupauka þegar einhver sjálfboðaliði kastaði kveðjunni til baka. Núna naut hún augnabliksins á meðan hún beið næstu lestar sem var væntanleg eftir eina mínútu.

Örsagan Góðan daginn er hluti af örsagnasafninu 52 augnablik.