Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Sólin skein skært yfir Barcelona á morgni sunnudags í júlí. Himinninn var heiður og blár. Skýörðu var hvergi að sjá. Það var heitt í veðri. Sumarið var upp á sitt besta — eða upp á sitt versta — allt eftir því frá hvaða sjónarhorni var litið til veðurs. Loftið var þungt og rakt. Það var ró yfir borginni. Næturuglurnar ekki vaknaðar og þeir sem voru á ferðinni úti við fóru sér hægt til þess ofgera sér ekki í hitanum.

Hvernig er umferðarmenningin í Finnlandi? — Myndskreyting Yana Volkovich
Myndskreyting Yana Volkovich

Tveir menn sátu við borð úti á stétt fyrir framan kaffihús á Virreina torgi og reyndu að vinna gegn hitanum með því að sötra kaldan bjór. Margir hefðu hneykslast á því að þeir sætu við drykkju svona snemma morguns, en sem reyndur sögumaður þá get ég vitnað um það að ég hef séð margt verra og get fullvissað marga um að þessir tveir eru myndarpiltar og verður ekki meint af smá bjórsopa þó snemma morguns sé. Annar mannanna var dökkur yfirlitum. Hárið svart, augun brún og húðin þakin dökkri og jafnri sólbrúnku. Hann var að öllum líkindum heimamaður. Hinn — þrátt fyrir að augnlitur hans rímaði við heiðan himininn — passaði ekki eins vel inn í kyrralífsmálverk af lífinu við Miðjarðarhafið. Hann var ljós yfirlitum. Ljóshærður með föla húð sem skartaði bleikum roða sem var líklegri til að vera af völdum sólarinnar heldur en morgunbjórsins. Ókunnugir hefðu getið sér til um að að hann væri Svíi eða hugsanlega Norðmaður. Uppruni hans var að minnsta kosti all-langt í norður frá Miðjarðarhafinu.

Bíll stoppaði á miðri götunni sem lá meðfram torginu. Ökumaðurinn hrópaði á gangandi vegfaranda.

„¡Ostras crack! ¡Cuanto tiempo!“

Ökumaðurinn snaraði sér út úr bílnum og faðmaði vegfarandann. Þeir þekktust greinilega og í augum okkar sem ekki þekktum til þeirra þá leit út fyrir að þeir hefðu ekki séð hvor annan í langan tíma. Þeir virtust hamingjusamir með það að hittast. Aðrir ökumenn voru ekki eins hamingjusamir með þessa óvæntu endurfundi og þeyttu bílflautur sínar ákaft.

„¡Hombre! ¿Qué pasa?“

Ökumaðurinn losaði faðmlagið við gangandi vegfarandann og hrópaði til hinna ökumannanna að hann myndi halda ferð sinni áfram eftir skamma stund.

„¡Tranquilos! Continuaré en un momento.“

Hinir ökumennirnir hrópuðu ókvæðisorð til baka og héldu áfram að þeyta bílflautur sínar. Morgunkyrrðin raskaðist. Það er ekki ólíklegt að nokkrar náttuglur hafi vaknað við hamaganginn.

„Hvernig er umferðarmenningin í Finnlandi?“ spurði dökkhærði maðurinn sem var að öllum líkindum heimamaður.

„Á Íslandi?“ spurði sá ljóshærði sem ókunnugir hefðu getið sér til að væri Svíi eða hugsanlega Norðmaður. „Áttir þú við hvernig umferðarmenningin sé á Íslandi?“

„Auðvitað,“ svaraði heimamaðurinn og virtist hissa. „Hvað annað?“

„Hvers vegna segirðu alltaf Finnland?“ spurði sá ljóshærði.

„Finnland? Ég segi ekki alltaf Finnland. Hvers vegna ætti ég alltaf að segja Finnland?“

„Ekki spyrja mig. Þú segir bara alltaf Finnland.“

„Ég geri það ekki.“

„Þú gerir það víst.“

„Ég geri það svo sannarlega ekki,“ sagði heimamaðurinn og reyndi að virðast móðgaður. „Fyrir fimm mínútum sagði ég Grikkland. Ég segi því ekki alltaf Finnland!“

„Þegar ég segi alltaf þá meina ég ekki alltaf,“ svaraði sá ljóshærði og hikaði um stund eins og til þess að velta því fyrir sér hvort það sem hann hafði sagt væri virkilega það sem hann hafði meint að segja. „Ég meina. Þú segir alltaf Finnland þegar þú vísar til heimalands míns.“

„Ég geri það svo sannarlega ekki!“

„Þú gerir það svo sannarlega!“

„Geri ég það?“

„Þú gerir það.“

„Sagði ég Finnland rétt í þessu?“ spurði heimamaðurinn og virtist enn hissa.

„Þú sagðir Finnland rétt í þessu!“ svarði sá ljóshærði og dæsti. „Og í gær. Og í síðustu viku. Og í vikunni þar á undan.“

„En í vikunni þar á undan?“

„Í vikunni þar á undan.“

„Ég man ekki til þess.“ Heimamaðurinn virtist vantrúaður á sannleiksgildi þeirra saka sem á hann voru bornar. „Sagði ég virkilega Finnland?“

„Þú sagðir virkilega Finnland,“ svarði sá ljóshærði og reyndi á heldur ósannfærandi hátt að hljóma pirraður á sama hátt og margir fullorðnir hljóma þegar þeir svara síendurteknum sakleysislegum spurningum barna. „Þú ert hins vegar ekki einn um þetta. Einhverra hluta vegna er margt fólk sem fyrir mistök telur mig finnskan þrátt fyrir að það viti vel að ég sé frá Íslandi. Það segir einnig Finnland þetta og Finnland hitt. Mér finnst þetta afar skrýtið og of algengt til að vera tilviljun.“

„Sannarlega afar skrýtið,“ sagði heimamaðurinn, nuddaði hökuna og leit út fyrir að vera að hugsa stíft.

Það var hjóðlátt á torginu á ný. Bílflauturnar höfðu þagnað þegar ökumaðurinn kvaddi gangandi vegfarandann og hélt áfram ferð sinni. Mennirnir tveir þögðu um stund og dreyptu á bjórnum. Báðir litu út fyrir að vera hugsi. Heimamaðurinn nuddaði áfram hökuna en sá sem ókunnugir hefðu getið sér til um að væri annað hvort Svíi eða Norðmaður klóraði sér í höfðinu. Báðir störðu þeir á bjórinn eins og í þeirri von að loftbólurnar bæru upp á yfirborðið einhverja visku sem hjálpaði þeim við að skýra þessa undarlegu hegðun heimsins.

„Ert þú viss um að það sé bara ekki þú?“ spurði heimamaðurinn allt í einu.

„Ég?“ svaraði sá ljóshærði og lyfti augnabrúnunum eins og til þess að undirstrika það að hann hefði ekki skilið spurninguna.

„Já,“ svaraði heimamaðurinn. „Þar sem að það er ekki einungis ég sem segi Finnland þetta og Finnland hitt þá er ekki útilokað að sökina sé að finna hjá þér?“

„Þú meinar að ég misheyri Finnland í stað Íslands?“

„Eh, já. Það gæti verið.“ Heimamaðurinn hikaði um stund eins og hann væri ekki viss um hvernig hann ætti að orða framhaldið. „Eða það gæti verið að þú værir í raun finnskur.“

Sá sem ókunnugir hefðu getið sér til um að væri Svíi eða hugsanlega Norðmaður setti hljóðan um stund áður en hann svaraði.

„Nei, ég er nokkuð viss um að ég er ekki finnskur.“

Það sló þögn yfir mennina á ný. Þeir notuðu tækifærið til þess að teyga á bjórnum í þeirri von um að innbyrða eitthvað af þeirri visku sem loftbólurnar höfðu hugsanlega fært upp á yfirborðið.

„Hefurðu heyrt um visku fjöldans?“ spurði heimamaðurinn.

„Nei.“

„Kenningin um visku fjöldans gengur út á það að oft geti ólærður fjöldinn í sameiningu búið yfir meiri visku en einstakur sérfræðingur.“

„Þú meinar …“ Sá ljóshærði hikaði um stund eins og hann væri að melta þá visku sem heimamaðurinn hafði miðlað. „Þú meinar að þar sem að fjöldinn á það til að telja mig finnskan þá ætti ég að draga mína eigin sérþekkingu í efa þegar ég ákvarða mitt eigið þjóðerni?“

„Þetta er nú bara kenning,“ sagði heimamaðurinn og yppti öxlum.

„Ég held nú síður,“ sagði sá ljóshærði og hristi höfuðið.

„Þú hefur líklega rétt fyrir þér,“ viðurkenndi heimamaðurinn og setti upp skeifu. Skeifan breyttist þó brátt í bros líkt og hann hefði fengið snilldargóða hugdettu. „Kannski er þetta bara spurning um líkindi!“

„Líkindi?“ Sá ljóshærði virtist hissa.

„Já, líkindi. Fólk veit að þú ert norrænn en ekki skandinavískur — í Scandinavian Airlines skilningi þess orðs. Ef þú setur alla ó-skandinavíska norræna menn í hatt og dregur síðan úr hattinum einn mann af handahófi þá ertu mun líklegri til þess að draga Finna heldur en Íslending.“ Heimamaðurinn virtist hróðugur með þessa kenningu sína. „Þess vegna eru margir sem telja þig óvart Finna en ekki Íslending. Það er ekki þeim að kenna. Þetta er bara lögmál líkindafræðinnar.“

Maðurinn sem að ókunnugir hefðu getið sér til um að væri Svíi eða hugsanlega Norðmaður hristi höfuðuð og starði opinmynntur á heimamanninn. Heimamaðurinn starði á móti.

„Hversu lengi höfum við þekkt hvorn annan?“ spurði sá ljóshærði.

„Í hálft ár,“ svaraði heimamaðurinn og virtitst hissa á spurningunni. „Hví spyrðu?“

„Við höfum þekkt hvorn annan í hálft ár og þrátt fyrir það þá er ég fyrir þér ekki meira en einhver ó-skandinavískur norrænn maður dreginn af handahófi úr hatti!“

„Ég meinti það nú ekki þannig.“ Heimamaðurinn fór hjá sér. „Þú veist hvað ég meinti.“

„Já já,“ viðurkenndi sá ljóshærði, brosti og virtist vita nákvæmlega hvað heimamaðurinn meinti.

„En hvert er annars svarið við upprunalegu spurningunni?“ spurði heimamaðurinn.

„Hver var aftur spurningin?“ spurði sá ljóshærði og var greinilega búinn að steingleyma upphaflegu spurningunni.

„Hvernig er umferðarmenningin í Finnlandi?“

Smásagan Hvernig er umferðarmenningin í Finnlandi? er hluti af smásagnasafninu 999 Erlendis.